Að keppa við niðurhal á erlendum þáttum

Stöð 2 tók nýlega upp á því að sýna Game of Thrones innan við sólahring frá því að þátturinn er sýndur í Bandaríkjunum. Það er ágæt leið til að keppa við niðurhal. Þetta erlenda efni er víst líka aðgengilegt í gegnum netið. Sem er líka ágætt. Mér sýnist þeir hins vegar setja erlenda efnið á netið eftir að það er frumsýnt í sjónvarpi. Það er ekki alveg jafn góð samkeppni við erlenda niðurhalið.

Mér dettur í hug að Stöð 2 gæti sett erlendu þættina á netið um leið og þeir eru komnir í hús (og Voddið eða hvað sem það heitir). Ég veit reyndar ekkert hvernig fyrirtækið fær þættina senda í dag. Þegar ég vann þarna komu sumar seríur í heilu lagi í kössum en aðrar voru sendar á stökum spólum. Kannski fá þeir þetta sent rafrænt núna og kannski ekki. Ef þeir fá, eða geta fengið, þættina senda rafrænt þá ættu þeir að skella þeim beint á netið. Það væri um leið aðferð til að koma þáttunum í hendur þýðenda. Þá þyrftu ekki að taka þættina sérstaklega upp fyrir þá (þegar ég vann þarna fengu þýðendur þættina á myndbandsspólum).

Ég held að það sé engum sem þykir sérstaklega gaman að eltast við að hala niður sjónvarpsþáttum af netinu og ef þeir gætu treyst því að hafa þá aðgengilega á sama tíma án fyrirhafnar beint í sjónvarpið sitt þá myndu örugglega margir þiggja það með þökkum (og greiðslum).

Þetta tengist líka því, sem ég hef talað um í mörg ár, að sjónvarp sem gefur þér aðgang að ákveðnu efni á ákveðnum tíma sé deyjandi miðill. Þetta mun líka, í fyllingu tímans, vonandi frelsa okkur frá þeirri ónáttúru að allir sjónvarpsþættir þurfi alltaf að vera jafn langir. Við sjáum til dæmis á Game of Thrones og öðru frá HBO að þeir leyfa sér alveg að flakka með lengdina á þáttunum. Þarfir efnisins fá að ráða frekar en takmarkanir miðilsins.