Laun listamanna og opinn aðgangur

Áður en lengra er haldið þarf ég að taka fram að ég er hlynntur listamannalaunum. Ég er jafnvel hlynntur því list sem ég skil ekki og hef ekki áhuga á sé styrkt.

Ég hef, eins og hef nefnt áður, verið að skoða opinn aðgang að fræðilegu efni. Ein helstu rökin fyrir því að afrakstur vísindastarfs eigi að vera í opnum aðgangi er sá að rannsóknirnar sem þessi afrakstur byggir á er fjármagnaður af almenningi og eigi því að vera aðgengilegur almenningi.

Ég spyr:

  • Eiga laun sem sem ríkið greiðir listamönnum fyrir að vinna verk eigi að veita almenningi rétt til aðgangs að þeim verkum?
  • Er réttlæti í því að almenningur borgi einhverjum fyrir að vinna verk og borgi síðan aftur fyrir aðgang að verkinu?
  • Hefur almenningur bara rétt til þess að borga aftur og aftur fyrir sama verk?¹

Ég hef í þessu samhengi líka velt fyrir mér öðrum greiðslum til listamanna sem koma frá ríkinu. Ríkið annast til dæmis gjaldheimtu á vörugjaldi á geisladiskum, tölvum og fleiru sem fara til listamanna (eða allavega til hagsmunafélaga þeirra). Rithöfundar geta síðan gengið borgað fyrir útlán á bókum sínum á bókasöfnum. Tónlistarmenn fá borgað fyrir flutning á efni þeirra í Ríkisútvarpinu. Því miður eru þessar greiðslur ekki reiddar af hendi fyrir opnum tjöldum. Það væri eðlilegast ef við gætum fengið gögnin í hendurnar og séð hvernig þær dreifast og á hvaða forsendum.

Allavega geri ég ráð fyrir að tölurnar myndu sýna að fáir listamenn hafi miklar tekjur úr þessum áttum en flestir listamenn fái litlar sem engar greiðslur. Mér þykir þetta ekkert rosalega sanngjarnt. Ég myndi vilja þök á þessar greiðslur – minni peninga til þeirra sem fá mest og meiri peninga fyrir þá sem fá minnst. Ég sé fyrir mér að ýmsir séu ósammála mér þar sem þessar greiðslur tengjast notkun á verkum listamanna en ég vil frekar að fleiri geti séð fyrir sér að einhverju leyti með launum vegna listsköpunar sinnar heldur en að hinir fáu geti orðið ríkir.

Hér spilar líka inn í að þeir sem fá hæstu greiðslurnar eru um leið líklegir til þess að fá háar fjárhæðir úr öðrum áttum – s.s. ritlaun og vegna tónleikahalds. Það skiptir mig líka miklu máli að kerfið í heild kemur sér verr fyrir unga listamenn heldur en þá eldri. Þeir gömlu geta fengið góðar summur úr mörgum áttum en þeir ungu eru heppnir að fá yfirhöfuð eitthvað í sínar hendur.

Eru ekki einhverjar leiðir til þess að tengja þetta saman? Getum við sagt að með því að þiggja listamannalaun þá gefi listamaðurinn eftir til dæmis greiðslur fyrir flutning á verkum hans í útvarpi allra landsmanna eða að bókasöfn þurfi ekki að borga fyrir útlán á bókum hans.

Í tilfelli rithöfunda finnst mér hægt að tengja þetta við deilur útgefenda og bókasafna um útlán á rafbókum. Er einhver sanngirni í því að almenningur sem hefur borgað höfundi laun til að skrifa bók fái ekki aðgang að henni á rafbókarformi í gegnum bókasöfn landsins? Þegar kemur að samningum bókasafna við útgefendur er rétt að muna að greiðslur ríkisins til listamanna eru ekki bara laun til til höfunda heldur óbein niðurgreiðsla á útgáfukostnaði.

Ég vil sumsé jafnari dreifingu á greiðslum ríkisins til listamanna þannig að fleiri geti haft sómasamleg laun. Ég vil um leið að almenningur sem borgar listamönnum laun hafi einhvern rétt á aðgangi að verkum þeirra. Ég tel þetta hvort tveggja ákaflega sanngjarnar kröfur.

¹ Sjá skrif Hauks Más og Eiríks Arnar með svipuðum pælingum.