Star Trek ellefu cirkabát

Í gær fór ég á Nexus forsýningu á nýju Star Trek myndinni. Ég reyndi að fá einhvern með mér en fólk svarar ekki, er í prófum eða er ekki hrifið af Star Trek þá það sé eftirmynd nýja Spock.

En ég gerði líka fastlega ráð fyrir að ef ég myndi mæta þá væri einhver sem ég þekkti á staðnum. Vinir mínir eru slíkir nördar. Þegar ég mætti var röðin orðin endalaus en sem betur fer var Erlendur þarna og hann tók frá fyrir mig sæti. Á meðan hann beið keypti ég mér stóra kók og stóran popp. Stóra kókið var ekkert sérstaklega stórt en stóri poppinn var miklu stærri en mér hafði sýnst og endaði í mesta lagi hálfkláraður í ruslinu.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Star Trek mynd í bíó. Það gladdi mig að þarna var allavega einn í búningi og þar að auki nokkrir með svona stjörnuflotamerki.

Myndin sjálf var alveg frábær. Hún hélt manni frá upphafi til enda. Hún náði líka að gera það án þess að vera með fullt af klæmöxum. Hún náði að gera góðlegt grín að gamla Star Trek og þó um leið vera nokkuð trygg anda þess. Ég á erfitt með að ímynda mér að gamlir aðdáendur verði ekki hrifnir. Allir þeir sem hafa nokkuð gaman af Star Trek ættu líka að kíkja. Ég veit ekki með rest. Gefið henni allavega séns. Þetta er mikið betri mynd en þær eldri.

Ég hef alltaf verið hrifnari af þáttunum en myndunum. Ég hef þó aldrei náð að horfa á  upprunalegu seríuna í gegn. Hún var aðeins of asnaleg. Ég hef nennt að horfa á slatta af öllum hinum seríunum og haft gaman af.

Geimferð: Næsta Kynslóð (87-88)

Ég hef þá horft á fyrstu seríuna af Star Trek: The Next Generation, fyrst sýnd 1987-1988. Serían fjallar um áhöfn Picards á The Enterprise, Data (vélmennið), Worf (Klingoninn), Riker (númer eitt), Geordi (blindi náunginn), Troi (ráðgjafinn), Wesley (drengurinn, sá er núna með bloggsíðu) og Crusher (læknirinn). Þetta er mjög góð skemmtun, að vísu var þarna framan af leikari (barnabarn Bing Crosby) sem var á sápuóperustiginu en hún var drepin svo það endaði vel.

Serían byrjar á því að allir hittast og það er vel gert, ævintýri geimnum taka við, endurtekin kynni við geimveruna Q (sem pirraði mig) og Ferengíana (sem voru misheppnuð tilraun til að búa til óvini) eru einkenni seríunnar. Í lokaþættinum var eitthvað spúkí á seyði, fyrst voru Rómúlarnir grunaðir en það gekk ekki upp. Aðalóvinir Picards eru ekki komnir fram á sjónarsviðið og því grunar mig að á bak við þetta skuggalegu atburði hafi verið The Borg. Resistance is Futile!
Brellurnar eru skondnar, flest allt er í svona „stop-motion“ tökum þannig að maður sér geimskipið rykkjast áfram.

Þetta lofar semsagt allt góðu enda hefur oft verið sagt að hér sé um að ræða bestu sci-fi þáttaröð sem framleidd hefur verið.

Star Trek – Yfirlit

To boldly go where no man has gone before
Gene Roddenberry skapaði Star Trek heiminn, ein helsta hugsjón hans í þessu sambandi var að skapa framtíðarheim þar sem trúarbrögð væru ekki til (allavega ekki hjá Jarðarbúum (eða homo sapiens sapiens til að hafa þetta nákvæmt)). Þessi hugsjón hefur reyndar verið töluvert svikin síðan hann dó og það er vissulega miður. En hugum að byrjuninni.

Upphaflegu Star Trek serían var ekki alltaf glæsileg enda vantaði fjármagn. Til að byrja með gekk hún út á það að í hverri viku var Kirk geislað niður (því þeir höfðu ekki efni á tæknibrellum sem fylgja lendingu geimskipa) á nýja plánetu (sem var alltaf sama pláneta með nýrri litasíu fyrir myndavélinni) og endaði á stað sem minnti grunsamlega mikið á San Francisco. Þarna leysti Kirk vandamálin. Ég hef reyndar ekki séð þetta sjálfur.

Í seríunni sem hófst 1966 og gekk í þrjú ár sást líka önnur hugsjón Roddenberry, algert jafnrétti mun ríkja í framtíðinni. Þetta var líklega fyrsta sjónvarpsserían í Bandaríkjunum þar sem svört kona (Uhura) var í hlutverki sem jafningi, ekki sem þjónustustúlka eða matreiðslukona. Whoopi Goldberg hefur sagt frá því að þetta hafi verið henni mikill innblástur. Annað sögulegt atriði var í upphaflegu seríunni var þegar fyrsti koss hvíts karlmanns og svartrar konu í bandarísku sjónvarpi. Það er reyndar skondið að upphaflega átti Spock að kyssa Uhura en William Shatner áttaði sig á sögulegu gildi þessa atriðis og heimtaði að Kirk myndi kyssa hana.

Fyrsta Star Trek myndin kom í kjölfar þess að það átti að gera nýja þáttaröð, það var árið 1979 og tíunda myndin kom út í fyrra.

Fyrsta „spin-off“ serían kom árið 1987 þar sem áhöfn Picards (Patric Stewart) varð The Next Generation cirka 75 árum eftir að upphaflega serían hófst.

Árið 1993 kom Deep Space Nine sem gerist á svipuðum tíma og TNG, þessa seríu ættu íslenskir sjónvarpsáhorfendur að kannast við einsog þær seríur sem fylgdu.

Í kjölfarið kom Voyager árið 1995, sú þáttaröð gerist á sama tíma en færir okkur á annan stað í alheiminum.

Nú síðast kom þáttaröðin Enterprise árið 2001 sem gerist um 115 árum fyrir atburði fyrstu seríunnar, kemur reyndar frekar mikið í kjölfar myndarinnar First Contact.

Ég hef alltaf á tilfinningunni að þú getir ekki notið Star Trek nema að þú hafir húmor fyrir fáránleika þessa heims. Eitt uppáhaldið mitt er hið síendurtekna (allavega í þáttunum) atriði þegar nokkrar aðalpersónur fara niður á einhverja plánetu með einhverju áhafnarmeðlimum sem áhorfendur hafa aldrei séð en aðalpersónurnar þekkja með nafni. Lífslíkur þessara óþekktu skipverja eru ekki miklar, oft eru þeir aðallega með til þess að sýna að skipverjarnir eru ekki ódrepandi (nema aðalpersónurnar (nema þegar leikararnir eru að hætta í seríunni)). Alltaf gaman.

Nú fer ég að horfa á upphaflegu seríuna bráðum og ég mun birta álit mitt á henni að einhverju leyti, hvort ég gerist svo grófur að birta dóm um hvern þátt efast ég um en hver veit? Kannski ég birti bara almennan dóm um hvert ár í seríunni fyrir sig. Eftir að upphaflegu seríunni líkur mun ég hefjast handa við The Next Generation sem margir telja þá bestu.

Live Long and Prosper.

Geimferð X: Versti óvinur númer eitt

Star Trek X: Nemesis hefur nokkuð brilljant meginþema sem er tvífarar. Enterprise er sent til Romulus (Romulans er aðallega þekktir fyrir ölið sitt) eftir að ný stjórn hefur tekið þar yfir (einsog gerist víst oft). Þegar Picard kemur til Romulus kemur í ljós að nýji stjórnandi veldisins er nokkuð kunnuglegur. Miðkafli myndarinnar fjallar að mestu um hvort nýja stjórnandanum sé treystandi. Vísbendingar um nýtt ofurvopn fyllir skipverja Enterprise tortryggni.

Þessi var nú með þeim betri (og vissulega á það við um flestar myndir með Next Generation áhöfninni). Tilvísanir í aðrar Star Trek seríur lífga líka upp á myndina.

Búningarnir breytast lítið.

Geimferð IX: Uppreisnarandi

Star Trek IX: Insurrection byrjar á því að einn úr áhöfn Enterprise klikkast, í rannsókn málsins er hulunni svipt ofan af viðamiklu samsæri sem hefur það að markmiði að stela hringjum reikistjörnu. Aðrar áhrifamiklar uppgötvanir fylgja í kjölfarið.

Í þessari mynd má sjá Salieri einsog hann var i þeim atriðum Amadeus sem gerðust löngu eftir að Mozart dó (samt minna hár).

Búningarnir eru nær litlausir, gráir um axlirnar fyrir utan kraga sem sýnir stöðu skipverja.

Þessi mynd er bara nokkuð mögnuð, bæði hasarinn og heimspekin.

Geimferð VIII: Fyrsti Kossinn

Star Trek VIII: First Contact fjallar um tilraun Borganna til að ráðast á Jörðina áður en Vörputæknin varð til. Picard kemur til að stoppa þá en hann er knúinn áfram af ótrúlegu hatri. Hluti áhafnarinnar hjálpar Jarðarbúum að ná sér eftir árás Borgverjanna á meðan hinn hlutinn berst við eftirlegu Borgaranna. Data (sem er tölvuvera einsog þeir sem nota norrænar tölvur vita) á gríðarlegri andlegri baráttu við drottningu Borgmanna.

Myndin er góð.

Patric Stewart er góður leikari en myndina skortir þann sjarma sem fylgdi alltaf amatörtöktum William Shatners.

Búningarnir eru þeir sömu og í síðustu mynd (held ég).

Geimferð VII: Niðjar

Star Trek VII: Generations byrjar á því að Kirk sogast inn í ákveðna búð í Reykjavík, 80 árum seinna sogast Picard (sem er þá skipherra á Enterprise) inn í sömu búð. Þeir hittast þar og saman stoppa þeir Alex úr A Clockwork Orange frá því að drepa milljónir manna (þetta þarf hann að gera til að komast inn í þess reykvísku búð).

Ekki var þessi mynd á háu stigi, söguþráðurinn afskaplega holóttur. Atriði þar sem eldflaug fer frá yfirborði reikistjörnu að sól á 11 sekúndum er stórskemmtilegt í því hvernig er gengið framhjá augljósum hindrunum sem raunveruleikinn myndi leggja í veginn.

Af skemmtilegri atriðum má nefna að Whoopi Goldberg leikur hér barþjónn sem segir Picard frá því þegar hún fór í títtnefnda reykvíska búð (hún hefur einmitt leikið í sjónvarpsþáttunum sem Picard var í).

William Shatner kemur fram í síðasta sinn og kveður seríuna með leik sem hlægir mann.

Kirk er enn og aftur í 80s búningi en Picard er í þessum frekar þrönga búningi (þó ekki Spandex). Reyndar kemur Picard fyrst fram í búningi sem hefði passað vel við Shatner.

Geimferð VI: Ófundna landið

Star Trek VI: The Undiscovered Country er síðasta myndin í flokknum sem hefur áhersluna á „gömlu kynslóðina“. Stjörnusambandið og Klingonarnir eru að reyna að semja frið, Kirk er vantrúaður. Einhver reynir að spilla friðinum og Kirk lærir dýrmæta lexíu, í lok myndarinnar klappa allir.

Myndin er frá 1991 og inniheldur ótal vísanir í fall Sovétríkjanna (Klingonarnir). Þetta er líka síðasta myndin sem Gene Roddenberry sá því hann dó innan tveggja sólahringa (og það var ekki af því honum þótti myndin svona vond). Myndin er mjög fín á Star Trek mælikvarða.

Fjöldinn allur af skemmtilegum leikurum kemur þarna fram, Kim Cattrall úr Beðmál í Borginni kemur þarna fram (og var víst mynduð fáklædd á sviðsmyndinni), Christopher Plummer leikur óþokka og Christian Slater kemur örstutt fram. Hlutverk Kim Cattrall náði meiraðsegja að réttlæta fyrir Eygló að horfa á smá bút úr myndinni, kannski að aðrir aðdáendur Beðmálanna vilji sjá þessa mynd því hvergi annars staðar geturðu séð Sam sem Vúlkana (nema hugsanlega í einhverju af þeim afbrigðulegu kynlífsatriðum sem koma fram í Beðmálunum).

Þetta minnir mig reyndar á skemmtilega sögu um Slater. Einsog þið munið kannski eftir hefur hann hálfskrýtnar augabrýr, ástæðan fyrir þeim er ást hans á Star Trek. Þegar hann var lítill lék hann Spock á Hrekkjavökunni bandarísku og rakaði augabrýrnar sínar til að líkjast hetjunni, þær hafa aldrei náð sér eftir það.

Búningarnir eru þessir klassísku lélegu 80s hljómsveitabúningar.

William Shatner á stjörnuleik í einu atriðinu með hjálp tæknibrellufólksins, rassinn á honum var minnkaður að hans ósk og því lítur hann einu sinni í myndinni út fyrir að vera eins böff og í Star Trek I. Í öðru atriðinu kemur Shatner tvöfalt fram og því leikur hann tvöfalt verr en vanalega.