Málsvörn fyrir síðustu færslu

Síðustu færslu átti ekki að skilja á þann veg að ég væri á nokkurn hátt að gera lítið úr þjáningum gyðinga. Vissulega er það rétt hjá Skúla, að maður fær ekki leið á mannlegum þjáningum eins og dægurlagi, en maður getur hins vegar fengið sig fullsaddan á dægurefni tengdum mannlegum þjáningum, svo sem kvikmyndum og bókum. Við þá ofgnótt af slíku efni sem við búum er harla skiljanlegt að fólk dofni fyrir eymd annarra, jafnvel svo, að því standi á sama. Þess vegna finnst mér nóg komið af eymdarskúspilum um þjáningar gyðinga.

Svo nenni ég ekki að standa í frekari sennum vegna þessa máls. Fólk má teygja skilningsspássíu bloggfærslunnar langt út fyrir nasisma og gyðingahatur mín vegna. Fólk hefur líka svo gaman af því að rangtúlka og mótmæla öllu sem ég segi.

Þankagangar á Páskadegi

Í gær mætti ég Herði Torfa, hver virtist eigi sérlega ánægður að sjá mig, og uppskar ég illt augnaráð fyrir vikið. Það var nánast eins og hann vissi hve duglegur ég hef verið að auglýsa hversu mjög ég þoli ekki tónlist hans.

Í „fríinu“ hef ég horft meira á sjónvarp en eðlilegt getur talist á minn mælikvarða. Í fyrsta sinn sá ég Dead Poets Society á dögunum og fannst hún ágæt. Svo er alltaf fyndið að sjá leikara eins og Ethan Hawke, sem orðið hafa frægir í seinni tíð, á gelgjuskeiðinu í sextán ára gamalli mynd.

Einnig sá ég A Few Good Men og megnið af The Pianist. Það verður ekki annað sagt en að þjáðir gyðingar sé orðið steindautt konsept til að byggja mynd á. Eru ekki allir komnir með leið á þessu? Að öllu öðru slepptu hefðu menn getað hætt við allar framtíðaráætlanir um slíka kvikmyndagerð eftir tilkomu Schindler’s List. Hún verður seint toppuð. Þara auki mun fátt nýtt koma fram um þjáningar gyðinga (sama hversu margar myndir þeir gera) og erfitt mun reynast að lýsa þeim á ógeðfelldari hátt en Spielberg auðnaðist.

Páskadagur í dag og ég er örþreyttur. Ég anda fyrst rólega þegar fríinu er lokið og rannsóknin komin til hinsta dóms. Eins og ættingjar mínir vafalaust tóku eftir í gær er stressið farið að hafa áhrif til nokkurra skapsveiflna. Eða með orðum nútímamannsins: Fokk, mar.