Það er ekki hættulaust að lesa

Ég gaf Nietzsche annan séns áðan og hef nú tekið hann í sátt aftur. Ég þurfti þó fljótlega að hætta að lesa því kúpan af leslampanum losnaði og féll í öllum sínum eldglóandi ofsa í kjöltu mér. Í flýti mínum varð mér á að ýta kúpunni af mér með þumalfingri svo ég brann. Ég flýtti mér að ná í pottalepp og snaraði kúpunni af léttsviðnum sófanum og lagði í vaskinn.

Svona pínulítill hlutur og svona líka sjóðheitur. Eins gott að skilja aldrei við lampann með kveikt á honum svona hangandi yfir mublunum. Ég vona bara að ísinn geri sitt gagn til að bæta mér líkamlega tjónið.

112163364315325064

Áreiðanlega eru margir hlutir erfiðari en að finna nál í heystakk, a.m.k. ef marka má þann sem sagði mér einhverntíma að hann hefði fengið nál í rassinn, þegar hann settist á heystakk. Ég man nú ekki hver sagði mér þá sögu. Hvort það var Alli eða einhver annar, sem þrumuskýin elta, og allt slæmt virðist koma fyrir.

Áðan rigndi en nú skín sólin. Ætli það rofi loks til?

112163022712958992

Í gær kom maður í búðina sem vildi kaupa einhvern fjandann sem ekki var til. Þegar ég sagði honum hvernig í pottinn var búið, sagðist hann alltaf muna eftir 26. desember 1993, því þá var það til í búðinni sem hann vildi kaupa.

Í þann tíð var IKEA í Kringlunni og Mikligarður var um það bil að leggjast af. Mikligarður fannst mér góð búð þá. Eflaust var hún það samt ekki.
Þá voru Samskip til húsa þar sem Rúmafatalagerinn er núna. Í dag á IKEA gamla Samskipahúsið fyrir neðan Holtagarða.
Þessi búð sem svo margir elska að hata að versla við hefur því stækkað mikið síðan 1981, þegar IKEA var lítil deild í Hagkaupum.
Mér skilst að bráðlega verði opnuð þrefalt stærri verslun, hugsanlega í Garðabænum, og þá verði versluninni í Holtagörðum lokað. Fyrir þann tíma þarf ég að finna mér nýja vinnu.

Annars plagar mig verkur sem ég af lítilli anatómískri kunnáttu staðset í hægra nýra, ef slíkt líffæri er þá til. Þetta er eins og krónískur hlaupastingur, aðeins verri. Ég læt kannski líta á þetta við tækifæri, ef þetta hverfur þá ekki af sjálfu sér.