Sorg á Reykjanesbrautinni

Á leiðinni úr Breiðholti hinu efra, rak ég augun í nokkuð óvenjulegt uppi á vegarkanti. Það er tvennt sem kemur til greina að hafi gerst. Annars vegar hefur ungur bílstjóri í soldátsfötum keyrt aftan á mann í borgaraklæðum og skaðað fjórfættan farþega hans. Hins vegar getur verið að hundurinn, sem lá lífvana á vegarkantinum, hafi verið á vappi nærri götunni þegar óhappið átti sér stað.
Soldátinn ungi rak fót í dýrið til að sjá hvurt nokkuð lífsmark væri með því, og brást sá borgaraklæddi hinn versti við, en sá síðarnefndi hélt hundinum í fangi sér, nuddandi feld hans. Honum var augljóslega brugðið.

Er ég var kominn að brúnni sem liggur upp í Ártúnsholt sveigði sjúkrabíll niður brúna í átt að slysstað. Þrennar mögulegar útskýringar get ég fundið á því. Í fyrsta lagi getur þetta hafa verið tilviljun, og að sjúkrabíllinn hafi í raun verið á leið annað. Í öðru lagi hefur einhver manneskja slasast að mér óafvitandi, því engin meiðsl sá ég á fólki. Í þriðja lagi getur verið, að þrátt fyrir allt sem ég hef alltaf haldið, taki sjúkrabílar einnig við húsdýrum. Ske kynni, að hundurinn lifi, en þar endar sagan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *