Plötukaup

Í gær keypti ég Cure-plöturnar „Boys don’t cry“ og „Pornography“. Gerði ég svo af tveimur ástæðum:

1. Ég hef ekki getað hlustað á neitt annað í rúmar þrjár vikur og vildi meira með þeim.
2. Bróður mínum áskotnaðist DVD-diskur með öllum/helstu myndböndum þeirra og mig langaði að eiga sum lögin á geisladiski.

Ég ætla að reyna að tjá mig örlítið um plötur þessar þrátt fyrir að hafa ekki náð að hlusta neitt sérstaklega vel á þær enn.

Boys don’t cry
Boys don’t cry er talsvert pönkuð plata miðað við annað sem ég hef heyrt með Cure. Platan byrjar á samnefndu lagi, sem er algjör snilld, en gerist pönkaðri strax á næsta lagi – Plastic Passion. Platan verður skemmtilegri eftir því sem á líður og endar á snilldarlaginu Three Imaginary Boys, sem raunar er titillag fyrstu plötu þeirra, en hefur, ásamt fleiri lögum þeirrar plötu, ratað einhverra hluta vegna inn á þessa. Platan er mjög skemmtileg en fyrir okkur, sem höfum lítið til samanburðar, er þetta heldur óvenjuleg hlið á þeim.

Pornography
Ég hlustaði á fyrsta lagið af Pornography – One Hundred Years – í morgun og mér leið ólýsanlega illa eftir á. Lagið var engu að síður mjög flott. Hins vegar held ég að ég neyðist til að spara þessa þar til mér líður sérstaklega illa; svo ég eyðileggi ekki góða skapið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *