Kryddsíldin

Halldór Ásgrímsson fær prik fyrir að dissa Össur. Það er alveg rétt að ákvarðanir Samfylkingarinnar eru teknar eftir skoðanakönnunum, sem þýðir að oft leika menn þar tveimur skjöldum og í þversögn við fyrri „stefnu“ flokksins. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir kjósendum þeirra.

Fyrst menn gerðust svo háfleygir á að minnast á og jafnvel mæra Reykjavíkurlistann er kannski rétt að mín afstaða til þess skrípis komi hér fram (er hún ekki þegar komin fram?). Ég hef lent í því að andstæðingum R-listans þyki það sjálfsagt að gagnrýna mig og jafnvel vinstrimenn almennt vegna þess að hann stendur sig ekki í stykkinu. Hvernig fá menn þetta út? Er hægt að tala um vinstrimenn í borgarstjórn, þegar þar ráða kratar? Á ég að verja eitthvað sem ekki aðeins kemur niður á minni eigin sannfæringu, heldur einnig flokknum eins og hann leggur sig? Nei, ekki ætla ég mér að verja fíflaskapinn í Stefáni Jóni og kratabandalaginu. Þá gæti ég allt eins tekið upp hanskann fyrir Samfylkinguna á daglegum basis. Sem ég geri ekki.

Hamfarir

Það er kannski kominn tími á að blogga um þær gríðarlegu hamfarir er átt hafa sér stað í Indónesíu og víðar. Yfir 55000 manns eru látnir samkvæmt nýjustu fréttum. Jarðskjálftinn, mældist 8,9 á Richter, er sá öflugasti í yfir 40 ár. Nú reynist bjánalega Stalínkvótið vera eins fjarri sannleikanum og mögulegt er. Þetta er harmleikur, ekki tölfræði.

Lítið er hægt að segja um sjálfan harmleikinn sem nær að lýsa honum nægilega vel. Sérstaklega reynist það okkur erfitt sem sitjum heima í þægindum og allsnægtum. Það verður samt að segja eitthvað.

Óneitanlega verður manni hugsað til mestu náttúruhamfara sem vitað er um – þegar eldfjallaeyjan Krakatá sprakk í loft upp einhvern tíma milli Kristsburðar og landnáms Íslands. Gjóskufallið varð svo mikið að himininn myrkvaðist í þrjú ár og til eru skráðar heimildir um það frá öllum heimsálfum. Enginn vissi hvað hafði gerst. Norrænir menn trúðu því að Fenrisúlfur hefði gleypt sólina. Mikil flóðbylgja skall á Indlandi og lagði mikinn hluta austurstrandarinnar í rúst. Hækkandi sjávar varð vart á fleiri stöðum. Þúsundir létust í eftirmála sprengingarinnar, aðallega vegna búspella, þar eð dýrin féllu í hrönnum vegna eitraðs andrúmsloftsins. Hvernig vitum við um upptökin? Öskulög hafa fundist í árhringjum kanadískra trjáa og í Grænlandsjökli sem samsvara þeim við Indónesíu að öllu leyti, þ.m.t. kolefnisgreiningu.

Í þeim hamförum fórust margfalt fleiri en nú. Það varpar samt ekki rýrð á hve hræðilegt þetta er alltsaman. Lengi hefur verið vitað að Indónesía er á eina mesta hættusvæði í heimi. Krakatá hefur sprungið oftar en einu sinni. Til er „dóttureyja“ hennar: Litla Krakatá. Hún gæti sprungið hvenær sem er og valdið móðuharðindum á heimsmælikvarða. Það er til fólk sem ýmissa ástæða vegna verður að búa þarna. 55000 þeirra eru látnir, þar af rúmlega 27000 í Indónesíu og 8500 á Indlandi. Það er vert umhugsunarefni fyrir okkur sem höfum það svo gott.

Jólin 2004

Já, ekki fer ég í jólaköttinn í þetta sinn. A.m.k. hefur hann ekki látið á sér kræla. Þetta fékk ég í jólagjöf, að undanskilinni einni gjöf sem ég ætla ekki að tjá mig um hér:

* Eddukvæðin, öll í einni bók,
* Konungasögur – þrjár bækur,
* Svört jakkaföt, skyrta og bindi,
* Glænýir og glæsilegir skór,
* Tenderfoot – hljómplata,
* Englar og djöflar eftir Dan Brown,
* Svartur stuttermabolur,
* Ríddu mér eftir Hugleik Dagsson.

Þá er að sjá hvort aðrir bloggarar fylgi fordæmi mínu og birti sína jólagjafalista. Annars hafa þessi jól aðallega farið í að borða og horfa á sjónvarp. Um daginn horfði ég á Amélie og Crouching Tiger, Hidden Dragon, en horfa má endalaust á þær báðar án þess að fá leið á þeim. Ég horfði þó ekki á endann á þeirri síðarnefndu. Það er nóg að þurfa að horfa upp á ömurlegt hlutskipti Li Mu Bai einu sinni.
Í gær horfði ég á Moulin Rouge. Hún er einnig sígild og óþarfi að hafa um hana fleiri orð. Áðan horfðum við bræður svo á Neverending Story. Það er mynd sem ánægjulegt var að rifja upp kynnin við. Æðisleg mynd, þó ekki nema væri fyrir titillag hennar, sem er algjör snilld. Svona myndir eru ekki gerðar lengur, skömm sé frá að segja. Raunar er svo mikill skortur á almennilegu barnaefni að menn eru farnir að endurframleiða klassabarnaefni frá níunda áratugnum eins og He-Man, Transformers og Turtles. Er ekki alveg ljóst að við sem ólumst upp á þeim tíma hafi upplifað allt það besta sem iðnaðurinn hefur gefið af sér? Ég held það.

Aðfangadagur

Í gær mætti ég til vinnu klukkan fjögur og var þar til hálftólf, sem var ágætt. Fólk var rólegt, allir í jólaskapi, og lítið var að gera. Svo atvikaðist að sjálfur Sigurður Kári pseudolíbertarían kom á kassa til mín. Hann var langtum kurteisari en venjulegt getur talist.

Að vinnudegi loknum var ég leystur út með miklum gjöfum, körfu með hangikjötslæri, hátíðarsíld, reyktum laxi, graflaxi, graflaxsósu, Carr’s kexi, fínum ostum, sultukrukkum, After Eight, rauðkáli, Ora grænum baunum og jólaviskustykki. Semsagt allt í kvöldmatinn. Það var höfðingleg gjöf.

Einnig fékk ég einstaka afmælis- og jólagjöf frá Alla og ann honum þakkir mínar fyrir.

En í dag er Aðfangadagur. Sem endranær kom það mér algjörlega í opna skjöldu, mér finnst ekki eins og það sé Aðfangadagur í dag og ég er þ.a.l. ekki í neinu jólaskapi. Hins vegar er ég í góðu skapi og læt það nægja. Enn er nóg að gera fram að kvöldmat og kemur graflaxinn sér að góðum notum fram að kvöldmat Og þá er ekkert eftir en að óska öllum lesendum þessarar auðmjúku bloggsíðu, kenndum sem ókenndum, gleðilegra jóla! Mér finnst hins vegar mikilvægt að hugsa til þeirra sem ekki fá notið lífsins á þessum tíma hinna mestu lystisemda og finnst því rétt að minna á ástandið í Afríku og Asíu, þá sérstaklega Eþíópíu, Fílabeinsströndina, Írak og Súdan. Eigið þið gleðileg jól, en hafið það hugfast, hversu gott þið hafið það.

Föt og klipping

Hvergi bólaði á Ásgeiri, enda mæta öryggisverðirnir sjaldnast fyrir klukkan sex. Hins vegar má segja að ég verði ekki beinlínis ræfilslega klæddur á Aðfangadag, onei. Svona fín föt hef ég aldrei áður átt. Ekki spillir heldur fyrir að ég fór fyrr í dag og borgaði konu fyrir að taka hárið mitt. En ekki var hárið nú mikils virði, fyrst ég þurfti að borga konunni fyrir að taka það. En svona er þetta. Sumir borga fyrir hár, aðrir borga fyrir að fá það fjarlægt og hvorugur skilur hve heppinn hinn er.