Raddir og Gettu betur

Eftir að hafa skrifað síðustu færslu lagði ég mig. Skyndilega, fyrir svona klukkutíma, hrökk ég upp þegar hryllileg óhljóð bárust upp um gólfið hjá mér, í fyrstu aðeins barnsgrátur, en fljótlega kven- og karlmannsöskur. Skarkalinn gaf vísbendingu um að ekki aðeins væri verið að henda húsgögnum í fólk heldur væri slökkviliðið einnig á æfingu í stigaganginum við að hlaupa upp og niður stigana. Mér varð nóg um þegar við karlinn, konuna og barnið bættust fleiri öskrandi raddir. Ég hélt í fúlustu alvöru að hugsanlega væri leiðinlegi maðurinn á hæðinni fyrir neðan að sarga af konunni sinni fæturna með laufsög, hægt og bítandi. Ef ekki það þá eitthvað verra. Dauðskelkaður náði ég í bróður minn og bað hann hlusta. Hann heyrði ekki mikið. Raddirnar höfðu hætt. Þegar ég lagðist svo aftur til hvílu komu raddirnar aftur. Gott ef það er ekki vísbending um að ég sé að snappa!

Á eftir keppir MS við Verkmenntaskólann á Akureyri í Gettu betur. Til þess er ætlast að vér félagar Þorkels kappa mætum. Ætli ég verði ekki við því. Ef ég heyri raddir uppi í Efstaleyti veit ég að ég á mér ekki viðreisnar von í geðheilsupakkanum. Ég set þann fyrirvara á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *