Klukk

Var klukkaður af Alla. Það þýðir víst að ég þarf að blogga fimm staðreyndir um sjálfan mig.

1. Þegar ég var lítill barði ég þá sem gerðu á hlut minn. Í áttunda bekk fann ég að ég hafði ekki lengur yfirburði og hætti allri ofbeldishegðun. Guð má vita hvernig ég hefði orðið annars.

2. Margir skólafélaga minna úr grunnskóla álitu mig illa gefinn. Hluti ástæðunnar fyrir því að ég fór í MR var til að sanna að svo væri ekki. Það má segja að það hafi tekist, enda þótt ég hafi svo skipt um skóla. En þá var ég sjálfur orðinn sannfærður um að ég ætti mér ekki viðreisnar von.

3. Síðan hef ég orðið mjög metnaðargjarn. Raunar svo metnaðargjarn að helst þyrfti að halda aftur af mér fremur en að hvetja til dáða.

4. Í tíunda bekk fékk ég þá flugu í höfuðið að gerast prestur, vegna þess að ég hafði heyrt að ríkið greiddi fyrir þá bensínreikninginn. Svo fór mér að finnast það siðlaust.

5. Þegar ég var sjö ára missti ég jólasveinatrúna og afa minn á sama degi. Jólasveinninn féll í skuggann. En síðan þá hef ég verið mótfallinn jólasveinum og öðrum hégiljum sem logið er að börnum. Síðan þá hef ég borið meiri virðingu fyrir afa mínum en flestum öðrum og viljað fræðast sem mest um hann. Mér finnst ég aldrei hafa komist að nógu miklu.

Ég klukka Bjössa, Skúla, Brynjar, Silju Hlín og Silju Rós.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *