Enn eitt vinnubloggið

Í vinnunni í gær var maður sem leit nákvæmlega út eins og Sean Connery. Í vinnunni í dag var maður sem leit nákvæmlega út eins og Orlando Bloom. Hef ég það að sönnun fyrir því að tímarnir verða aðeins verri.

Í lok vinnudagsins þurfti ég að afgreiða mann sem leit út eins og fífl. Þegar hann var með vesen hringdi ég í verslunarstjóra. Það endaði á því að ég þurfti að fara með manninn í verslunarferð um búðina. Það fór í mínar fínustu, því búðinni hafði verið lokað nokkru fyrr, fyrir utan það náttúrlega að ég vinn ekki við að tína ofan í innkaupakerrur fólks, halda á hillunum þeirra eða bíða í röð fyrir það inni á lager. Hefði hann ekki verið svo bljúgur fyrir hjálpina hefði ég rifið af honum hausinn. Ég læt ósagt hvað ég hefði gert við hausinn.

Hversdagsblogg

Þá sem ég afgreiddi í versluninni í dag má telja á fingrum annarrar handar. Það gefur tilefni til þakklætis gagnvart veðuröflunum. Vona mín vegna að stormurinn haldist yfir helgi. Svo er líka svo notalegt að standa í hlýjunni heima hjá sér og horfa út í bylinn, jafnvel með tebolla um hönd.

Í lok vinnudagsins keypti ég mér þrjá skrifstofulega muni: Blaðabakka með inn/út merkingum, pennastatíf og minnismiða. Þetta prýðir nú skrifborðið mitt, ásamt því sem fyrir var. Tveimur bókaskápum síðar verður vistarvera mín alveg eins og ég vil hafa hana.

113050631881020845

Það er ömurlegt veður úti. Akkuru?!

Í öðrum fréttum ætlar Anders Fogh að reyna að hindra allar tilvonandi hryðjuverkaárásir í Danmörku. Það sé ég fyrir mér nokkurnvegin svona: Nej! De har sprængt pølsevognen! Hvor i helvede var fænden han Anders Fogh da terroristerne kom til vores fantastiske by?! Ahm, jeg snakkede med dem og de sagde at de ikke var terrorister, så vi skud nogle araber og sådan noget i steden, fordi vi tænkte de måtte være terrorister.

Þannig er víst tískan í landvarnarmálum í dag.

Öfganáttúruvernd

Hugsið ykkur morðingja með nytjastefnu – eignast þrjú börn fyrir hvern þann einn sem hann drepur. Væri hægt að kalla það morðingja með samvisku?

– Þetta gæti verið úr hugmyndafræði þeirra spekinga og öfgagrænfóðursjaplara sem telja allt myrt sem ekki dó sjálft, enda þótt bætt sé upp fyrir það, t.d. þrír græðlingar fyrir hvert tré, eins og gert er í nytjaskógum Noregs.

Samlíkingin er eftir því góð.

Vrövl

Hámarksumferðarhraði á Suðurlandsbraut hefur verið hækkaður úr 50 í 60. Hvers vegna? Vegna þess kannski að fólk hefur alltaf keyrt þar á 60? Er það í lagi þess vegna? Keyrir fólk þá ekki bara á 70, fyrst flestir telja að tíu yfir sé í lagi? Var einhver þörf á þessari breytingu? Þessu velti ég fyrir mér. Kannski vegna þess að ég er því vanur að taka engu sem sjálfsögðu.

Annars þarf ég að fara að keyra litla bróður á karateæfingu. Naumast hvað barnið er ofbeldisfullt.

Lestrarhlé mín og vitfirra

Ég er nærri því búinn með Sjálfstætt fólk. Ég hef verið í lestrarhléi í tvo tíma, enda þótt ég eigi aðeins rétt rúmar tuttugu síður eftir. Þetta kalla ég að fresta því að ljúka bókinni, og ég geri þetta alltaf þegar ég sé fyrir endann á bók, án þess þó að vita hvers vegna ég geri þetta. Ef ég tryði á mér duldar meðvitundir og þessháttar dularkrafta héldi ég því fram að innst inni langaði mig ekki til að klára bækur. En það langar mig. Mig langar til að klára bækur. Og trúi aukinheldur ekki á hindurvitni sálgreiningarinnar. Hinsvegar tengi ég bækur iðulega þeim tíma sem það tók mig að lesa þær og lít oft aftur til þeirra tíma, og minningin er alltaf svo góð. Lesturinn er alltaf fullkominn þegar honum er lokið og hann orðinn að minningu. Og ég fresta því að klára bækur til að freista þess að framlengja þá frábæru tíma lestrarins, enda þótt þeir séu ekki alltaf svo frábærir meðan á þeim stendur.

Með öðrum orðum: Ef þið voruð fyrst að fatta það núna að ég er klikkaður eða voruð búin að gleyma því – mannkindin er jú alltaf svo fljót að gleyma – þá þjónar þessi færsla tilgangi uppljóstrunar eða snöggrar endurminningar, sem á að leiftra fyrir hugskotssjónum ykkar í aðeins andartak, áður hún skellur á ykkur af fullum krafti og mylur sálarvitund ykkar mélinu smærra, ykkur sjálfsagt til mikillar angistar og gnístran tanna.

Með öðrum orðum: Já, ég er svona klikkaður. Hafið það fyrir aðra áminningu.

Hinir hinstu og verstu eins og ávallt

Eins og það var nú hljóðlátt í þessu húsi hér áður fyrr. Nú heyrist barnsgrátur að neðan, bankedíbank að ofan og rifrildi hinum megin frá; alstaðar kliður og læti. Eitt sinn bjó hér aðeins gamalt fólk. Ég get ímyndað mér að það hafi svipt það sálarró og suma hverja lífinu þegar foreldrar mínir fluttu hingað inn með tvo barnaskratta upp á annan arminn og allt sitt nýaldarhafurtask upp á hinn. Að ég tali nú ekki um þegar þriðji krakkaræfillinn fæddist með linnulausu öskri inn í þjáningar þessa heims og sprengdi hljóðmúrinn utan af húsgrindinni.

Síðan þá hefur blokkin smámsaman fyllst af ungu fólki. Og ég er eins og gamalmennin forðum; úr mér genginn af óþoli og handarbökin sundurtætt af nagi; íbúðin aldrei nógu uppkynt, hvergi frið að fá og nágrannarnir eins mikil úrþvætti og vættrass og hugsast gæti.

Karlinn á hæðinni fyrir neðan fer reglulega út og skokkar í anórakk sínum og hvítum hlaupaskóm. Hvenær barst sú ansvítans ósvinna inn fyrir garða míns fagra hverfis? Hornkaupmenn, Raggasjoppa og Þórsbakarí horfin fyrir anórakkskokkandi, tyggigúmmíjórtrandi vasadiskóaillþýði sem kaupir örbylgjufæðið í súpermarkaði og brauðið í fjöldaframleiðslukeðju, fæðir börnin gegnum vélvæddar slöngur meðan það glápir á mynddiska á nærfötunum og drekkur amrískan bjór, lemur konuna lítið eitt og rúnkar sér í snöru niðri í þvottageymslu.

Tempora malus est sögðu menn til forna. Ef þeir aðeins vissu.

Nei, ég segi nú bara sisvona.

Erfið nótt

Í nótt dreymdi mig þá hryllilegustu martröð sem mig hefur nokkru sinni dreymt. Hún var það ógeðfelld að ég held ég láti ógert að segja frá henni við nokkurn mann. Ég segi hins vegar þetta: Það þarf mikið til að láta kalt vatn renna mér milli skinns og hörunds í hvert skipti sem ég hugsa um það. Ég vona bara að mér takist að gleyma þessu einn daginn. Ég þakka mínum sæla fyrir að ég gat sofnað aftur, eða geti yfirhöfuð sofnað aftur. Þá er ekki amalegt að hafa fengið nýtt og glæsilegt rúm afhent inn um dyrnar fyrr um daginn!