Omnipotens

Þessa hugmynd að myndasögu fékk ég fyrir fimm árum. Fimm árum! Og ég teiknaði hana líka, en ég henti henni. Henti henni! Vegna þess að hún er léleg!! Og þessi, þrátt fyrir stílíseraðri teikningar, er margfalt verri en sagan mín! Ego potentissimus!!! Mouahhmouahh!!!!!

Þessi saga er samt frábær. Og þessi. Og þessi. Og þessi. Og þessi. Og raunar margar sögur aðrar á þessari síðu.

Kommusetningar

Kommusetningar eru merkingarlega mikilvægar. Það er til dæmis talsverður merkingarmunur á setningunum ek vil engi hornkerling vera og ek vil engi, hornkerling vera. Önnur vill ekki vera hornkerling en hin vill ekki aðeins það heldur vill hún einnig eiga engi. Því þarf að gæta vandlega að hvort eða hvar þarf að setja niður kommur. Ómerkilegri hlutir en rangar kommusetningar hafa komið af stað stríði og þær ætti að líta á sem glæp gegn mannkyninu. Þess vegna vorkenni ég ekki þeim sem fá 0,5 dregna af einkunn sinni fyrir ranga kommusetningu í skólaritgerðum. Þeir sem barma sér yfir slíku verða sér a.m.k. ekki til sæmdarauka hjá mér.

Smásaga

Ég var að byrja á smásögu eftir tæplega tvö ár af engu. Á hálftíma tókst mér að koma frá mér tæpri blaðsíðu óhreinskrifaðri. Þá vissi ég ekki meir. Ég veit aðeins það, að það sem prýðir þessa blaðsíðu, því þarf að dreifa jafnt og þétt yfir fleiri blaðsíður. Þá er ekki gott að skrifa línulega, eins og ég geri. Þá er heldur ekki gott að hafa ekki hugsað upp meira en grunninn, eins og ég hef gerst sekur um núna sem oft áður. Þá er betra að ég agi sjálfan mig örlítið og leyfi sögunni að segja mér sjálfa sig með tímanum, frekar en að rembast við að lemja hana til og spýta henni út, eins og ég hef of oft gert. Ég hef allan þann tíma sem ég vil til að klára hana og ég ætla að fara varlega að henni svo ég skemmi hana ekki. Skemmst frá að segja er ég gríðarlega stoltur af afrakstrinum enn sem komið er. Mikið hljóma ég eins og Ágúst Borgþór.

Salka Valka

Ég skrapp í Borgarleikhúsið að sjá Sölku Völku í gærkvöldi. Ég var nokkuð ánægður með sýninguna, þótt ýmislegt vantaði kannski upp á, en um það er ég líklegast síðasta alræðisvaldið þar sem ég hef ekki lesið bókina. Hinsvegar verður þess líklegast ekki langt að bíða að ég geri það, nú þegar áhugi minn á sögunni hefur vaknað. En það fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom heim af sýningunni var að rífa Heimsljós frekjulega úr hillunni og hella mér ofan í hana. Hún byrjar vel.

Bendi annars á ágætan leikdóm um Sölku Völku. Þar koma fram ýmsir góðir punktar, en sá fyndnasti og ef til vill mest valid er þessi: „Bogesen og Steinþór eru leiknir nánast eins og hefði ef til vill mátt ganga lengra og láta þá renna saman í eitt“. Hugmyndin er mjög fyndin og póstmódernísk, en sannleikurinn er sá að vissulega voru þeir einsleitir gegnum leikritið, en það eiga þeir ekki að vera. Aftur á móti á manni að finnast sem ekkert hafi breyst í lokin þegar Steinþór hefur tekið við af Bogesen.

Jahá. Ég er ekki frá því að yfir mig sé smámsaman að hellast Laxnessmanía. Mun fárra hollara úngum mönnum nútildags.