Enskar óperur og tenglastefna

Áðan keyrði ég stjúpbróður minn, hver er meðlimur í einni af þessum absúru klíkum sem tröllríða bloggheimum um þessar mundir, í Kópavoginn. Á leið minni til baka kveikti ég á Útvarpinu og brá í brún við að heyra óperu á ensku. Tónlistin var flott, draugaleg og kraftmikil, en mér finnst sem það ætli aldrei að takast að láta hrynjandi og enska tungu fara saman í óperum. Fyrir utan auðvitað aulahrollinn. Brrr!

Talandi um bloggklíkur hér að ofan, þá er ekki úr vegi að birta hér hluta af stefnu Bloggsins um veginn er snerta tengla, vegna nýlegra fyrirspurna:

Bloggið um veginn tengir ekki á bloggklíkur á borð við Fazmo, Kalla.is né nokkuð annað í þá veruna (hvorugur hópur hefur raunar æskt þess). Bloggið um veginn iðkar ekki sjálfvirka tenglastefnu, id est að tengja einfaldlega á hvern þann er tengir á það. Bloggið um veginn hefur vilja æðri umsjónaraðiljum þess, sem þannig virkar í praxís, að Bloggið um veginn tengir á þær síður sem eru því til skemmtunar eða andlegrar upplyftingar. Bloggið um veginn tengir óháð veraldlega áþreifanlegum tengslum, enda er heimur þess á öðru tilverustigi og af fullkomlega óáþreifanlegum toga.

Exempli gratia: Aðili A, kunnugur umsjónaraðiljum Bv, æskir þess að síðarnefndir tengi á sig. Við þetta gæti fernt verið að athuga:
I. Bv ræður sér sjálft, ekki umsjónaraðiljar þess. Ef Bv hefur ekki þegar tengt, en það tengir af geðþótta, eru ekki líkur á að það geri það þaðanaf. Á því er möguleg sú undantekning, að hafi tilvist síðunnar sem umsjónaraðiljum er bent á ekki áður verið ljós Bv.
II. Aðili A er hluti af bloggklíku. Bv tengir ekki á bloggklíkur.
III. Síðan sem Aðili A biður um tengil á veitir Bv enga andlega fróun. Bv tengir ekki á síður sem því finnst leiðinlegar.
IV. Aðili A biður um tengil. Bv er tregt til að tengja á þá sem biðja um tengil. Ekki síst í ljósi liðar I.

Þetta er stefnan. Allar stefnubreytingar þarf að leggja fyrir aðalfund Bv, æðsta löggjafarþings þess, sem haldinn er þann 30. febrúar hvert ár. Allar breytingartillögur þarf að leggja skriflega fram með minnst fjögurra ára fyrirvara, svo hægt verði að fara tímanlega yfir þær í allsherjarnefnd Bv.

7 thoughts on “Enskar óperur og tenglastefna”

  1. hey, þarna er tengillinn.
    Fyrirgefðu Arngrímur, dúllan mín. Hélt að þetta hefði eitthvað misfarist þegar þú færðir bloggið til. Þér er fyrirgefið fyrir ekki neitt.
    Kveðja,
    Maðurinn sem les ógnótt af dróttkvæðum, hrynhendum og fleira fyrir klukkan 9:50 í fyrramálið en þá fer hann í munnlegt próf. Honum finnst Sturla Þórðason hafa verið afbragðs gott skáld. Þessi maður er líka búinn að drekka aðeins of mikið kaffi en hlakkar mjög mikið til Finnlandsfarar með handhafa þessarar bloggsíðu. En sú för mun innihalda pólitík, sánur, sama og „leisure time“. Maðurinn hefur einnig óbeit á Stefáni Mána.

  2. Mjögott. Við verðum þokkalega fullir í sánu að rassskella hver annan með hrísi.
    Absúru nota ég í stílskyni.
    Og vissulega rokkar Kaninkuklanið. Um það gilda aðrar reglur.

Lokað er á athugasemdir.