Víst fílarðu ljóð, manngrýla!

Hvaðan koma þær ranghugmyndir margra að þeir „fíli ekki ljóð“? Allir hlusta á tónlist og velflest tónlist er notuð til að miðla texta. Sama fólk og finnst ljóð leiðinleg hefur yfir söngtexta daginn út og inn, söngtexta sem það þykist finna sjálft sig í. En hvað eru þessir textar annað en ljóð? Nei, þetta er of róttækt sjónarmið, finnst þeim. Engu að síður fæ ég ekki betur séð en þeir séu illaðgreinanlegir, sem ekki geta notið kveðskapar án tónlistar, frá þeim sem ekki geta lesið bækur án mynda.

En burtséð frá því er dásamlegt veður úti, trén og runnin tekin að laufgast, alskýjað raunar en eftir því hlýtt. Á svona dögum vill maður njóta lífsins. Af þeirri ástæðu einni eru haldin vorpróf. Það þarf jú að kenna þessum krakkaskömmum að lífið sé enginn dans á rósum og þaðanafsíður gert til að njóta.

4 thoughts on “Víst fílarðu ljóð, manngrýla!”

  1. Lífið getur víst verið dans á rósum, rósirnar hafa þó þyrna sem geta meitt.. Ef lífið er ekki til að njóta þess þá er það bara ekki þess virði. Tökum því bækurnar saman í poka og höldum útí grasagarð, bakgarð eða hvaða annan garð og lærum þar! Leikum á kerfið og vorprófin!

  2. Svona hugsunarháttur líkar mér! Reyndi þetta raunar í gær, fann strax yfirþyrmandi löngun í rauðvín … en maður heldur aftur af sér. Auðvitað er til einskis að kvarta undan því að þurfa að læra á svona dögum. Það er nefnilega ekkert skemmtilegra að læra á illviðrisdögum, þótt ef til vill sé það huglægur möguleiki hjá sumum.

  3. Það er bara tilhugsunin, ef við værum ekki í prófum værum við líklega læst inni í húsi bróðurpart dagsins að vinna. Svo sólin færi fram hjá okkur. Í raun erum við heppin, því við höfum valið um að læra inni og horfa vonaraugum útum gluggann, eða læra úti og horfa til himins. Ó já, lífið er yndislegt.

Lokað er á athugasemdir.