Veðrun, gól og heimboð

Veðrið er indælt, a.m.k. ef maður er inni. Trén standa lárétt fyrir utan gluggann og þeir fáu safngestir sem láta sjá sig eru veðraðir inn að innsta húðlagi, þeim megin sem sneri upp í vindinn. Þeir geta þá huggað sig við að líklega jafnast það út á heimleiðinni. En sólina skulu þeir jafnframt varast.

Nýjustu staðfestingu þess að enginn verður iðnaðar- eða verkamaður nema hann tali hátt fékk ég í kaffipásu núna áðan, þegar ég skrapp útfyrir hérna á bakvið. Þar voru tveir menn, einn eldri annar yngri, að ferja planka inn í vöruafgreiðslu. Þá stóðu þeir jafnan hvor á sínum enda plankans er þeir ferjuðu, og góluðu hvor á annan líkt og nauðsyn ræki til vegna lengdar plankans (um metri). Merkilegt. Líklega notar Gneistinn tækifærið og heimtar þjóðfræðirannsókn á fyrirbærinu.

Í Morgunblaðinu las ég greinarstubb um svartfellska fjölskyldu sem ætlar að bjóða íslenskri fjölskyldu til sín í tvær vikur til að kynna þeim menningu, land og þjóð, allt uppihald borgað. Þetta er gert í þakklætisskyni við Geir H. Haarde, verðandi forsætisráðherra, fyrir að viðurkenna sjálfstæði Svartfellinga fyrir hönd Íslendinga, fyrstur allra þjóðarerindreka heimsins. Fólk mun vera afar hrifið af ráðherranum þar í landi. Það er nú sem sagt er, að enginn er spámaður í eigin heimalandi.

2 thoughts on “Veðrun, gól og heimboð”

Lokað er á athugasemdir.