Það hljómaði fyndið þá

„Þá er þess væntanlega ekki langt að bíða að gerð verði úttekt á eldhúsinu mínu í Fréttablaðinu og fjálglega rætt um matseldarhæfileika mína. Þá geri ég kannski eins og bróðir minn gerði í DV fyrir hálfum áratug og lýg því að kókómjólk sé fastur liður í minni eldamennsku.“
Bloggið um veginn, 15. nóvember 2006.

Mér datt í hug að rifja þetta upp. Klukkan átta í kvöld hafði ljósmyndari Vikunnar lokið sér af við að mynda jólasteikina mína. Tímaritið kemur út á fimmtudaginn í næstu viku, viðtal og myndir. Ég eldaði ekki upp úr kókómjólk, en steikin bragðaðist vel engu að síður.

Ég þori ekki að spá fyrir um fleira, er hættur að spá fyrir um framtíðina. Hætti á toppnum.

Auteur

Þegar ég vaknaði upp af blundi um miðnætti var ég ekki viss hvort franska orðið ateur væri til í raun og veru, en ég var nokkuð viss um að íslenska sögnin aterja, sem dregin væri af téðu orði, væri það ekki. Hef nú komist að því að hvorugt er orðið til. Hins vegar fann ég franska viðskeytið -ateur án dæma eða merkingar, og nafnorðið auteur. Í draumnum kom orðið fram í kjölfar þess að smásaga varð að veruleika frammi fyrir augum mér. Þess vegna er ef til vill viðeigandi að einasta svarið sem ég hef fundið er franska hliðstæða orðsins rithöfundur.

Þess má einnig geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vakna með afbakaða frönsku á heilanum.

Umfjöllun í Víðsjá

Snemma í kvöld var viðtali við mig útvarpað í þættinum Víðsjá í Ríkisútvarpinu. Viðtalið má heyra hér. Bókin hefur hlotið góðar viðtökur kaupenda enn sem komið er og er fyrsti ritdómur væntanlegur á næstu dögum.

Ég hef enn ekki haft færi á að kanna stöðuna í bókabúðunum, en hafi verðið á bókinni enn ekki verið leiðrétt þá vinsamlegast kvartið við viðeigandi aðila, þarmeðtalið mig.

Á föstudaginn þarsíðasta fór ég með hlass af bókum í bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18. Í húsasundi milli Grettisgötu og Laugavegs steig ég á snifsi úr Blaðinu með flennistórri mynd af Þórbergi undir fyrirsögninni: „Var Þórbergur með asperger?“ Í sama blaði tjáði ég mig um jólabækur. Get aðeins vonað að ég fái ekki asperger að mér látnum.

Davíð Stefánsson um Endurómun upphafsins

Endurómun upphafsins„Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru.
Samt er Endurómun upphafsins ekki rómantísk bók, ekki í þeim skilningi að allt skuli dýrkað sem fagurt er, bara vegna þess og þess vegna. Hún er hálf-rómantísk, þannig, að í stað þess að sneiða framhjá því sem kalla mætti eðlislæga þörf manneskjunnar fyrir rómantík og fagurfræði tekur hún á þessum fyrirbærum og kljáist við rómantískar tilhneigingar sem eru illa gjaldgengar í „tough-love-bling-bling-pow-wow“ heimi. Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.
Við höfum stigið langt inn í heim sýndarveruleikans, og þá gildir einu hvort við blekkjum okkur til að halda að heiminn sé að finna í raunveruleikasjónvarpi eða í ljóði – allir staðgenglar rjúfa tengslin við hinn raunverulega heim, eða, öllu heldur, afmá skilin á milli raunveruleika og skáldskapar. Hvar erum við? Hver erum við? Hvert förum við?
Ljóð eru ekki frumheimild um heiminn. En ljóðabókin sem hvílir á fingrum mér er ári góð – vel ígrunduð og falleg átakabók, ekki hispurslaus (enda eiga ljóð ekki að vera hispurslaus) heldur lúmsk og undirförul, í jákvæðasta mögulega skilningi þeirra orða.“

-Davíð A .Stefánsson.

Áríðandi tilkynning!

Bókabúðir Pennans Eymundssonar, Máls og menningar, verðlögðu Endurómun upphafsins á kr. 2.990. Rétt verð á bókinni eru kr. 1.990 og hefur það nú verið leiðrétt.

Ennfremur hef ég komið því til leiðar að haft verður samband við þá sem keypt hafa bókina fyrir ofangreindan morðfjár, og munu viðkomandi fá endurgreitt í samræmi við eðlilegt verð.

Bókin er nú fáanleg í verslun Máls og menningar, Laugavegi, og verslunum Pennans Eymundssonar á Austurstræti, í Kringlunni og Smáralind. Bókin er væntanleg í Bóksölu stúdenta og Bókval á Akureyri í vikunni.

Út er komin bók

Endurómun upphafsins
„Laust fyrir miðnætti varð piltinum ljóst hvað það var sem hann heyrði, óð tunglsins. Hann þusti út til að faðma að sér ljósdropana sem seytluðu niður úr himnunum en greip í tómt og allt missti marks.
Það var á efsta degi samkvæmt Greenwich Mean Time en hann var á Íslandi, sem enn var landfræðilegum klukkutíma á eftir. Tunglið stóð aftur á móti á kosmískum tíma svo bitförin voru þá þegar orðin greinanleg, en þau sá pilturinn ekki.
Fyrst féll myrkrið á Greenwich á miðnætti, svo dreifði það úr sér til austurs. Allajafna hefði Ísland verið næst en þann dag var heimurinn öfugsnúinn. Mitt á milli alþjóðlegu dagalínunnar og Greenwich var pilturinn þannig svo lánsamur að deyja ekki fyrr en deginum eftir Ragnarök.
Og meðan heimurinn snerist upp í andhverfu sína stóð hann í tunglsljósi og glímdi við ritstíflu sem bjargað gæti heiminum – með einungis örfáar mínútur til stefnu …“

Bókin Endurómun upphafsins kom út á dögunum og verður fáanleg í helstu bókaverslunum höfuðborgarsvæðisins eftir helgi fyrir litlar 1990 krónur. Bókin er einnig væntanleg í Bókval á Akureyri, en þartil má nálgast hana á sérlegu tilboðsverði hjá höfundi. Ókeypis heimsending í boði fyrir kaupendur utan höfuðborgarsvæðisins, en nánari upplýsingar um fyrirkomulag fást hjá höfundi: arngrimurv@simnet.is.

Lestur og veður

Upplesturinn í morgun gekk afskaplega vel. Það var frábært að koma í gamla skólann minn og fá aðrar eins viðtökur. Það brutust út fagnaðarlæti þegar ég las Ódeilu (sjá neðar), greinilegt að þessum krökkum er ekki fisjað saman. Ekki var það heldur amalegt að sitja inni á kennarastofu, sulla í sig tei og ræða við alla kennarana, svona á öðrum nótum en áður.

Annars er þetta helst að frétta: Ég er alfarið á móti veðri þessa dagana. Tæpar tvær vikur af sama helvítis rokandskotansveðrinu! Og ekki bætir úr skák að meðalhiti síðustu tveggja daga hefur hlaupið á bilinu °6- til °8- celsíus.

Ódeila

Hafðu ekki áhyggjur hér er hagvöxtur hér er góðæri
hér er velferð við seljum landið fyrir hagvöxt kaupum
út góðærið og seljum velferðarkerfið fyrir velferð þú
þarft engar áhyggjur að hafa haltu áfram vertu þú sjálfur
eða sjálf, ef þú ert kona, við styðjum konur, við erum
jafnréttissinnar farðu í vinnuna, fáðu þér sjónvarp farðu
í frí til útlanda kauptu þér sófann sem þig langar svo
mikið í kauptu þér nýjan bíl við byggjum hraðbraut undir
hann hafðu ekki áhyggjur við fjármögnum hallann með
blóðpeningum.

Rask og fyllerí

Sitjandi í tíma undir handleiðslu mikils málfræðitöffara, ekki minnugur þess hvar ég heyrði ungmálfræðinganna fyrst getið, minnugur þess að hafa dottið í það með menntskælingum á loftinu þar sem Rask uppgötvaði germönsku hljóðfærsluna. O tempora, o mores?

Hvaða þjóð fann upp ó-upphrópunina? Svarið er á blaðsíðu 269 í Grænjaxlahandbókinni.