Ég, hinn ákærði

Þá er skólinn byrjaður aftur og að þessu sinni er kennsluefnið að mestu á norsku. Daglega hratið lét víst ekki bíða eftir sér heldur, því við það að ég var að fara að vinda mér í að lesa Textens mønstre, barði grafalvarlegur maður að dyrum með stefnu í krumlunum.

Bankinn minn hefur semsé stefnt mér fyrir að hafa ekki greitt greiðslukortareikning upp á rúmar 30.000 krónur, sem er skondið því ég var einmitt á leiðinni að borga hann. Hinsvegar get ég ekki ímyndað mér annað en bankanum sé skylt að vara mig við áður en farið er í hart, svo þeir mega búast við heimsókn frá mér á morgun.

Þannig að í stað þess að leita til Intrum um innheimtu á smápeningum á borð við þetta, þá stefnir bankinn viðskiptavinum sínum án formála. Meira að segja MasterCard hringir á undan sér. Ég þarf víst ekki fleiri ástæður til að skipta um banka. Eftir tíu ár af gagnkvæmu trausti og skilningi, síðan í september 1997, má virðulegur Íslandsbanki > Íslandsbanki FBA > Íslandsbanki > Glitnir nú loksins eiga sig. Héraðsdómur fær peningana en bankinn fær sparkið.

3 thoughts on “Ég, hinn ákærði”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *