Lýðræðið grafið

Ég ætla ekki að hafa sérstaklega mörg orð um þessa síðu, bara benda á hana.

Ég vil aðeins segja tvennt.

1. Aðeins forsætisráðherra hefur heimild til að rjúfa þing. Þjóðin hefur það vald raunar líka, en til þess þarf að stíga útfyrir ramma laganna. Þeir sem trúa á lýðræðið setja það raunar ekki fyrir sig.

2. Mér hefur oft þótt ástæða til að krefja stjórnvöld skýringa, og jafnvel bola þeim burt fáist engar skýringar eða séu þær óásættanlegar. Fyrir utan linkind þjóðarinnar í garð stjórnvalda eru allar þær forsendur sem ég hef áður fundið þeirri skoðun minni, í fyrri eða seinni tíð, léttvægar orðnar miðað við lygar stjórnvalda nú, svo ekki sé minnst á þögn þeirra þegar þau vita ekki hverju skal ljúga næst.

Svo ég bendi á þessa síðu. Spurningin er ekki hvort hún verði hunsuð, aðeins hversu lengi verður hægt að hunsa hana, eða þá kröfu að stjórnvöld starfi með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, í umboði hennar, og séu þar af leiðandi skuldbundnir þjóðinni um sannleikann hvar og hvenær sem hann liggur fyrir hvað sem kröfum alþjóðlegra risastofnana líður.

Að öðrum kosti er lýðræðið grafið. Ef það var það ekki fyrir löngu.

Gæði

Ef þið hugsið um raunveruleg gæði, landgæði og framleiðslutæki, andspænis ímynduðum tölum á tölvuskjá sem standa fyrir peninga – sem eru ekki höfuðstóll neins nema sjálfra sín – þá er engin kreppa á Íslandi. Hér er allt óbreytt, því allt er enn á sínum stað. Vegið og metið aðstæður hverrar þjóðar fyrir sig, hvar standa þær? Spáið svo í hvort þetta sé ekki bara geðveiki, trú á einhvern pappírsseðil sem engu máli skiptir. Þetta er bara pappír þartil þú fjárfestir hann, og þegar trú fólks á pappírinn dvínar, hvar erum við þá? Akkúrat hérna. Og hvað, er Ísland þá á vonarvöl útaf ímynduðum tölum? Eða búum við þó ennþá að því að öll raunveruleg framleiðsla, öll raunveruleg eignamyndun, öll raunveruleg gæði, eru ennþá staðsett hérlendis, meðan óprenthæfar tölur hrapa í ritvinnsluforritum og töflureiknum spikfeitra smjörsleiktra bankamanna úti í heimi?

Nei, í alvörunni. Peningar eru ímyndun, þeir eru kjaftæði, þeir standa ekki fyrir ein einustu verðmæti í sjálfum sér. Þeir hafa ekki verið raunverulegur gjaldmiðill síðan þeir hættu að standa í sambandi við veruleikann, við upprunalega höfuðstólinn sem átti að tryggja innistæðu fyrir þeim. Peningar eru pappír sem ekki einu sinni er hægt að fjárfesta lengur. Ef allt ætti að vera eðlilegt tæki lífið við aftur. En horfið á trúðana reyna að bjarga því eina sem þeir trúa og treysta á: peningum. Þegar afkoma fólks byggist á hagtölum án þess að raunverulegur skortur sé á nokkru öðru en tölum á pappír, væntingum, vonum og vísitölum, þá er eitthvað mikið að gildismatinu.

Frjálshyggjan og framtíðin

Ég er reglulega spurður retórískt þessa dagana hvar frjálshyggjumennirnir séu, fyrir utan þennan eina sem þusaði eilíft í þenslunni en flýgur á hvolfi í kreppunni, og hingað til hef ég ekkert þorað að fullyrða. En núna segir mér svo hugur að einhversstaðar séu þeir hlæjandi með vindlareykinn standandi uppúr sér, því einhverjir þeirra fá vænti ég núna að horfa uppá draumalandið sitt rísa úr öskustónni, lágmarksríkið með öllum sínum félagslega darwínisma og mannúðarleysi.

Fyrsta skrefið var tekið í dag þegar stýrivextir voru hækkaðir um sex prósentustig svo standi nú í 18 prósentum. Geðveiki segir einn, óásættanlegt segir annar. En við hverju bjuggust þeir? Hvað segja þeir þegar IMF hækkar skatta? Óásættanleg geðveiki? Allavega munu frjálshyggjumennirnir firrtast við með okkur hinum, enda trúa þeir ekki á skatta eða aðra samfélagslega ábyrgð. Mig bara grunar að skattarnir eigi eftir að fara uppúr öllu valdi – og ekki til þeirrar þjónustu sem eðlilegt væri, heldur í vasann á þeim hinum sömu og hækkuðu þá.

Og hvað svo? Heilbrigðiskerfið, skólarnir, bókasöfnin, meðferðarheimilin og – fjandinn hafi það – jafnvel elliheimilin, öryrkjastyrkir, Tryggingastofnun. Hver veit hverju þeir taka uppá? Svartasta spáin er að hér verði bókstaflega ekkert eftir, og ég þori ekki að vera of bjartsýnn þegar sömu menn eru að verki og einkavæddu vatnsbólin í Bólivíu. En kannski finnst einhverjum þetta vera voða sniðugt allt, gargandi snilld einsog Íslendingar segja. Stjórnvöldum finnst ekkert athugavert við þetta. Vandamálið er að stjórnvöld hafa enga stjórn hérna og höfðu aldrei – umboðið kom frá okkur. Núna er umboðið meira eða minna selt til erlendra aðila.

Fjórtán árum eftir að 50 ára afmæli lýðveldisins var fagnað, fjórtán árum eftir að mér í barnaskóla var kennt að það stæði eitthvað á bakvið þingið, kjörna fulltrúa þjóðarinnar, forsetann, ættjarðarjarmið og fánann. Að þetta land væri byggt upp á einhverslags forsendum, og að lýðræði væri helgasta vé þjóðarinnar, að meirihlutavilji þjóða skipti máli. Þetta tók ekki langan tíma. Og hvað tekur við hérna? Í hreinustu hreinskilni þá vil ég bara ekki vita það. En það verður svart, það vitum við þó.

Fyrsta skrefið er allavega tekið. Segið svo ekki að þið hafið ekki séð þetta fyrir, það er allt aðgengilegt á netinu.

Meira um Finnland

Í Finnlandi er til máltækið Jos ei viina, terva tai sauna auta, tauti on kuolemaksi, sem mun þýða: Ef sjúkdóminn má ekki lækna með víni, tjöru eða sauna, þá er hann banvænn. Þeir sem ég spurði út í þetta sögðu mér að þeir hefðu aldrei skilið þetta með tjöruna, en hitt meikaði alveg sens.

Eitt sem allir ferðamenn í Finnlandi ættu að hafa bakvið eyrað er að tala ekki fjálglega um Finnska vetrarstríðið. Það þykir ennþá hinn mesti pyrrhosarsigur þar á bæ; stolt þeirra og pína, og flestir ungir karlmenn sem ég hitti hafa sinnt sinni herþjónustu með stolti. Einn strákur sem ég hitti, lögfræðingur, ári eldri en ég, er yfirmaður sinnar eigin deildar ef Finnland lendir í stríði. Það þykir mér undarleg tilhugsun.

Á leiðinni til Jyväskylä þurfti ég að skipta um lest í Tampere. Daginn eftir hitti ég stúdent frá Tampere sem sagði mér frá hinum hefðbundna ríg milli Tampare og Turku. Stúdentar í fyrrnefnda bænum fara nefnilega ár hvert og negla stikur umhverfis bæjarmörk Turku, í tilraun til að afmarka bæinn frá Finnlandi, og fara þess á leit í kjölfarið með miklum látum í miðbænum að Turku verði aðskilið frá ríkinu – í von um að það þyki ákjósanlegur missir. Ef bæjaryfirvöld samþykkja ekki málaleitan Tamperemanna þá fjarlægja þeir stikurnar, en að öðrum kosti yrðu þær skildar eftir til að marka ný landamæri.

Ofan á þetta sagði hann mér brandara: Hver er eini staðurinn í Finnlandi þar sem má taka 180 gráðu beygju á hraðbrautinni? Þegar þú kemur að skiltinu „Turku 1 km.“ Nú hef ég aldrei til Turku komið en mér virðist Tampere vera hinn fallegasti bær, enda þótt það sé ógeðslega fokkíng fráhrindandi að hann sé tvíburabær Kópavogs.

Hvað er Grétar að hugsa?

Nú vill Grétar Mar flæma sendiherra Breta af landinu. Hvers vegna í ósköpunum? Hvaða þátt átti sendiherrann í hruni bankanna? Sat hann kannski á leynimakki í sendiráðinu, plottandi sín ósköp, hlæjandi einsog illmenni? Eða er þetta kannski bara stereótýpískt fyrir sjálfbirgingshátt íslenskra slettireka sem aldrei geta litið í eigin barm. Nú er sko stríð, urr, og þjóðernishyggja par excellance, rorr, burt með Bretana!

Og hvað, til hvers eiginlega? Hvað er Grétar eiginlega að hugsa? Er maðurinn eitthvað skrýtinn? Er þetta það sem xenófóbíski fiskaflokkurinn ætlar sér að gera í stjórnarandstöðu, meðan ríkisstjórnin lýgur að okkur viðstöðulaust og án nokkurs einasta viðnáms? Meðan Gjaldeyrissjóðurinn tekur yfir! Þá vill hann reka einhverja skrifstofublók til síns heimalands! Hvað varstu að gera á þinginu öll þessi ár, Grétar? Hvað í ósköpunum hefurðu verið að gera? Og er þetta svo það eina sem þér dettur í hug? Vá!

The IMF is the NME

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur boðað til blaðamannafundar í Karphúsinu, Borgartúni 21, klukkan 15:00 í dag. Fundurinn er haldinn í kjölfarið á blaðamannafundi sem Ríkisstjórnin hefur boðað til í Ráðherrabústaðnum klukkan 14:15. #

Á meðan það er ennþá til eitthvað sem kallast þjóð á tyllidögum í þessu landi væri nær að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við viljum láta selja undan okkur grunnþjónustu samfélagsins og kreista líftóruna úr láglaunafólki með ómannúðlegri skattaprósentu. Ef þessi helvíti hegða sér einsog hingað til getum við nú strax farið að tilbiðja guð okkar og deyja. En það er víst eftir stjórnmálamönnum að muna ekki hvaðan þeir þiggja umboð sitt, ekki einu sinni á síðasta degi lýðveldisins.

Ljótt er veðrið

Hvað getur maður svosem sagt?

Jú, býsna margt. Ég á sjálfsagt eftir að hafa nóg um allt þetta að segja á næstunni, en þegar orkustöðvarnar eru fullnýttar á kvöldin og það eina sem maður hefur við rúmstokkinn til að ylja sér gegn ljótviðrinu úti er Beck’s og bókin sem ég fékk í pósti í dag (og borgaði ekkert aukalega fyrir, sem er ljós punktur), þá bara fallast manni hendur.

Þannig að ég ætla að skrifa um eitthvað annað.

Í Jyväskylä heita sundhallirnar Aaltoalvari, í höfuðið á þið vitið hverjum. Helgast það af því að ekki aðeins hannaði Aalto flestar þessar byggingar, heldur því einnig að hann bjó í Jyväskylä mestanpart ævi sinnar. Nafngiftin er ennfremur orðaleikur, því aalto merkir alda eða bylgja. Flestir þeir sem ég hitti líta á Alvar Aalto sem óþolandi heilaga truntu sem löngu hefði átt að kasta fyrir róða, að byggingar hans séu ekki einasta forljótar heldur einnig ópraktískt, illa hannað drasl sem þarf að gera við á sjö ára fresti vegna hörmulegra byggingarefna sem á engan hátt henti finnskum aðstæðum, að meira að segja loftræstikerfin og einangrunin sé svo slæm að valdi hraustasta fólki lungnabólgu, og að öllum hans byggingum hefði fyrir löngu verið tortímt ef þær hefðu ekki verið hannaðar af honum. Vakti upp hugrenningatengsl við Laxness ef ég á að segja eins og er; maður sem var umdeildur alla tíð þartil hann dó og er núna álitinn heilagri en mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna.

Pieksämäki er deyjandi bær – aðalmiðstöð lestarsamgangna í mið-Finnlandi sem hefur mátt muna sinn fífil fegurri. Þar er litla menntun að fá og lítið er um að þau ungmenni sem fara þaðan í leit að æðri menntun komi aftur. Meðalaldur er í kringum 50 ár og til er finnskt máltæki sem segir að enginn stoppi í Pieksämäki nema milli lesta. Bærinn var ekki einasta kosinn þunglyndasti bær Finnlands fyrir örfáum árum heldur líka sá ljótasti. Atvinnuleysi er gríðarlegt þar sem allt revolverast kringum lestarstöðina. Núna hefur hinsvegar staðið til að reisa verslunarmiðstöð í miðbænum til að þjónusta allt næsta nágrenni, héraðið allt með sínum sveitarfélögum. Þetta myndi skapa hundruðir starfa, ein 1500 meðan á framkvæmdum stæði en hátt í 700-800 bara við verslun og þjónustu eftir að þeim væri lokið.

Ólíkt Íslandi hefur þetta vakið upp umræðu um hvort það sé umhverfisvænt að þjónusta heilt hérað með þessum hætti, að hálft Finnland sé dröslandi sjálfu sér í bílum milli staða til þess eins að kaupa mat- og merkjavöru í 20 þúsund manna bæ; og það þrátt fyrir mikla nauðsyn á sprautu í sterílt bæjarlífið. En með yfirvofandi efnahagsþrengingum í finnsku þjóðlífi virðast öll áform um verslunarmiðstöðina þurfa að bíða betri tíma hvort eð er. Fyrsta vígið til að falla í Finnlandi er húsnæðismarkaðurinn, þar sem ungt fólk í sinni fyrstu íbúð sér skyndilega fram á að vera bundið átthagafjötrum vegna þess að húsnæðið þeirra er nú langtum minna virði en skuldbindingar þeirra. Maður sem keypti sér íbúð á 14 milljónir á skyndilega húseign að nafnvirði 8 en borgar eftir sem áður af henni eins og um var samið.

Þetta er allt í bili. Forvitnum má benda á að það verður líklega bloggað meira um Finnland hér á næstunni en Ísland, svona eins og hugur minn stendur næst til.

Glitnir

Þegar ég var í Jyväskylä núna í október rak ég augun í Glitnisskilti við stigagang að skrifstofuhúsnæði. Dyrnar voru læstar og þegar ég kannaði dyrabjöllurnar sá ég engin ummerki þess að Glitnir hefði nokkru sinni starfað í húsinu, önnur en skiltið. Mikið hafa þeir verið fljótir að pakka saman.
Þegar ég var þar síðast fyrir tæpum þremur árum varð ég hinsvegar ekki var við ein einustu ummerki um nokkurs konar íslenska starfsemi. Þá höfðu þeir Finnar sem ég hitti líka langtum meiri áhuga á tungumálinu, kúltúrnum og íslenskri tónlist. Hvort það væri satt að Íslendingar drykkju meira en Finnar, það væri ótrúlegt að málin væru ekki skyld því íslenska væri í raun auðskiljanleg, hvort segja mætti að tónlist Bjarkar ætti samhljóm með íslensku hugarfari almennt.
Núna höfðu flestir áhuga á íslenska hruninu. Einum fannst við eiga þetta skilið. En auðvitað eiga ekki nema örfá okkar þetta skilið. Flestir voru skilningsríkir, sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, Finnar hefðu verið þarna 1991, verið skammt undan klóm IMF komnir en bjargast. Þegar þeim varð ljóst að skuldir okkar banka nema ekki 7% landsframleiðslu eins og í Finnlandi forðum, meira svona 600-700% fékk ég jafnan svarið: Ó, eruð þið þá ekki fokkd?
Sem sérlega heiðarlegur fulltrúi lands og þjóðar var mér ekki stætt á að svara því neitandi.

Hakkebuff

Ingibjörg Sólrún sér ekkert athugavert við skilmála IMF. Heldur ekki Seðlabankinn. Sem þýðir að annað hvort skilja þau ekki skilmálana eða þau eru að ljúga. Björgvin G. neitar að tjá sig um skilmálana. Þau neita öll að tjá sig um skilmálana. Annað hvort er þetta alltsaman svona frábært að við komum til með að skíta kandífloss og einhyrningar skeina okkur, eða þá að við erum raunverulega það fokkd að ráðamenn vilja vera komnir í öruggt skjól þegar hausar fara að fljúga.

Það er snjór úti einsog til þess eins að minna mig á viss leiðinleg hugrenningatengsl, og kalt vatn er skyndilega orðið munaðarvara á þessum heimili; sjálfsagt allt frosið í lögnunum því meira að segja klósettið virkar ekki (hvar eru einhyrningarnir?). Kaffið mitt mallar því úr kýsilangandi íslensku heitavatni.

IMF fara að krúttast hingað bráðum að slá okkur létt á kollinn með töfrasprotanum sem breytir Íslandi í Nautnaeyju Gosa. Eina verðið fyrir krásirnar, vindlana og ölið er að við breytumst í asna á miðnætti og verðum seld í hakkebuff fyrir slikk einhversstaðar þar sem eftirspurn er eftir hakkebuffi. Því þannig virkar kapítalisminn og hin „heilbrigða græðgi“. Eða hafiði kannski aldrei séð Gosa?

Annars mæli ég með því að þið lesið Surt, vin minn. Hann er þó ekki kominn til að brenna heiminn, því heimurinn logar þegar. En það eru mikilvægar spurningar sem brenna á honum. Lesið líka Ingólf og Eirík.