Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #3

Sixth Sense – uppljóstrunin stendur ekki í röklegu sambandi við söguþráðinn

Aðalatriðið í draugafræðum aðalpersónunnar, Cole Sear, er að þeir vita ekki sjálfir að þeir eru látnir. Það eitt og sér er nógu einkennileg hugmynd, einsog ég mun útskýra. Í lok myndarinnar uppgötvar geðlæknirinn hans, Dr. Malcolm Crowe, að hann lifði ekki af skotárás sem hann varð fyrir í upphafi myndarinnar, og blóð tekur að vætla út um skotsárið (virðist vera, þar sem skyrtan var annars alltaf hrein). Hann sættir sig við örlög sín og kveður ekkju sína.

Vandamálið
Ekkert upp að þeim hápunkti myndarinnar meikar sens eftir uppljóstrunina. Gefið er í skyn að Crowe birtist umboðslaus og óumbeðinn heim til Coles og gerist geðlæknirinn hans. Enginn bað hann um að koma, móðir drengsins svarar ekki fyrirspurnum hans, og þó situr hann í stofunni með móður hans þegar Cole kemur heim. Hann gat vissulega hringt bjöllunni og þannig komist inn, meðan móðirin svipaðist um fyrir utan, en hvaðan kom umboðið? Geðlæknir sem hegðaði sér svona yrði líklega tilkynntur til lögreglu.

Í annarri senu hleypur Crowe inn á veitingahús þar sem konan hans situr við tvídekkað borð og biðst afsökunar á seinkomu sinni með orðunum: I’m sorry, I thought you meant the other Italian restaurant I asked you to marry me. Hún hefur þó væntanlega ekki nefnt veitingastaðinn við hann, nema hún leggi í vana sinn að tala í annarri persónu út í loftið.

Crowe virðist heldur ekki taka eftir því að frá því hann vaknar á sjúkrahúsinu er ekki nokkur einasti maður sem talar við hann. Ekki læknarnir, hjúkkurnar, konan hans, samstarfsfólk, ættingjar, vinir, „sjúklingarnir“ hans. Hvernig fór hann að í matvörubúðum, í efnalauginni, hjá rakaranum? Hvernig fékk hann upplýsingar um væntanlega sjúklinga? Stalkeraði hann þá bara? Hvað um aðra sjúklinga sem ekki gátu séð hann?

Ekkert af þessu gengur upp. Uppljóstrunin, sem er aðalatriði myndarinnar, stendur ekki í neinu röklegu samhengi við restina af myndinni og rústar þar með allri undangenginni uppbyggingu.

Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #2

Citizen Kane – forsendan er ekki til staðar
Síðasta orð Kanes áður en hann deyr í upphafsatriði myndarinnar er Rosebud. Þetta virðist vera á allra vitorði og fyrr en varir er blaðamaður kominn á fullt við að reyna að finna út úr því hvað orðið merki.

Vandamálið
Það var enginn til staðar til að heyra síðustu orð Kanes. Undir lok myndarinnar kemur fram þjónn Kanes, sem aldrei hefur sést áður, og segist hafa heyrt hinstu orð hans. Í upphafsatriðinu sést þó glögglega að enginn er viðstaddur. Hann segist raunar oft hafa heyrt hann tala um Rosebud, en aldrei vitað hvað Kane ætti við. Fyrst allir í myndinni vissu að hinsta orð Kanes hefði verið Rosebud, þá gefur auga leið að þeir áttu að vita að það var þjónninn sem heyrði hann segja það – því hvaðan annarsstaðar ættu þeir að frétta það en frá hans eigin þjónustuliði?

Og jafnvel þótt upplýsingarnar hefðu lekið nafnlaust í pressuna þá dregur það úr mestu tragedíunni í lífi Kanes: að einn áhrifamesti og voldugasti maður heims dó einn og yfirgefinn – sem er margítrekað í myndinni – maður sem peningar og völd spilltu, maður sem æskan var hrifsuð frá, sem aftur er kristallað í uppgötvuninni í lokin að Rosebud var sleðinn sem hann skildi eftir hjá foreldrum sínum þegar bankamaður tók hann í fóstur. Eðli málsins samkvæmt gat því enginn heyrt hinstu orð hans. Rosebud er svo brenndur í óðagoti áður en nokkur kemst að sannleikanum, og þar með er það eina sem hefði getað veitt Kane uppreisn æru horfið úr sögunni.

Orson Welles var eitt sinn spurður út í þessa þversögn. Svar hans, eftir langa þögn, var: Don’t you ever tell anyone of this. Þar með gat saga „bestu myndar allra tíma“ aldrei átt sér stað.

Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #1

Green Mile – lausnin fylgir ekki forsendunum
Í upphafi myndar sést aðalpersónan, Paul Edgecomb, brotna niður yfir söngvasenu með Fred Astaire þar sem hann syngur Dancing Cheek to Cheek. Hann útskýrir þetta fyrir vinkonu sinni á elliheimilinu með þeim orðum að tiltekinn fortíðardraugur hafi látið á sér kræla, nokkuð sem hann hafði ekki hugsað um í áraraðir, og segir henni söguna af John Coffey.

Vandamálið
Í lok myndarinnar leiðir Edgecomb vinkonu sína inn í skóginn utan við elliheimilið til að sýna henni músina Mr. Jingles, sem hann hefur hugsað um allar götur síðan Coffey var tekinn af lífi. Músin er tæplega sjötug og hann sjálfur er 108 ára – fyrir náðargáfu Coffeys. Það að Edgecomb hafi hugsað um músina í 64 ár ætti að duga honum til þess að vera ætíð minnugur fortíðar sinnar sem böðull Coffeys á dauðadeild; músin, að honum sjálfum ógleymdum, er einfaldlega sterkari minningavaki en Fred Astaire, nema hann hafi svona rækilega gleymt því að sökum langlífisins hefur hann ekki aðeins misst konuna sína heldur börnin líka. Þannig skera lok myndarinnar á allar forsendur þess að sagan var sögð í upphafi.

Af skáldum og öðrum ekkisens óþarfa

Ég fann þetta óvænt í tölvunni minni. Þessi grein átti að birtast í Tíuþúsund tregawöttum í ársbyrjun 2009 minnir mig, en það hefti var aldrei gefið út. Fannst allteins gott að henda henni inn hérna þar sem efni hennar á jafnmikið erindi nú og þá.

1. Skáldið í ljóðinu
Mér er minnisstætt þessa dagana ljóð sem Hallur Þór Halldórsson las upp á ljóðakvöldi Nykurs á gamla Rósenberg sumarið 2006, þar sem ljóðmælandi neitar því að hann sé skáld, en er engu að síður hundeltur og úthrópaður sem skáld útí gegnum ljóðið af lattédrekkandi menningarvitum með póststrúktúralíska ofgreiningarþörf. Mér er það sérstaklega hugleikið vegna þess að ég hef komist að þeirri prívat-en-ekki-svo-prívatniðurstöðu að orðið skáld sé sæmdarheiti sem skáldum sé lítill sómi í að hengt sé á þau, og enn minni sómi í að hengja á sjálf sig. Enda eru þau ekki skáld.

Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar skilgreinir skáld þannig:

skáld –s, -HK 1 bókm. sá sem yrkir kvæði > ljóðskáld / listaskáld / kraftaskáld ● stundum um þann sem semur skáldverk í óbundnu máli.

Ég veit svosem ekki hvað kraftaskáld er, né vil ég vita það, en nú er rétt að geta þess áður lengra er haldið að orðabækur eru hvorki upphaf né endir neins. Þær eru tilraun til lýsingar nútímamáls, háðar gildismati hvers og eins ritstjóra, og geta því ekki með nokkru móti talist til fræðirita. Til dæmis þekkist dæmi þess að ritstjóri hafi skilið útundan orð yfir fylgismenn knattspyrnuliðs sem hann hafði óbeit á, bara svona af því að. En höldum okkur við efnið.

Ef skáld er „sá sem yrkir kvæði“ þá á sú skilgreining við fæsta þá höfunda íslenska, núlifandi og mér kunnuga, sem semja ljóð. Ég hafna því semsagt að hægt sé að „yrkja“ óbundin kvæði, nema kannski að maður sé Matthías Johannessen, í fyrsta lagi af því kvæði í mínum skilningi er alltaf bundið í bragarhátt, í öðru lagi vegna þess að sjálf sögnin yrkja er upphafin gagnvart andlagi sínu – kvæðinu, ljóðinu – og felur í sér rómantískan fornaldarljóma til verknaðarins, samanber að yrkja sína jörð, að rækta sína trú og svo framvegis. Að yrkja er háalvarlegur, upphafinn og andlegur gjörningur, og það felst í orðsins hljóðan að bera eigi virðingu fyrir þeim sem stunda það að yrkja, ekki síður en bóndanum sem óhreinkar hendur sínar ekki aðeins til að lifa af, heldur vegna þess að það er dyggð; að rækta eitthvað svo það vaxi og dafni, standi í beinu sambandi við náttúruna, meitlað í stein, líkt og það hafi alltaf verið þarna, sjálf dýrðin orðum klædd. Þetta er sérkennileg hugmynd, og skyndilega finnst mér skammur vegur þaðan til einkunnarorða fasista, stétt með stétt, eða til hamars og sigðar, en göngum ekki alveg svo langt, ekki strax allavega. Þetta snýst allt um hugljómun æðri manninum, guðlega náð sem kölluð er innblástur, sammannleg gildi og fagurfræði, og það bara gengur ekki.

Höfum það á hreinu að kveðskapur bundinn bragarháttum er að mestu liðinn hjá, búinn, kemur tæpast aftur nema í hækum skúffuskálda og ferskeyttum tækifærisvísum hagyrðinga í kaffiboðum, flokksþingum og fermingarveislum (já, mér þykja hagyrðingar leiðinlegir). Líklega hefur Mörður rétt fyrir sér að stundum sé talað um höfunda óbundinna verka sem skáld (þá á ég við höfunda skáldsagna, því það er alveg á hreinu að höfundar óbundinna ljóða eru jafnan kallaðir skáld), en orðið er upphafið engu að síður. Sumir titla sig ljóðskáld þess heldur, en ljóðskáld er í almennum skilningi alveg sama skáldið – og skáld eru deyjandi stétt.

2. Tálsýn snilldarinnar
Mörður skilgreinir rithöfund svona:

rit-höfundur KK ● maður sem ritar bækur, semur rit ● (einkum) höfundur skáldverka í óbundnu máli.

Ég var eitthvað að sífra þetta um daginn að mér þætti eðlilegra að vera titlaður rithöfundur en skáld – og miðað við skilgreiningu Marðar finnst mér það liggja beinast við, enda fæst ég ekki við bundið mál þótt ég kalli textana mína ljóð – þegar viðmælandi minn sagði mér að þá þyrfti ég að hafa skrifað skáldsögu fyrst. Það er vissulega hin hefðbundna skilgreining, en ofureinfölduð að vísu. Smásagnahöfundar eru rithöfundar, og örsagnahöfundar líka, að því er ég best veit. Hvenær hættir örsaga að vera örsaga og verður að ljóði – eða öfugt? Það er engin konkret aðferð til að ganga úr skugga um það, og fyrst það er ekki með góðu móti hægt að segja til um hvenær „skáld“ verður „rithöfundur“ þegar „rithöfundar“ mega stundum eða alltaf vera „skáld“ þá er ekki seinna vænna að varpa þessu draslhugtaki fyrir róða. Ekki síður í ljósi þeirrar viðurstyggilegu síðrómantísku kennisetningar að skáldum sé ætlað það hlutverk að hafa æðri hugsun til að bera en annað fólk – sem enn fyrirfinnst í orðræðu um bókmenntir þótt ótrúlegt megi virðast – frá þeim tímum er skáld ortu undir staurum í húmi nætur og rödd hins eilífa varð aldregi endurbætt í hreinskrift.

Og hvað á ég eiginlega við með því? Útskýrum þetta aðeins nánar með handahófskenndri stikkprufu úr nýjustu Bókatíðindum, af því þau eru í seilingarfjarlægð (ég ætla að vera ósanngjarn og sleppa undantekningum frá hinni almennu reglu sem hér verður dregin upp), að öllum nafngreindum ólöstuðum. Ég vil bara benda á nokkur atriði:

Í Tvítólaveizlunni stefnir Ófeigur Sigurðsson saman forneskjulegri dulúð og lostafullum viðfangs-efnum svo úr verður blanda sem skilur lesandann eftir tilfinningalega steinrotaðan, spólgraðan en þó annarlega háleitan í hugsun. Tvítólaveizlan sýnir sterk tök höfundar á óvenjulegu ljóðformi og sleipu viðfangsefni, en um er að ræða fimmtu ljóðabók Ófeigs, sem einnig hefur gefið út skáldsöguna Áferð.

Lævísi, svik og lygar eru yrkisefnin í þessari kraftmiklu ljóðabók. Af innsæi nýtir Emil refstáknið og skapar ádeilukennt verk sem hreyfir við lesendum með heildstæðu myndmáli og glöggri sýn á helstu veikleika okkar. Refur er önnur ljóðabók Emils en í fyrra sendi hann frá sér Gárungagap, sem fékk góðar viðtökur gagnrýnenda.

Út er komið heildarsafn með ljóðum Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar sem mörg hafa ekki birst áður. Bókina prýða auk þess listaverk eftir höfundinn og níu aðra myndlistarmenn. Ljóðin spanna sárbeittustu ádeilu, dýpstu trúarinnlifun, óvægnasta níð, innilegustu ástartjáningu – og allt þar á milli. Þau eiga brýnt erindi við samtímann. Allir sem unna góðum skáldskap og listaverkum ættu að eignast þessa áhrifamiklu bók.

Ljóðabókin Svefnvindadraumar, er fimmta ljóðabók höfundar. Ljóðin spanna víðar og djúpar víddir mannlegs lífs. Lesandinn verður þess fljótt áskynja að líka hin fægðustu ljóð geta verið hrjúf og beitt, og hin fegursta mynd getur vakið eða skynjað bitur tár og djúpa sorg.
Þau eru ekki trúarljóð, en þó er trúin og höfundur hennar hvergi fjarri.

Í ljóðabókinni Vermsl er smjattað á áferð orða og náttúra þeirra rannsökuð í hliðstæðu við náttúru heimsins. Ljóðlistin er tekin alvarlegum og þungum tökum, en það er stutt í kímnigáfuna og hún liggur kannski alltaf undir niðri.
Vermsl er sjöunda ljóðabók Hrafns Andrésar. Hrafn hefur einnig komið að ritstjórn og gefið út tvær bækur með þýðingum sínum á ljóðum lettneskra skálda.

Fyrrum skorti hann næði, en nýja hlutverkið gefur Geislaskáldinu aukinn tíma. Sýn hans á tilveruna skerpist og birtist okkur í abstrakt ljóðum og rími. Hátt er hugsað og langt er leitað fanga, með bakland í fágætri reynslu.

Til að gæta sanngirni þá las ég yfir í hittífyrra og samþykkti eftirfarandi lýsingu útgefanda á bók eftir sjálfan mig:

Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru […] Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.

Takið þið eftir þessu? Finnst ykkur þetta eðlilegt? Ég vil ekki halda því fram að neinn glæpur hafi verið framinn, né þá heldur að drambið sé svo hátt að fallið myndi kremja líftóruna úr bókmenntunum þegar fólk fattar að fæstar ofantalinna bóka geta verið meistaraverk þó ekki sé nema tölfræðinnar vegna. En ég get ekki að því gert þótt mér finnist í meira lagi vafasamt að sérstaklega auglýsa skáldlega snilld undir því hógværa yfirskini að hún sé ætluð lesendum, því ef skáldið sjálft viðurkennir leynt eða ljóst að verk þess séu snilld – til að mynda þegar þau eru auglýst sem meistaraverk líkt og bækurnar hér að ofan – er það skáldið sem fær mærðina en ekki verkið. Setningin „sjáðu snilldartök mín á viðfangsefninu“ kallar ekki á viðbrögð um verkið heldur viðbrögð um handbragðið – snilldina sem bent var á. Verkið verður aldrei í öndvegi því það er ekki sagt „hér er verkið, legðu á það mat“ – það er þegar búið að leggja á það mat, með auglýsingu, en það er lesandans eftir að viðurkenna snilligáfu höfundarins. Og hún þarf ekkert endilega að koma fram eins og auglýst var, því auglýsingin hefur þegar skapað þann veruleika að verkið sé snilld, höfundur þess þarmeð og þarafleiðandi að það skorti eitthvað upp á hjá lesanda ef hann sér ekki snilldina, skilur ekki verkið, skynjar ekki dýptina. Höfundurinn er enda skáld, hann hlýtur að búa yfir andlegri dýpt sem almenning skortir, annarri sýn, tærri hugsun.

Og auðvitað stendur slík goðsögn ekki í neinu sambandi við annan veruleika en þann sem goðsögnin boðar með sjálfri sér: tálsýn snilldarinnar, sem er jafnhaldbær sönnun á sjálfri sér einsog maður sem stendur uppi á stól og öskrar yfir salinn að hann sé snillingur, og þeir sem kjósa að trúa á þann veruleika eru í langflestum tilvikum auðtrúa. Ég segi langflestum vegna þess að maðurinn á stólnum gæti verið snillingur, þó að öllum líkindum sé hann það ekki, vegna þess að a) þeir eru af skornum skammti og líkurnar því hverfandi, og b) sá sem öskrar ofan af stól er tæpast snillingur þótt hann vissulega kunni að vekja á sér athygli. Goðsögnin stendur einfaldlega ekki undir sjálfri sér. Það þarf trú til að viðhalda henni.

3. Konungurinn er ekki með höfuð!
Og þá komum við loksins að mergnum málsins: útgefendur reyna að skapa snillinga úr höfundum sínum svo lesendur kaupi hvaða drasl eftir þá sem er, á sama hátt og öll fyrirtæki þykjast hafa bestu vöruna, Pampers Baby Dry og Libresse með vængi. Er þá hægt að ganga að því sem vísu til dæmis að nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar sé meistaraverk? Nei, en ef hann er konungur íslenskra glæpasagna, Yrsa er drottning og aðrir ekkert, þá er forgangsröðin komin á hreint; þegar vitundin er orðin svo gegnsýrð þeim sýndarveruleika að einhver tiltekinn höfundur sé meistari, að þú kaupir nýjustu bókina þótt síðasta hafi verið drasl, og – einsog í einu tilviki sem ég man eftir – réttlætir fyrir sjálfum þér og öðrum að hafa lesið draslið svo þú getir keypt það nýjasta, með því að það hafi nú ræst úr henni, hún hafi nú bara verið góð eftir alltsaman (þegar þú loksins náðir að klára leiðindin); þegar þetta er orðið að spurningu um höfund en ekki verk, afþreyingu andspænis list, endurtekningu á móti sköpun, þá fyrst er listin komin í voða. Þá á ég ekki við að skáld eigi að vera of fín til að viðurkenna Arnald en reisa Kiljan altari á meðan, að ljóðabækur séu eðli málsins samkvæmt listrænni og dýpri á einhvern hátt en til dæmis bækur eftir Birgittu Halldórsdóttur, af því glæpasögur séu annarsflokks bókmenntir, heldur einmitt hálfa leiðina í hina áttina: að ekkert af þessu skipti máli og það sé hreinlega ólíðandi að snilld höfunda sé rúnkað og það oft þótt þeir nái henni ekki upp.

Það er ekki alltaf höfundunum að kenna, að minnsta kosti ekki alfarið, heldur forlögum, markaðssetningu, neyslustýringu, sjálfri menningunni í kringum bókaútgáfu. En við berum öll einhverja ábyrgð þótt mismikil sé – með því að spyrna ekki við fæti – og það er þess vegna sem ég vil leggja til að rithöfundar hætti sjálfviljugir að hefja sig uppyfir lesendurna, titla sig skáld, konunga, drottningar, ástsæla, listfenga, heimila að verk sín séu auglýst sem snilld, að tök þeirra á sleipu viðfangsefninu beri merki gríðarlegs hugvits og valds yfir ólíkum stílbrigðum, lærðum vísunum og íslensku máli. Ég vil ekki í stríð við neitt nema ríkjandi hugarfar og því segi ég þetta: það nægir að tilkynna að bókin sé til, og bókinni nægir að vera til svo hún sé lesin og metin að verðleikum, hversu léleg eða góð sem hún kann að vera. Látum verkin tala gæti einhver sagt. Það er trú á konung sem skapar konung og ekkert annað, og þegar trúin þverr þarf eitthvað annað að taka við. Og það getur með endemum verið frelsisveitandi og skemmtilegt að afhausa konunga – ef ekki hreint út sagt nauðsynlegt.

– Birtist einnig á Kistunni þann 24. janúar 2011.

Stiklur úr ferðasögu II

Skandinavíuhringurinn:

Álaborg: Fallegur bær sem mér skilst að smámsaman sé að deyja. Flest unga fólkið fer heldur suður til Árósa eða Kaupmannahafnar til að sækja sér æðri menntun, og fáir koma til baka. Stemningin á aðalverslunargötunni (sem er kölluð eitthvað annað en hún heitir en ég man ekki hvað) var nokkuð öðruvísi fyrir Danmörku fannst mér, næstum íslensk. Við Christian, Mathias og gestgjafi okkar Olle enduðum á bar sem heitir The Wharf. Þar er bjórinn á alvöru ámum og úrvalið er gríðarlegt. Klárlega flottasti bar Danmerkur af þeim sem ég hef séð.

Nørresundby: Þegar Mathias hafði tuðað nógu lengi undan því að við þyrftum að vakna eftir fimm tíma létum við til leiðast og tókum síðasta vagn yfir ána til Nørresundby. Þar héldum við flestir áfram að lepja bjór af einhverri óskiljanlegri ástæðu og enduðum á að sofa í sirka þrjá tíma, við galopnar svaladyr að minni kröfu. Eftir að hafa hrist af okkur morgunhrollinn og smurt nesti fengum við sýnikennslu í því sem síðar hefur fullsýnt sig sem staðreynd, að Danir kunna ekki að vísa til vegar. „Áfram götuna og til vinstri“ er meira en að segja það í íbúðahverfi þar sem öll húsin eru nákvæmlega eins, en einhvern veginn römbuðum við þó á lestarstöðina. Þegar lestin kom varð okkur ljóst að fínni vagnarnir ganga ekki á norður-Jótlandi, og þannig varð árið skyndilega 1960 þegar við stigum um borð.

Frederikshavn: Stemningin var einsog í unglingahrollvekju, mistur lá yfir bænum og reyndi að hylja þau ógrynni krana sem stráð var yfir höfnina. Fékk á tilfinninguna að bærinn væri lítið annað en höfnin, leið til að forða sér burt frá deyjandi norðurslóðunum. Þegar við höfðum fengið miða með skipi sem reyndist vera fljótandi sirkus var okkur vísað á „brú“ yfir að hafnarstæðinu sem reyndist vera kílómetri að lengd. Um ferjuna sjálfa hef ég ögn fjallað áður.

Osló: Mat mitt á Osló er áreiðanlega ósanngjarnt eftir stutta viðveru þar. Eftir 9 tíma siglingu sigldum við inn fjörðinn og við blasti stórfenglegt landslag. Svo dúkkaði höfnin upp og við stigum frá borði í leit að æti. Fyrir valinu varð kebabstaður/hóruhús. Við vissum ekki hvernig í pottinn var búið fyrren við vorum sestir inn við gluggann og byrjaðir að borða. Þrjár útlifaðar, sundurbarðar vændiskonur stóðu hver á sínu horni fyrir utan meðan ungir piltar veiddu fólk af götunni og falbuðu þær. Einn þeirra náði sölu og hljóp svo rakleiðis inn á kebabstaðinn til að skrá það í bók hjá veitingamanninum/melludólgnum. Ég missti matarlystina.

Eins mikið afrek og það er að hafa aðeins verið kortér í borg áður en við félagar styrktum lókal vændisiðnaðinn um peninga, þá héldum við áfram ótrauðir og fundum bar sem líktist heldur yfirgefnum lestargöngum, með öllu tilheyrandi. Þar drukkum við dýrasta og versta bjór sem um getur. Man ekki hvað hann heitir, en Norðmenn ættu alvarlega að íhuga að sleppa því alfarið að reyna að brugga bjór. Við vorum hálfpartinn farnir að gefast upp á rándýru og hundleiðinlegu næturlífinu sem við höfðum fundið, og héldum okkar leið í leit að huggulegri lókal.

Við eitthvert torg, sem ég hafði ekki rænu á að skrifa niður hvað hét, fundum við hressilegan hóp Norðmanna og Svía sem bauð okkur í partí. Við neyddumst til að afþakka það því leiðin lá, án þess ég hefði haft nokkra einustu vitneskju um það fyrirfram, í eitthvert skip sem lá við ankeri andspænis óperuhúsinu. Það reyndist vera ryðgað partískip sem hvorttveggja er bar og „veislusalur“. Þar hittum við Silje, vinkonu Mathiasar. Mathias hafði varað okkur við því að hún væri ásatrúar, svo við myndum ekki segja neitt yfirkrítískt um það efni svo hún heyrði. Þegar við höfðum fengið okkur einn bjór í partískipinu keyrði Silje okkur til síns heima í Drammen, þar sem við gistum um nóttina.

Drammen: Eftir að ljóst varð að strætó gengi ekki þann daginn keyrði Silje okkur á lestarstöðina. Þar varð Íslendingur fyrir lest nokkru síðar, sem ég játa að sló mig nokkuð. Drammen er fallegur bær með augljósum skíðabrekkum höggnum útúr skóginum í himinháum fjöllunum sem umlykja bæinn. Þegar lestin loksins kom varð mér ljóst að ferðin framundan yrði æði löng – það sást á skriflinu. Það kom enda á daginn, lestin frá Drammen tók tíu og hálfan tíma

Myrdal: Ég rankaði við mér á hæsta punktinum milli Oslóar og Björgvinjar, við Hardangerjøkulen, þar sem senurnar á Hoth úr Empire Strikes Back voru teknar upp. Mér þótti landslagið hafa breyst nokkuð og spurði hvar við eiginlega værum. Þá hafði ég sofið megnið af leiðinni. Lestin stoppaði í Myrdal í um 20 mínútur, sem var ríflega nóg til að sjá allan bæinn. Um fimm hús á að giska, leit út einsog gullgrafarabær. Þar hitti ég Henning Kure, höfund Goðheimasagnanna. Þeir Mathias reyndust vera vinir, sem dempaði nokkuð alla tilburði mína til grúppíustæla.

Það sem bíður á baðherberginu

Hálflesin Calvin & Hobbes, og drullusokkur sem lekur frá yfir allt gólf. Lyktin leynir sér ekki. Svona er að búa í húsi með gömlum pípulögnum. Ég vatt mér á næsta bás. Að vísu eru þeir til sem áttu verri aðkomu að baðherbergi en létu það ekki aftra sér, að ónefndri fyrrum nágrannakonu minni í Gellerup sem fékk rottu uppúr klósettinu meðan á notkun stóð. Það voru að sögn heljarinnar slagsmál. Ekkert sem klósettbursti vann ekki sigur á að lokum þó.

Í annars viðburðaslitlu hversdagslífi er margt sem bíður handan veggja baðherbergisins. Einkunnir fyrir tvær rannsóknir bíða birtingar, þaðan í frá mun ég sjá til hvort a.m.k. önnur þeirra sé birtingarhæf í ritrýndu tímariti. Próf hefjast svo á morgun. Eftir þá törn bíður mín það verkefni að sækja um doktorsnám hér í Árósum. Ég hef um 7 vikur til að formúlera umsóknina og rökstyðja að rannsóknarefnið sé algjörlega peninganna virði.

Önnin fer í öllu falli að hefjast og sumarplönin eru farin að verða til: miðju sumri ver ég annaðhvort í Uppsölum eða á handritanámskeiði í Kaupmannahöfn, og í ágúst er námskeið í fornleifafræði hérna í Árósum. Það ætti að tryggja mér sumartekjurnar ef ég verð spar á peningana. Ferðin til Indlands, Nepal og Bútan sem við nokkrir vitleysingarnir hérna plönuðum virðist því ekki alveg vera í myndinni sem stendur. Hver þarf enda norðanverðan Indíaskaga þegar næg ævintýri bíða inni á baðherbergi?

Universitetsparken

Svo fer gjarnan um mannanna ráð að þau bregðast, og því ítarlegar sem skipulagt er þeim mun meira geta smáatriði sett úr skorðunum. Smáatriði dagsins var að mér yfirsást að ég yrði nauðsynlega að afhenda lyklana að Lottuvegi á slaginu níu. Án lyklanna verður hvorki komist inn né út af lóðinni, hvað þá inn eða út úr húsinu, svo þegar Jakob vinur minn kom að hjálpa mér að lesta bílaleigubílinn sem ég átti að sækja sat ég enn á mínum stað, algjörlega strand með búslóðinni, bíllaus, inneignar- og ráðalaus eftir að hafa hringt í hinar ýmsu sendibílastöðvar sem allar voru fullbókaðar yfir daginn.

Fyrir einskæra heppni hafði Jakob gripið með sér númer á sendibílastöð sem hafði lausan bíl. Það kostaði formúgu, en það var ekkert annað í stöðunni. Án þessa númers væri ég sjálfsagt ennþá stofufangi á fyrrum heimili mínu, þar sem við þurftum að dúsa í þrjá klukkutíma meðan við biðum eftir bíl, og gleymdum því alveg að Mathias vinur minn, sem á sama tíma var að rífa sig upp eftir andvökunótt, var líka liður í planinu.

Þegar bíllinn loksins kom tóku flutningarnir þó snöggt af. Þar til það kom í ljós að Karlsvernersvegur 4 er ekki einn stigagangur heldur þrír eða fjórir. Þegar ég hafði gengið úr skugga um að herbergi með mínu númeri fyndist ekki á númer fjögur leituðum við víðar og fundum það á númer sex, sem samt er líka númer fjögur. Þegar allt draslið var að endingu komið á sinn stað gátum við verðlaunað okkur með bjór, eftir verst skipulögðu flutninga í manna minnum, og þá óþarflega lengstu miðað við umfang og vegalengd – frá klukkan 9 að morgni til 1 eftir hádegi.

Og nú er ég þá fluttur á gamla garð. Gamli háskólinn var reistur 1933 og garðurinn á árunum á eftir, allt eftir kúnstarinnar reglum þess tíma að vísu, sem kallar á þesslags kyndingu sem þeir sem búið hafa í eldri hlutum Kaupmannahafnar ættu að kannast við – kerti, og nóg af þeim. Eftir að hafa búið við handónýtan stofuofn Suðurgötunnar og stöðuga vestanátt inn af firði á veturna er ég enda löngu orðinn vanur því að hlýja mér við kerti.

Hér í bakgarðinum er bar, og annar hinumegin götunnar. Þá eru hér sjoppur, veitingastaðir og matvöruverslanir víða innan seilingar, Landsbókasafnið í næstu byggingu, Málvísinda- og guðfræðibókasöfnin sem ég nota mikið ögn lengra niður veginn, Norrænudeildin steinsnar þaðan í frá, og skógurinn, ströndin og miðbærinn í göngufæri. Bakgarðurinn sem ég nefndi er annars sá sem er á myndinni með færslunni. Ekki amalegt það!

Því má bæta við að þegar húsvörðurinn skoðaði íbúðina mína að Lottuvegi í morgun þá sagði hann mér að baðherbergið væri ekki nógu hreint. Ég spurði hann á móti hvort hann hefði séð ástandið á því þegar ég flutti inn. Bætti við að líklega hefði íbúðin aldrei verið hreinni. Hann gafst upp, og ég fæ tryggingagjaldið endurgreitt um mánaðamótin.

Nýársdagur

Ég held það hafi verið á nýársdag 1992 frekar en árið eftir að Batman (1989) var sýnd á Stöð2. Þá mynd sáum við fjölskyldan ásamt Anselmifjölskyldunni í bíó á sínum tíma í Piacenza, og svo aftur á video á Akureyri árið eftir. Þegar við áður bjuggum tímabundið í einhverri Hlíðinni í íbúðinni hans Halla frænda, að mig minnir, meðan Árni bróðir hans og fjölskylda bjuggu í okkar, áttum við bræður heilan poka af Batmansleikipinnum. Á umbúðunum voru límmiðar með leðurblökumerkinu sem við límdum á hérumbil allt sem fyrir varð. Þá voru bölvaðir Batmanþættirnir með Adam West enn sýndir bæði í ítölsku sjónvarpi og á Íslandi.

Þrátt fyrir að hafa ekki beinlínis búið í Batmanlausu tómi undanfarin ár þótti mér mikill viðburður að myndin skyldi sýnd í sjónvarpinu. Við bræður fengum frómas til að slafra í okkur með myndinni og þótti hvorugum það amalegt. Á þessari stundu laust það mig hve frábær nýársdagur væri og hversu skrýtið það var að ég hefði aldrei fattað það áður. Í um það bil eitt ár var nýársdagur því uppáhaldsdagurinn minn í árinu. Eina sem ég man frá nýársdegi árið eftir er að hann olli mér vonbrigðum.

Nýársdagur er mér ennþá jafn fjarlægur öllum þessum árum síðar. Það er sá dagur þegar allt virðist vera búið og ekkert nema heill fjarski af ókönnuðum lendum framundan. Í huga mér er hann alltaf tómur, einskonar millibilsástand. Á sama tíma er gamlárskvöld fyrir mér alltaf jafn konkret táknmynd þess að nú sé allt búið sem að baki er, síðasta brúin brennd yfir í nýja árið, og aðeins framtíðin taki við eftir það. Þess vegna verður nýársdagur alltaf hálfgerð vonbrigði eftir kvöldið á undan – svona dominospítsa á nærfötunum dagur meðan maður rifjar upp með sjálfum sér hvað það eiginlega var sem maður ætlaði að gera svona merkilegt á nýja árinu. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta kannski ólíklegasti dagur ársins til að minna á Batman.