Síðasta ljóðabók Sjóns til niðurhals

Síðasta ljóðabók Sjóns eftir okkur Jón Örn Loðmfjörð.
Kápa: Fanney Sizemore

Um bókina segir aftast:

bókin er skrifuð á stuttum tíma í draumi þann fjórða desember tvöþúsundogátta eftir neyslu átta kaffibolla og tuttuguogþriggja sígarettna í herbergi troðfullu af silfurskottum ljóðabókum sjóns úrklippum úr morgunblaðinu íslenskri orðabók og farsíma sem hringdi aldrei þakka þeim sem trufluðu mig ekki þakka sjón fyrir textana

þessa bók ert þú nú með í höndunum hún er raunveruleiki guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt og guð gefi sjón mátt til að fyrirgefa líkt og ég hef nú þegar fyrirgefið sjálfum mér þessa útgáfu

Bókina má sækja [HÉR].

Það sem sanna átti

Taugaskurðlæknirinn Milena Penkowa hefur mikið verið á síðum blaðanna og milli tannanna á fólki í Danmörku undanfarin misseri. Hún var vonarstjarna danska fræðaheimsins, hampað sem snillingnum sem útrýma myndi krabbameini úr heiminum, táknmynd hinnar frjálsu Danmerkur og hennar dýrðlega menntakerfis, og sönnun þess að konur – af útlendum ættum hvorki meira né minna – gætu hér uppskorið eins ríkulega og hvítir, danskir karlar. Því fer alls ekki fjarri að Penkowa hafi í einhverjum skilningi verið brúkuð sem átylla fyrir niðurrifi menntakerfisins í skugga reykmettaðra bakherbergja og skálkaskjól fyrir mannfjandsamlega stefnu stjórnvalda í garð innflytjenda, sem dæmi sem alhæfa mætti úfrá með því að benda á – það sem sanna átti.

„Sjáið bara Milenu Penkowu! Hún er útlensk, dökk í þokkabót, og hún er kona (þá fyrst skiptir máli að benda á konu þegar breiða þarf yfir fjarveru kvenna annarsstaðar, mælskubragð sem ýmsum er ekki síður tamt á Íslandi og nefna mætti „hic femina est-rökin“). Í ofanálag er hún framúrskarandi vísindamaður sem fær milljónastyrki á annað eins ofan. Við hötum ekki útlendinga hér, eða konur, og allir hafa jöfn tækifæri í Danmörku. Q.e.d.“

Vegna þess hversu afgerandi undantekning hún var frá norminu var fátt mikilvægara en að gera sem mest úr framandi uppruna hennar, en þá gleymdist víst að nefna að Penkowa er fædd í Óðinsvéum undir nafninu Milena Pedersen. Hún er því tæpast mikið meiri útlendingur en H.C. Andersen.

Lesendur geta því rétt ímyndað sér hversu sárgrætilegt það var fyrir stuðningsmenn hennar í stjórnmálastétt (af því fátt er mikilvægara vísindunum en áróðursendinn á retórík), og háskólasamfélagið allt, þegar í ljós kom að Milena Penkowa er svikahrappur og skottulæknir af verstu sort. Árið 1998 hlaut hún cand. med. frá Kaupmannahafnarháskóla, aðeins 25 ára gömul. Tveim árum síðar var hún ráðin við skólann sem aðjunkt og árið 2002 sem lektor. Ári síðar skilaði hún inn doktorsritgerð í taugaskurðlæknisfræði, þá þrítug að aldri. Það er gríðarlegt afrek hjá svo ungri manneskju og er nokkuð sem flestir að ég hygði settu strax spurningamerki við. Og vissulega vakti rannsókn Penkowu strax upp ýmsar spurningar, til dæmis þóttu niðurstöður hennar ótrúverðugar, og þá þótti doktorsnefndinni gríðarlega ólíklegt að hún hefði gert rannsóknir á hvorki meira né minna en 750 rottum (eðlilegur fjöldi rotta fyrir sambærilega rannsókn er milli 50 og 60), og bað því nefndin um öll viðeigandi gögn ásamt opinberum leyfum og kvittunum. Þau gögn sem svo bárust voru ekki vottuð af viðeigandi aðilum og þótti nefndinni þau á allan hátt grunsamleg og ótrúverðug. Ritgerðin var í kjölfarið dæmd marklaus og henni hafnað til doktorsvarnar – sem í sjálfu sér er fáheyrt.

Í bréfi nokkru síðar til þáverandi skorarformanns Heilbrigðisvísindadeildar Kaupmannahafnarháskóla (og núverandi rektors hans), Ralfs Hemmingsen, vegna úrskurðar doktorsnefndarinnar, lýsti Penkowa því yfir að hún hefði ekki haft færi á að svara doktorsnefndinni fyrr þarsem hún hefði misst foreldra sína og systur í bílslysi í Belgíu, og því varið miklum tíma undanfarið á sjúkrahúsinu og í kjölfarið í útför þeirra. Penkowa hafnaði gagnrýni nefndarinnar og Hemmingsen skarst þá óvænt í leikinn og fyrirskipaði að óháðir aðilar skyldu fara yfir rannsóknina og álitsgerð doktorsnefndarinnar. Lögfræðingur Penkowu (lögfræðingar eru nefnilega standard útbúnaður allra doktorsnema) fékk í samráði við hana að ráða hverjir þeir óháðu aðilar yrðu, og búið var svo um hnútana að þeir fengju ekki aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum, til að mynda heildarútgáfu ritgerðarinnar, svo þeir kæmust örugglega að annarri niðurstöðu en doktorsnefndin – sem þeir og gerðu.

Það er komið á daginn að Hemmingsen fór sjálfur yfir gögnin og gaf grænt ljós á skýrsluna án þess að hafa annað í höndunum en nafn á dularfullu einkafyrirtæki á Spáni sem framkvæmt átti að hafa rannsóknir á þeim gríðarlega fjölda rotta sem út af stóðu í reikningum Penkowu. Fyrir tilstilli skorarformanns var því fallið frá stóra rottumálinu og blásið á aðrar efasemdir doktorsnefndarinnar. Penkowa varði ritgerðina og útskrifaðist sem dr. med. árið 2006. Hemmingsen fannst hinsvegar ekkert undarlegt við það þegar hann skráði hina látnu foreldra Penkowu á boðslista varnarinnar og spjallaði við þau í móttökunni eftir á.

Ári eftir doktorsvörnina barst erindi inn á borð Hemmingsens, sem þá var orðinn rektor háskólans. Þrír nemendur Penkowu höfðu farið á fund prófessors við deildina vegna þess að ómögulegt reyndist að endurtaka rannsóknir hennar með sömu niðurstöðum og að háðum sömu skilyrðum, sem er grundvallaratriði í öllum vísindum, og nú féll það í skaut hins vilhalla rektors án þess að undan því yrði komist að senda erindið áfram til rannsóknarnefndar. Nefndin úrskurðaði að Penkowa hefði gerst sek um alvarleg brot á vísindalegum vinnubrögðum. Niðurstöður nefndarinnar fóru þó aldrei fyrir almenning, stórfelldar falsanir Penkowu voru aldrei tilkynntar og hún var hvorki kærð fyrir alvarleg afglöp í starfi né svipt gráðunni. Fyrir sakir rektors, sem hafnaði öllum ásökunum í hennar stað.

2008 var Milena Penkowa ákærð fyrir fjárdrátt, og vísaði hún ákærunni á bug en ásakaði nemanda sinn í staðinn um að hafa stolið fjármununum, og sýndi undirrituð gögn með hans nafni því til staðfestingar. Nemandinn var í kjölfarið handtekinn en gat fljótlega sannað að hann hefði ekkert með málið að gera, enda höfðu engar slíkar peningatilfærslur átt sér stað á reikningnum hans, svo ljóst var að Penkowa var ekki einungis sek um fjárdrátt, heldur einnig um skjalafals og falskar ásakanir. Nemandinn vildi í kjölfarið vita hvernig Penkowa fékk upplýsingar um bankareikningsnúmer sitt frá háskólanum, en fékk ekkert svar. Þegar ákæra átti Penkowu vegna þess máls og annarra, beiddist Kaupmannahafnarháskóli þess að málin yrðu heldur látin niður falla. Í öllum málum sem Penkowa hefur verið viðriðin gegnum árin hefur Hemmingsen varið hana.

Árið 2009 var hún loks gerð að prófessor við háskólann. Sama ár hlaut hún EliteForsk-verðlaunin upp á 1.1 milljón danskra króna, þó ekki nema fyrir íhlutun Helge Sander, þáverandi menntamálaráðherra, og Ralf Hemmingsen, rektors, sem settu mikinn þrýsting á að hún hlyti þau. Í fyrra sprakk þetta svo framan í alla hlutaðeigandi.

Í mars 2010 var Milena Penkowa svipt prófessorsstöðu sinni á grundvelli ákæru ríkissaksóknara á hendur henni, vegna máls sem Kaupmannahafnarháskóli hafði fulla vitneskju um tveimur árum áður – semsé, áður en hún var fyrir spillingu útnefnd prófessor og áður en hún fyrir spillingu hlaut EliteForsk-verðlaunin – en skólinn, það er rektor, sá sér ekki fært að aðhafast neitt á þeim tíma. Helge Sander, sem þá hafði látið af störfum sem menntamálaráðherra, hringdi í kjölfarið í skorarformann Heilbrigðisvísindadeildarinnar, Ulle Wewer, og títtnefndan rektor, Ralf Hemmingsen, til að þrýsta á að málið yrði látið niður falla. Þá kærði Penkowa brottvikninguna til dómsmálaráðuneytisins og Sander lagði sitt af mörkum til að þrýsta á Lars Barfoed, dómsmálaráðherra, að leysa greiðlega úr málinu. Hvers vegna var þetta svo mikið kappsmál? Vegna alls þess sem stjórnvöld og háskólasamfélagið höfðu fjárfest í henni, vegna alls þess þvættings sem hún var notuð til að representera, og þegar menn eru komnir ökkladjúpt í flórinn eiga þeir til að velta sér enn frekar uppúr honum í von um að það finni þá enginn í haugnum.

Ekki batnaði sirkusinn þegar sá kvittur komst á kreik að ekki aðeins hefði Penkowa átt í nánum kynnum við rektor, heldur einnig við áðurnefndan fyrrum menntamálaráðherra og ýmsa aðra ráðuneytisstarfsmenn sem beitt höfðu sér fyrir framgangi hennar innan háskólasamfélagsins. Þessu hafa þau öll staðfastlega neitað. Séu þær ásakanir á rökum reistar eykst enn við þær fjölmörgu víddir alvarleika þessa máls, en hitt verður að játa að ásakanir um slíkt eru orðnar að hálfgerðum standard þar sem konur eiga í hlut. Feðraveldið er nefnilega alveg sannfært um að konur komist ekki upp á toppinn nema hann gíni í gegnum raufina á nærbuxum. Í stærra samhengi málsins skiptir það hinsvegar litlu máli; þáttur hins opinbera í Penkowumálinu skánar ekkert hvað sem áhrærir hvílubrögð hlutaðeigenda – sama hve stífir blaðamenn standa í einerðni sinni.

Það sem raunverulega skiptir máli eru þær umfangsmiklu lygar, falsanir og fjársvik sem Milena Penkowa hefur verið staðin að. Það sem hún hefur gert stenst ekki einu sinni samanburð við að hannesa heilu bækurnar þar sem rannsóknarniðurstöður hennar hafa ekki bara áhrif á aðstandendur Halldórs Laxness, heldur hafa þær bein áhrif á líf krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra. Hennar eigin nemendur tilkynntu hana til háskólayfirvalda fyrir rannsókn hennar á eitilfrumukrabbameini, eftir að þeir, líkt og aðrir nemendur hennar áður, sem sagði, reyndu að endurtaka rannsóknina en fengu allt aðrar niðurstöður. Það mun taka fram í maí næstkomandi að leggja mat á rannsóknarvinnu hennar, en allt bendir til þess að hún hafi vísvitandi hagrætt niðurstöðum. Í bréfi úrskurðarnefndar til skorarformanns Heilbrigðisvísindadeildar segir að svo gróflega hafi hún svívirt vísindaleg vinnubrögð og falsað niðurstöður að það réttlæti ævilanga brottvikningu frá skólanum. Þá hefur komið í ljós að rannsóknarstyrkir hennar, ásamt EliteForsk-verðlaununum, hafa að mestu farið í ferðalög, veitingastaði og húsgagnakaup, að ógleymdum málskostnaði gegn Kaupmannahafnarháskóla – háskóla sem varð að gjöra svo vel að endurgreiða ýmsa hennar styrki vegna misferlisins.

Svo það sem sanna átti, að meiraðsegja útlenskar konur gætu komist til metorða fyrir eigin verðleika í hinu fullkomna og frábæra danska menntakerfi, og sannarlega skarað framúr, virðist enn vera alveg jafn fjarri raunveruleikanum og áður. Milena Penkowa er ekki útlendingur, enda hafa útlendingar nær engin tækifæri til menntunar í Danmörku. Hún er að vísu kona, kona sem tókst að svindla á gjörvöllu kerfinu í tólf ár og jafnvel lengur, með því að manipúlera miðaldra hvíta karla – hina raunverulegu valdhafa, semsé – og mögulega selt sig þeim í skiptum fyrir frama (nauðsynlegt ferli hverju feðraveldi). Og hvað menntakerfið snertir þá fyrir það fyrsta er augljóst að því hefur með vilja verið hægt og bítandi slátrað undanfarinn áratug, ekki síst er það augljóst í ljósi nýlegra aðgerða stjórnvalda. En framvinda Penkowumálsins sýnir að háskólasamfélagið er ekki einu sinni í stakk búið lengur til að takast á við falsanir, fúsk og fjárdrátt – sér í lagi ekki ef þrýstingi má svo auðveldlega beita að ofan.

Málið allt er hið pínlegasta, bæði fyrir ríkisstjórnina og Kaupmannahafnarháskóla, og búast má við því eftir því sem málinu enn vindur fram að ýmsir ónefndir þurfi að segja af sér vegna þess. Ef málið væri ekki allt svo óendanlega dapurlegt fylltist maður ef til vill einhverri þórðargleði yfir þessu klúðri öllusaman. En Danmörk virðist eftir sem áður vera land sem hatar útlendinga, jafnan rétt til menntunar og síðast en ekki síst konur. Það er það sem sannað er, því miður.

Birtist fyrst á Smugunni 6. apríl 2011.

Hugleiðingar um úrslitin

Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri prinsípskoðun að Íslendingum beri yfirhöfuð ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja (þó er deilt um hvort það sé tilfellið hér), og var sjálfur þeirrar skoðunar fyrst eftir hrun. Afstaða mín breyttist síðar og þá fyrst og fremst af pragmatískum ástæðum – auðvitað á almenningur ekki að borga skuldir einkafyrirtækja, en fyrirtæki sem ekki mega fara á hausinn ættu heldur ekki að vera einkafyrirtæki, þá síst af öllu bankar. Það sem gerðist var fyrirsjáanlegt öllum sem ekki höfðu hausinn í sandinum, þótt vitanlega væri okkur öllum brugðið. Þegar heilt bankakerfi fer á hliðina er ekki annað hægt en að bjarga því sem bjargað verður.

En hér bauðst okkur samningur um að greiða lygilega lága og sanngjarna upphæð fyrir þá fjármuni sem íslensku bankarnir rændu almenning í Bretlandi og Hollandi um, og ég kaus með honum af því ég tel að það sem kemur þjóðinni best að lokum sé óháð þrjóskulegum prinsípum; þeir sem helst bera sig saman við Bjart í Sumarhúsum eiga þá sjálfslíkingu áreiðanlega skuldlausa. Hann er einhver alversta fyrirmynd sem hugsast getur, en einhverra hluta vegna hefur hann orðið að táknmynd hins sjálfstæða Íslendings. Kannski er eitthvað til í því.

Ég þekki margt gott og gáfað fólk sem kaus á móti samningnum í gær, og ég þekki sömuleiðis margt gott og gáfað fólk sem kaus með honum. Þó held ég að þeir fyrrnefndu hafi rangt fyrir sér, af nokkrum ástæðum.

Eftir að fyrri samningi var hafnað hafa margir orðið til þess að segja að ekkert hafi gerst, að höfnun þess samnings hafi verið afleiðingalaus fyrir Ísland, jafnvel talað um tilefnislausan hræðsluáróður stjórnvalda. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin verið ásökuð um aðgerðaleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er einsog fólk sjái ekki samhengið þarna á milli.

Það er nokkuð ljóst að Ísland er lánsfjárþurfi, og að höfnun Svavarssamningsins hefur orðið þess valdandi að Íslendingum hafa ekki staðið til boða mikilvæg erlend lán sem nota mætti til að mæta eldri lánum á gjalddaga og dæla peningum út í atvinnulífið til að efla hagvöxt, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Í þeim skilningi er það rétt hjá fólki að „ekkert hafi gerst“ við að neita þeim samningi. Þær fjárhæðir sem hafa tapast vegna þessa verða ekki mældar í neinum smáræðis einingum, ef þær eru yfirhöfuð mælanlegar.

Það er raunar ótrúlegt að Ísland sé ekki verr statt en raun ber vitni. Það má margt segja um ríkisstjórnina, en henni hefur þó tekist að halda Íslandi á floti með Icesavemálið óklárað. Á meðan heldur niðurskurðurinn áfram, atvinnuleysi eykst og almenningur á sífellt erfiðara með að ná endum saman. En stöðnun í fjármálakerfi og atvinnulífi Íslands er ekki ríkisstjórninni að kenna, heldur er hún afleiðing hruns íslenska bankakerfisins og lánleysi stjórnvalda til að semja um það sem út af stendur. Með þetta mál hangandi yfir hausamótunum á okkur horfumst við í augu við nokkur ár til viðbótar af þessu sama.

Í gær fengum við valkost um að greiða 32 milljarða króna miðað við nýjustu útreikninga. Þeir sem tóku afstöðu gegn samningnum voru margir á því að betra væri að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort Íslendingar þyrftu yfirhöfuð að borga. Ég deili ekki þeirri bjartsýni með þeim. EFTA höfðar ekki mál nema að vel athuguðu máli, enda vinnur EFTA undantekningalítið. Þá voru sumir sem töldu að töpuðu Íslendingar málinu yrðu þeir tæpast dæmdir til að greiða meira en umsamda 32 milljarða króna. Það er óskhyggja.

Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvað við gætum þurft að greiða, og stór hluti þeirrar upphæðar verður eingöngu reiknaður í töpuðum tíma – líkt og með höfnun fyrri Icesavesamnings. Sá árangur sem ekki næst meðan Ísland rekur mál sitt fyrir EFTA er glataður árangur, glataðir fjármunir, meiri niðurskurður og aukið atvinnuleysi. Það var fórnarkostnaður síðasta neis og það verður fórnarkostnaðar þessa. Við þessu var búið að vara og það gekk eftir, sama þótt það sé nú kallað hræðsluáróður og stjórnvöld sögð „aðgerðalaus meðan heimilin brenna“. Meira má nú dramað vera. Lýðræðinu fylgir ábyrgð og þjóðin tók þessa ákvörðun sjálf.

Enn aðrir spurðu sig hvers vegna Bretar og Hollendingar hefðu ekki þegar kært okkur fyrst þeir væru svona vissir um réttmæti krafna sinna. Því er auðsvarað: þjóðir sem eiga í samningaviðræðum kæra ekki samningsaðilann. Það er fáránleg hugmynd. En á næstu vikum og mánuðum munum við sannarlega fá að sjá hversu einarðir þeir standa með kröfum sínum. Um það er ekki að efast að þeir taka slaginn með sannfæringu, rétt einsog íslensk stjórnvöld lýstu yfir í gærkvöldi að þau myndu gera fyrir hönd Íslendinga.

Um þátt forsetans vil ég sem minnst segja. Ég er almennt hlynntur slíku hliðskipuðu aðhaldi, hvort sem er frá forseta, meirihluta þings eða tilteknu hlutfalli kjósenda, en ég er líka sammála forsætisráðherra þegar hún segir að mál af þessu tagi henti ekki til þjóðaratkvæðagreiðslna. Þegar fólki býðst að greiða umtalsverðar fjárhæðir eða sleppa því hlýtur það alltaf að sleppa því, og þar kemur ofureinföldunin inn: atkvæðagreiðslan snerist ekki um að sleppa því, heldur um hvernig, hvenær og hversu mikið við komum til með að greiða á endanum. Kannski greiðum við ekkert, en fórnarkostnaðurinn við málareksturinn verður alltaf hærri en sú upphæð sem bauðst í gær. Þá fyrst verðum við kannski einsog Bjartur í Sumarhúsum, sem stóð uppi með ekkert að lokum sökum þrjósku sinnar og heimóttarskap.

Á sama tíma hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með Íslendinga – ekki vegna niðurstöðu kosninganna, ég ber virðingu fyrir henni – heldur vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað í aðdraganda kosninganna. Vigdís Finnbogadóttir lýsti afstöðu sinni til málsins og var í kjölfarið kölluð landráðamaður og afæta á íslenskri þjóð. Það er hreinlega ekki í lagi. Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri og höfuðpaur Icesave, lýsti einnig yfir sinni afstöðu – og uppskar engin húrrahróp þótt hann segði nákvæmlega það sama og margir nei-arar (enda skyldi engan undra). Þá voru ýmsir sem stilltu Vigdísi og Sigurjóni upp sem dýrlingi á móti djöfli – glæponinn segir nei, sameiningartáknið segir já, hver sá sem sæi það ekki væri heimskur. Það var ekki til fyrirmyndar.

Þá hafa ýmsir kallað eftir leiðtoga sem stæði í lappirnar gagnvart erlendri kúgun. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvert slíkur þankagangur gæti leitt okkur. En þjóðin er geðklofin í þessu sem svo mörgu öðru: hún hafnar „foringjaræði fjórflokksins“ (?) en biður um „sterkan leiðtoga“ í staðinn. Umræðan hefur spúið fnyk þjóðernishyggju yfir grandvaralausa og vitnað er í hverja bábiljuna á fætur annarri, einsog þeir sem lýstu yfir á Facebook að nei árið 1918 hefði skilað okkur fullveldi, nei árið 1944 hefði skilað okkur sjálfstæði og nei árið 1976 hefði skilað okkur 200 mílna landhelgi. Þetta er svo galin söguskoðun að það þarf ekki að hafa frekari orð um það.

En söguvitund á Íslandi hefur svosem aldrei verið neitt sérlega beisin. Hún er svona: Íslendingar voru stoltir víkingar sem létu erlent yfirvald ekki svínbeygja sig svo þeir stofnuðu fyrsta lýðveldi heimsins (nei árið 871 skilaði okkur …). Svo komu Danir og kúguðu okkur og létu okkur borða maðka. Þá kom Jón Sigurðsson og mótmælti í fleirtölu. Svo fengum við sjálfstæði og urðum langsvölust.

Þá hefur fólk verið kallað fífl, bjánar, geðsjúklingar og ég veit ekki hvað á báða bóga fyrir það eitt að mynda sér skoðun á einu umdeildasta máli Íslandssögunnar og kjósa eftir sannfæringu sinni. Ég get ekki sagt að ég sé stoltur Íslendingur eftir þetta. Umræðuhefðin virðist snúast um að gagga sem hæst innantóm slagorð einsog tourettesjúklingur í miðju raðheilablóðfalli. Ég var um daginn spurður hvort ég ætlaði að skuldsetja „börnin okkar“, sem að vísu er skárra en að senda þau í kolanámu einsog annar nei-ari gaf í skyn. Margur á já-hliðinni var litlu skárri. Íslendingar mega eiga það eftir hrunið að þeir eru gagnrýnir og veita stjórnvöldum aðhald, en umræðan einsog hún var orðin fyrir atkvæðagreiðsluna var fyrir margt löngu farin að daðra við fasisma. Og mér sýnist á netinu að ekki sé hún enn búin þar sem já-arar og nei-arar munnhöggvast nú sem aldrei fyrr.

En nú er niðurstaðan komin og við hana verður að una. Við rekum þá málið fyrir dómstólum og sjáum hvað setur. Ég vona bara að Íslendingar hafi þroska til að axla ábyrgð sína þegar þar að kemur og láta af þessum heimskulega fúkyrðaflaumi á báða bóga. Hvorugur helmingur þessarar klofnu þjóðar má segja „told you so“ þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þá skulum við í eitt skipti fyrir öll taka höndum saman, halda kjafti og borga helvítis reikninginn. Ég vona að sem flestir geti verið sammála um það.

Á málþingi

Síðastliðinn föstudag brá ég mér á málþing Miðaldaleshringsins sem bar yfirskriftina „Alkoholkultur i middelalderen“. Þar fræddist ég meðal annars um það að á 15. öld þótti drykkja keyra svo úr hófi í danskri þinghelgi að brugðið var á það ráð að flytja bæði Héraðs- og Landsþing úr borg í sveit, svo þau gætu starfað í friði fyrir linnulausu fylleríi þinggesta.

Þetta ráð brást allhrapalega, þar sem vertshúsin fluttu hreinlega með og veittu áfengi frá morgni og fram á nótt. Svo rammt kvað að djammi þinggesta að í byrjun 16. aldar fundu menn sig loks knúna til að leiða í lög algjört bann við meðferð áfengis á og í næsta nágrenni þingstaðar, ásamt ákvæði sem mælti svo fyrir að mætti maður drukkinn fyrir dómara hlyti hann ekki áheyrn.

Af heimildum þess ágæta fræðimanns, sem og þeirra hinna sem héldu erindi þarna, má nokkuð ljóst heita að drykkjuskapur Dana hafi verið nokkuð alræmdur á miðöldum. Jafnvel Saxo Grammaticus skammaðist sín fyrir. Svo er aftur spurningin hvort þetta hafi nokkuð breyst að ráði. Í öðru erindi sem haldið var kom fram að alstaðar í Evrópu þótti ekki til siðs að drepa fólk í veislum, nema í Danmörku. Það fannst mér fyndið. En því miður hefur sá siður ekki lagst af, sbr. morðið í Valby í fyrradag.