Ögn um uppdiktuð djöflafræði

Í rannsóknum á yfirnáttúru á miðöldum kemst maður í tæri við ýmislegt. Mörkin milli hins yfirnáttúrlega og þess djöfullega verða óskýrari því trúarlegri sem textinn er, og eitthvert mest hrollvekjandi dæmið um slíka frásögn er í Jóns sögu, þar sem segir frá því þegar heilt kirkjufylli af uppvakningum réðist á Guðrúnu „kirkjukerlingu“ á 12. öld.

Ýmis demónólógía er sannarlega til. Þar gildir jafnan hið sama, að yfirnáttúra er ekki greinilega aðskilin frá hinu djöfullega. Hægt er að nefna systurbækurnar Malleus Maleficarum og Compendium Maleficarum, sem eru sennilega með frægari ritum er varða svartagaldur og djöfladýrkun, og sjálfsagt að áhugasamir kynni sér þau. Íslenskar galdrabækur eru til (sjá t.d. Galdrar á Íslandi sem Matthías Viðar Sæmundsson gaf út árið 1992.

Hinsvegar eru þessi rit ekki sérlega mörg þótt margir kynnu að halda það, og raunar er sennilega meira til af falsaðri djöflafræði en ósvikinni. Mig langar til að nefna tvö dæmi, annað sem er óvéfengjanlega hið frægasta, þá annað sem er eiginlega bara hlægilegt.

Hið fyrsta er Necronomicon, rit sem fyrir nekrólógum heimsins er álíka fágætt og dýrmætt og Rauðskinna var Galdra-Lofti, og álíka hættuleg. Ég á hana uppi í hillu, merkilegt nokk, og hefur mér þó ekki orðið meint af. Raunar er þetta ekki sú eina: það eru til að minnsta kosti þrjár aðrar (frumsamdar) gerðir, og í þeim skilningi einum „er hún til“. Þessi bók er jafnmikill skáldskapur og Rauðskinna (þykir mér í allri einlægni leitt að segja: sú Rauðskinna sem þið finnið í Gegni er þjóðsagnasafn).

Þrátt fyrir að alvitað sé að H.P. Lovecraft diktaði upp alla sögu og tilvist Necronomicon er til fullt af fólki sem neitar að trúa því. Til dæmis má nefna þennan geðslega náunga hér. Því til staðfestingar að bókin sé til vitnar hann í Dr. Joseph Talbet, Ph.D., D.Litt við Harvardháskóla, sem því miður er heldur ekki til. Að öðru leyti eru allar upplýsingar sem hann hefur um ritið komnar beint frá Lovecraft, meiraðsegja sú stórsniðuga hugmynd að Ole Worm (f. 1588 – d. 1655) hafi þýtt hana á latínu úr grísku á fyrri helmingi 13. aldar, u.þ.b. 360 árum áður en hann fæddist. Svo er auðvitað afskaplega lítið fútt í að særa fram djöfla uppúr kilju sem maður keypti á slikk í Bókabúð Máls og menningar.

Hitt ritið er Delomelanicon, bók sem djöfullinn á sjálfur að hafa skrifað (en fæst hinsvegar ekki í Bókabúð Máls og menningar). Það er ekki alveg á hreinu hvenær hún á að hafa verið skrifuð, hvort Gutenberg hafi verið búinn að færa prentlistina til Evrópu eða hvort hún var skrifuð á bókfell, ritvél eða MacBook. Að minnsta kosti væri höfundinum í lófa lagið að fá hana útgefna í pocket hjá Penguin eða fyrir Kindil gegnum Amazon, en hann virðist ekki hafa hugsað út í það þar sem bókin er ófáanleg.

Þrátt fyrir að þessi bók sé hugsmíð Arturo Pérez-Reverte er fólk nefnilega samt að leita að henni. Hennar er fyrst getið í skáldsögu hans Dumasarfélaginu, sem annars að stærstu leyti fjallar um bókina The Book of the Nine Doors of the Kingdom of Shadows, eða De Umbrarum Regni Novem Portis, sem er heldur ekki til. Ýmislegt í þeirri síðarnefndu gæti þó verið byggt á La Hypnorotomachia Poliphili frá 1499, sem á þó ekkert skylt við djöfladýrkun. En fólk heldur samt áfram að vona að þetta sé til, jafnvel þótt saga þessara bóka sé fyrir áratug orðin að stórmynd með Johnny Depp í aðalhlutverki (The Ninth Gate), og það þótt það komi bæði fram í bókinni og myndinni að hinni ímynduðu bók Delomelanicon hafi verið gjöreytt. Það virðist bara vera of freistandi að trúa því sem hljómar spennandi.

Lærdómurinn af þessu er kannski ekki mikill, nema þá kannski að maður léti betur ógert að stríða occúltistum með því að gefa út falsaðar bækur um svartagaldur, því þeir muni bara taka mann á orðinu (slík er arfleifð Aleister Crowley, sem raunar trúði á bullið í sjálfum sér eftir því sem ég kemst næst). Kannski skortir eitthvað á gagnrýna hugsun. Auk þess er langtum áhugaverðara að skoða raunverulega sögu svartagaldurs og djöfladýrkunar í Evrópu á miðöldum. Á síðasta ári kom t.d. út þykk og góð bók um efnið hjá University of Pennsylvania Press, Witchcraft and Magic in the Nordic Middle Ages eftir Dr. Stephen A. Mitchell við áðurnefndan Harvardháskóla (þessi prófessor er semsagt til í alvöru, ólíkt hinum).

Ég mæli með henni. Hún er miklu skemmtilegri en uppdiktaðar 20. aldar galdraþulur, einsog t.d. eintakið mitt af Necronomicon sem var samið á 8. áratugnum í Bandaríkjunum. Svo, ef maður er ekki viss hvað er satt og hverju er logið, þá er enginn verri fyrir að leita svara hjá sérfræðingi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *