Enn af draumförum

Í nótt dreymdi mig fernt sem ég man.

1. Par sem við þekkjum var ásamt fleiri gestum í litlu boði hjá okkur Eyju. Þau rifust allan tímann og sérstaklega hann, sem ásakaði hana í sífellu um að reyna við mig. Svo lagði hann hönd á öxlina á mér inni á milli og sagði í hughreystandi tón: „Þetta hefur ekkert með ykkur að gera, þetta er bara dálítið sem við erum að útkljá.“ Við hin gátum ekki étið pönnukökurnar okkar fyrir þessu og veltum fyrir okkur hvenær þau færu.

2. Það var partí í kjallaranum á Laugarnesskóla, samt á skólatíma svo það mátti ekki sjást til þess að neitt djamm væri á ferðinni, allt fullt af börnum á skólalóðinni. Í kjallaranum var einskonar dýflissa þar sem allir kennarar við skólann fyrr og síðar áttu sér sitt eigið útskorna dýr (ég tók eftir því að Ármann Jakobsson átti þarna ref, sem var útskýrt fyrir mér þannig að Ármann merkti ‘slóttugur‘ á einhverju tungumáli). Ég þurfti síðan að sækja bjór í aðra byggingu skólans og endaði einhvern veginn sem starfsmaður skólans í anddyrinu.

3. Ég varð gríðarlega skotinn í Justin Bieber, en hann var ofboðslega leiðinlegur við mig og upptekinn af sjálfum sér. Vildi alltaf að ég tæki af sér hreyfimyndir á símann minn sem hann ætlaði svo að eyða löngum tíma í að klippa einhvern veginn saman í tölvu. Ég var farinn að halda að hann vildi kannski bara alls ekkert sofa hjá mér eftir allt saman.

4. Hár sem ég dró úr nefinu á mér breyttist í lítinn, loðinn orm sem vildi ólmur knúsa mig. Hann var nánast einsog kettlingur.

Ojróvisjon

Fólk pirrar sig stundum á því þegar annað fólk (oft þulir Ríkisútvarpsins) tala um Evróvision. Hvers vegna að þýða aðeins fyrri partinn en ekki þann seinni? Annaðhvort skal það vera Evrópusýn eða Eurovision og engar refjar!

Ef við tökum hefðarrökin þá er sannarlega hefð fyrir því í íslensku að setja inn v í stað u í sérhljóðaklasanum eu, þar sem ekki finnst sambærileg stafsetning í íslensku. Í ensku er eu borið fram (eða jeú) og í þýsku er borið fram (gríðarfallegt) oj, sem margir Íslendingar hafa tekið upp á arma sína (sbr. sjónvarpsauglýsingar um nojtralsjampó).

En hefðin kallar á v. Á íslensku er skrifað um Evsebíus þar sem annarsstaðar er talað um Eusebius (Júsebíus). Í íslensku er einnig talað um Evridís en Euridice (Júridisí) í ensku. Seinniparturinn á sér annarskonar hefð í íslensku. Við höfum t.a.m. í meira en 30 ár talað um vídeó (úr latínu: ég sé), enda liggur það beint við, og þá er ekkert svo galið að tala um visíó (úr latínu: sýn) heldur. Það er okkur ekki framandi hugmynd að i sé oft borið fram einsog j (í orðinu video er það nálægð e-sins við tannhljóð sem gerir það að i/j-hljóði), en sérhljóðaklasinn eu þekkist ekki í íslensku. Þess vegna er þetta v sett inn í staðinn (svo má alltaf nefna það að u og v eru sögulega sama hljóðið í latínu).

Það þýðir hinsvegar ekki að réttur framburður á því orði sé evróvision! Það er málvöndun. Stafsetning og framburður njóta ekki nema vafasamra tengsla til að byrja með og því vil ég heldur leggja til við fólk að það tali annaðhvort um Júróvisjon eða Ojróvisjon, jafnvel þótt það skrifi evróvision. Það er ekkert rúm fyrir þetta evró í framburði samsetts tökuorðs, ekki nema það sé Bogi Ágústsson sem talar.

Að því sögðu eru sjálfsagt til faglegri útskýringar á fyrirbrigðinu. Ég er bara að hugsa upphátt (eða í letri fyrir pjúristana). Og vissulega tölum við um Evrópu og evrur, en mér finnst annað prinsíp vera að verki þar.

Samskiptin sem aldrei hefðu orðið

Ég held það megi færa rök fyrir því að a.m.k. tvenns konar aukalög hafi bæst ofan á þegar marglaga veruleika mannlegra samskipta með tilkomu Facebook. Þá á ég við samskipti sem hefðu ekki átt sér stað ella.

Það eru annars vegar þeir sem maður þekkir ekkert í raun en maður af einhverjum löngu gleymdum ástæðum hefur vingast við á Facebook. Stundum þekkir maður svo lítið til viðkomandi að maður kynni ekki einu sinni við að skrifa á vegginn þeirra, en samt sem áður þá verður til nýtt vandamál á götum úti: heilsar maður ókunnuga Facebookvininum eða ekki? Við þær aðstæður gilda almennar heilsreglur, þ.e.a.s. maður heilsar ekki nema hinn heilsi fyrst (sem getur skapað áhugavert vandamál). Oftast endar maður samt á að heilsa að fyrra bragði, eftir flókinn leik augnsambandstengsla , -rofs og endurtengsla. Hvernig sem leikurinn annars endar líður manni alltaf einsog hálfvita eftir á. Vandinn við þessi samskipti er að etableruð heilsregla verður sjaldnast til milli fólks sem varla er málkunnugt og því þarf að endurmeta hvort heilsa eigi sama ókunnuga Facebookvininum í hvert einasta sinn sem maður mætir honum. Þarna hafið þið fengið lýsingu á einni minni verstu hvunndagsmartröð.

Hitt lagið er jákvætt og verður til ofan á kunningjasamskipti, og þetta tengist nokkru sem ég ræddi við Nönnu Hlín letibloggara, Bryndísi sem af óskiljanlegum ástæðum bloggar ekki og Höskuld sem ég veit ekki hvort bloggar eða ekki (við vorum semsé að ræða samskiptareglur og sér í lagi vandræðaleg samskipti). Fólk sem maður annars þekkir lítið og yrði annars kannski feiminn við að tala við er oft svo áberandi á Facebook að maður stendur sig að því að kommenta hjá því, til verða lækbandalög og að lokum getur maður talað við það í kjötheimum einsog ekkert sé; úr verður eins konar æðri kunningsskapur, jafnvel vinátta, við fólk sem maður annars myndi í besta falli segja hæ við á Laugaveginum. Svo eru auðvitað hinir sem maður af einhverjum sökum getur átt skemmtileg samskipti við á Facebook en alls ekki í kjötheimum og vandræðalegra getur það eiginlega ekki orðið.

Bæði aukalög má þannig rekja til fólks sem maður þekkir ýmist ekkert eða lítið en hafa afar ólíkar afleiðingar, neikvæðar og jákvæðar. Svo getur fólk raunar færst um flokk í hvora áttina sem er; ókunnuga Facebookvininum getur maður kynnst og svo ef langt líður milli samskipta getur maður í einhverjum skilningi afkynnst kunningjum svo það hættir að vera sjálfkrafa viðeigandi að heilsa þeim. En það er annað og flóknara mál að rekja það í svo stuttu máli.

Gyðingar og nasistar

„Ísraelar hegða sér bara alveg einsog nasistar gagnvart Palestínumönnum, þeir eru engu betri en Hitler. En Hitler var nú raunar ekki alslæmur. Hann hafði sitthvað til síns máls þegar hann talaði um gyðinga, og þeir hafa nú sýnt það hvernig þeir eru innst inni.“

Kannist þið röksemdafærslu af þessu tagi? Hún er mjög algeng á íslenskum bloggsíðum um þessar mundir og felur í reynd í sér tvær röksemdafærslur sem stangast hvor á við aðra:

Röksemdafærsla 1
1. Nasistar voru vondir
2. Gyðingar eru einsog nasistar
3. Þar af leiðandi eru gyðingar vondir

Röksemdafærsla 2
1. Nasistar sáu að gyðingar eru vondir
2. Nasistar brugðust við því
3. Þar af leiðandi voru nasistar góðir

Þegar ég segi að röksemdafærsla af þessu tagi sé algeng á íslenskum bloggsíðum, þá meina ég í raun nákvæmlega þessi röksemdafærsla fremur en afbrigði af henni, og ekki bara blogg heldur allt netið, allt samfélagið. Og þetta er ekki röksemdafærsla sem eintómir bjánar fara með þótt hún sé augljóslega heimskuleg þegar hún hefur verið tekin í sundur, heldur er þetta nokkuð sem ég heyri víða, hjá ólíklegasta fólki. Og ég velti fyrir mér hvað á sér stað í hugsanaferlinu þegar svona niðurstaða spýtist út.

Meira var það ekki, ég vildi bara vekja athygli á þessu. Mér finnst þetta merkilegt.

Í frystinum

Ef einhverjir nemenda minna álpast inn á þetta blogg skulu þeir vita að ég gekk í bandvitlausu veðrinu úr austanverðum Hlíðum út á Árnastofnun til að verða mér úti um greinarnar sem verða til umræðu á morgun. Eða hefði gert það ef konan mín hefði ekki bent mér á að við eigum bíl. En ég lenti í ævintýri við að setja á hann bensín þar sem kortaraufin á dælunni var frosin. Heldur betur. Já, það eru engar smá fórnir sem ég færi fyrir nemendur mína.

Háskólatorg var einsog kjötkælir og þeir fáu nemendur sem sáust þar héngu stífir einsog dilkar. Stúlkan í Hámu sat á lopapeysu (eða í henni, ef þið skiljið ekki forsetninguna) og hafði þykka húfu á höfðinu en nötraði samt. Það verður ekki hæðst nógu mikið að þessari svokölluðu byggingu. Verktakinn hefur sjálfsagt gert samning við arkitektinn um að ljúga því að ber steypa væri í tísku, selt fokhelt hús sem fullklárað og þeir skipt afgangnum á milli sín. Svei mér ef ekki.

Markaðsbúskapur rannsakandans

Gamall maður kemur með hundi sínum innanúr hrauni og geingur í veg fyrir lestamenn:
Og hverjir eru mennirnir?
Hinn feiti svarar: Ég er hans majestets bífalíngsmaður og prófoss.
Óekkí, muldraði gamli maðurinn hás einsog rödd úr fjarska. Skaparinn er nú samt sá sem ræður. – HKL

Ég er svona náungi sem vakir á næturnar með samviskubit og les kennslubækur í fornum germönskum málum. Samviskubitið er vegna þess að mér finnst ég vera svo illa lesinn og að ég viti ekki neitt. Það hefur samt enginn lagt upp með að ég læri gotnesku eða fornensku nema ég sjálfur. Og það eina sem ég les eru miðaldafræði. Mér finnst ég bara ekki lesa nóg af þeim. Tilraunir til að lesa annað fara fljótt út um þúfu; ég byrjaði til dæmis að endurlesa Íslandsklukkuna í gær en háðið var í of grófum kontrast við hitt lesefnið til að skorpnaða fræðisálin gæti meðtekið. Það var einsog að horfa með öðru auganu á Klovn í miðju atvinnuviðtali.

Merkilegt nokk er ég ekki einn um þetta. Til er heil gomma af síðum fyrir framhaldsnema að leita sér huggunar í. Vinsæl myndasaga er PhD Comics sem fjalla allar um tímadráp og tilgangsleysi framhaldsnáms. PhD Stress er gifsíða um hugvísindi og streitu (ég skil fæsta brandarana þar). Og svo rakst ég í kvöld á giffærslu á Buzzfeed sem heitir What grad-school is really like þar sem ýmislegt er sem ég kannast við.

Margar fleiri svona síður eru til um víðan vefinn en maður rekst líka á þetta á skrifstofunni í Gimli. Margir þar eru með hvatningsorð uppi á borðum. Einn kollegi er með fræga enska skiltið „Keep calm and keep going“ hangandi uppi. Annar er með æðruleysisbæn. Það eru beisiklí allir að fara úr hárunum af stressi yfir að vera ömurlegir, óþarfir og illa lesnir. Framtíð ekki aðeins íslensks fræðasamfélags, heldur fræðasamfélags alls heimsins. Það er dálítið merkileg tilhugsun.

Hvers vegna líður doktorsnemum svona? Kannski eru þeir margir illa lesnir, en sennilega hafa þeir bara ekki lært það enn að það er ekki hægt að gera hlutina svona nákvæmlega, að það er ekki nægur tími til í heiminum til að gera eina rannsókn nægilega ítarlega úr garði til að það borgi sig; tíminn vegur á endanum á móti gæðunum. Þannig að um þetta er farið einsog öðru í þessum heimi að þegar öllu er á botninn hvolft snýst það gæðastjórnun og arðsemissjónarmið. Ég er ekki viss um að ég sé sáttur við þá niðurstöðu en þetta er nú einu sinni bara blogg.

Ungur í anda, það er ég

Alltaf í upphafi haustmisseris er mikið um að vera á Háskólatorgi. Heil reiðinnar býsn af nýnemum, þriðjungur af hverjum sést ekki aftur eftir almennuna, ryðjast um rýmið (hinir fáu hugvísindanemar þekkjast oft á Fjällrävenbakpokanum). Hljómsveit sem einhver hélt að væri vinsæl en var í rauninni vinsæl fyrir fimm árum spilar lög sín í þessu rými sem aldrei var hannað með hljómburð í huga. Þetta á að gefa fögur fyrirheit um komandi fjör á skólaárinu; næst á dagskrá er svo Októberfest í september af því það verður of kalt til að halda það í október, og raunar á Októberfest SHÍ ekkert skylt með þeirri hátíð nema nafnið.

En síðan lognast þetta hratt út og við tekur kaldur, grár raunveruleikinn. Ég er afar hlynntur köldum, gráum raunveruleika. Að minnsta kosti samanborið við haugafulla fyrsta árs nema júbílerandi á háskólalóðinni einsog á útihátíð. En mér þykir raunar nóg um að fá Bubba eða eitthvað þaðan af verra til að taka lagið yfir hausamótunum á manni í hádeginu; það væri sök sér ef Háskólatorg væri ætlað undir slíkan flutning í stað þess rétt fokhelda gímaldins sem það er. Og nú þegar Stúdentakjallarinn hefur tekið við drjúgum hluta úr félagslífinu finnst mér loksins einsog stemningin sé orðin góð, jafnt uppi sem niðri, einsog orðið hafi einhvers konar menningarleg útjöfnun. Allt hið besta mál.

Svo er víst líka kominn mars, fyrir utan að vormisserið er alltaf umtalsvert rólegra en hitt á haustin. Svo breytist Háskólinn að vísu aftur í FB í haust en maður tekur því einsog hverju öðru hundsbiti. Og ef einhverjum þykja þetta gamaldags viðhorf sem ég viðra hérna þá þykir mér hann ennþá heldur hafa misst af einhverju karlinn með Hitlerskeggið sem ég mætti í Bóksölu stúdenta um hálftvöleytið.