Vanhugsað sumarmisseri

Það er áhugavert að lesa um það í fjölmiðlum að menntamálaráðherra ætli að veita fjármunum inn í skólakerfið svo að hægt verði að kenna í framhalds- og háskólum í sumar. Það að kennarar frétti þetta fyrst í fjölmiðlum gefur til kynna að ekkert samráð hafi verið við skólastjórnendur, og ég held að við séum allflest frekar hissa á þessu.

Svo ég byrji á sjálfum mér þá er ég aðjunkt við Háskóla Íslands. Starfsskyldur mínar eru að tveim þriðju hluta kennsla og að þriðja hluta rannsóknir. Svo vill til að almanaksárið skiptist gróflega þannig að kennsla fer fram frá september út apríl og síðan eru fjórir mánuðir sem ég á eftir til rannsókna. Allflestir háskólakennarar nýta sumrin í rannsóknir. Að vísu er ótalið að vinna í kringum lokaritgerðir, prófayfirferð og kennsluundirbúning fyrir haustið tekur töluvert af þessum fjórum mánuðum. Síðan er sumarfrí þarna inni í líka. Með öðrum orðum er rannsóknatími minn þegar skorinn niður miðað við allar eðlilegar forsendur. Virkir rannsakendur fá í raun ekki sumarfrí.

Mér er borgað fyrir að stunda þessar rannsóknir og þess er krafist að ég stundi þær. Rannsóknir eru líka forsenda framgangs í starfi, þær stýra röðun í launaflokka og í mínu tilviki eru þær sérstaklega mikilvægar af því ég er ekki í fastri stöðu. Eitt það sem helst er litið til við ráðningar í fastar stöður er rannsóknavirkni. Það getur því beinlínis kostað mig fast starf í framtíðinni ef ég stend mig ekki í rannsóknum.

Síðan lýsir ráðherra því yfir að það eigi að kenna í háskólum í sumar. Það er komið fast fram að mánaðamótum apríl-maí og ekkert í þessa veru hefur verið undirbúið. Ég hlýt að spyrja hvað nákvæmlega eigi að kenna, og hvaða fólk eigi að kenna það? Háskólakennarar fá ekki greidda yfirvinnu, við tökum alla yfirvinnu út í kennsluafslætti síðar. En nú er búist við sprengingu í nýskráningum í háskólana í haust, bæði vegna faraldursins en í kennaranámið sem ég kenni hefur þegar verið mikil fjölgun nemenda milli ára. Á ég þá að kenna í sumar og fórna til þess rannsóknatíma mínum og sumarfríi til þess eins að kenna minna í vetur þegar holskefla nemenda gengur yfir?

Það er nógu erfitt til að byrja með að manna þá kennslu sem fyrir er í allflestum deildum háskólans sem ég þekki til þó að þetta bætist ekki við, ekki síst vegna uppsafnaðrar yfirvinnu háskólakennara. Og fyrirvarinn er enginn, þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég sé ekki að háskólunum sé fært að bregðast við þessu. Þar við bætist að mínir nemendur eru allflestir uppgefnir eftir hryllilega erfitt misseri. Ég sé ekki fyrir mér að þau séu beinlínis ólm í að halda álaginu út sumarið.

Enn síður get ég ímyndað mér að framhaldsskólakennarar séu hressir með þessa yfirlýsingu. Það þekkir enginn sem ekki hefur kennt við framhaldsskóla hverslags ómanneskjulegt álag er á kennarana og hversu nauðsynlegt sumarfríið er þeim. Það er ekki hægt að ætlast til þess af nokkrum framhaldsskólakennara að hann kenni á sumrin líka. Nú eru sérstæðar kringumstæður sem hafa gert starf þeirra ennþá erfiðara en nokkru sinni fyrr og hreint út sagt furðulegt að láta sér detta í hug að halda úti kennslu yfir sumarið nema markmiðið sé hreinlega að sem flestir kennarar brenni yfir í starfi. Nemendum veitir heldur ekkert af fríinu, tíma til að pústa og hugsa um sjálf sig. Ég man það vel hve langur veturinn er framhaldsskólanemanum og hversu kærkomið sumrið var. Þá er ekkert aðalatriði að fá sumarvinnu, þessi vinnukúltúr meðal ungmenna er hvort sem er heldur yfirgengilegur hér á landi. Ungmennin okkar eiga skilið að fá frí til þess eins að vera ungmenni og njóta lífsins.

Í sem fæstum orðum sagt átta ég mig ekki á því hvaðan menntamálaráðherra fær þessa hugmynd sína. Hún er varla tekin í samráði við skólana, annars hefðu kennarar væntanlega frétt þetta fyrr. Ég hef ekki fengið neina orðsendingu frá rektor eða sviðsforseta þess efnis að verið sé að undirbúa sumarönn við Háskóla Íslands, þó að einhver orðsending hljóti að vera væntanleg. Við hljótum að þurfa að ræða þetta í skólunum. Fyrst mætti þó kanna hvaða heimtur voru á nemendum á sumarmisseri 2009 eftir bankahrun, sem tókst að skipuleggja með miklum mun lengri fyrirvara, áður en ráðist verður í þessa aðgerð. Það væri fróðlegt að vita hverjar þær voru, en þar sem ég þekki best til voru heimturnar ærið litlar og varla fyrirhafnarinnar virði.

En ég sé ekki hvernig í ósköpunum þetta á að vera gerlegt, með hvaða mannskap, og hvað eigi þá að kenna.

Í dag er sumardagurinn fyrsti og enginn veit hvernig eigi að útfæra þetta.

Þekkingarfræði skáldskapar

Fyrirsögnin hér er kannski helst til háfleyg. Ég var að velta fyrir mér hvernig aðdáendur kvikmynda á borð við Stjörnustríð vita það sem þeir telja sig vita um söguheiminn. Þetta er hugmynd sem kviknaði fyrst þegar ég fór að sjá Scream 2 í bíó árið 1997. Þar leikur Timothy Olyphant morðóðan kvikmyndanörð sem þykja bangsarnir í Return of the Jedi ekkert skemmtilegir. Eftirfarandi samskipti eiga sér stað milli hans og skólasystur hans:

Hallie: I like the little furry things.
Mickey: Ewoks, they blow.

Þarna man ég að ég hugsaði, í Stjörnubíó þar sem ég sá myndina: Ha? Persónan er greinilega að rugla böngsunum saman við dýrategundina Wookiee, nema hann segir nafnið aftur á bak. Seinna komst ég að því að þetta er í raun og veru það sem bangsarnir eru kallaðir – nema þeir eru aldrei kallaðir þetta í myndinni sjálfri. Þetta er lykilatriði. Bókmenntafræðingar læra það í námi sínu að ekki sé hægt að greina bækur út frá atriðum sem hvergi koma fyrir í þeim. Það er ekki hægt að skálda eitthvað inn í texta til að láta það passa betur við einhverjar hugmyndir (eins og Rósa B. Blöndals gerir í bók sinni Leyndar ástir í Njálu – svo leyndar eru ástirnar að Njála segir ekkert um þær). Hvernig er þá hægt að halda því fram að bangsategundin heiti Ewok ef það kemur hvergi fram nema á leikfangaöskjum, skrifum aðdáenda og öðru aukaefni sem stendur algerlega utan við myndirnar sjálfar?

Svarið felst í þeirri þekkingarfræðilegu afstöðu sem við, neytendur Stjörnustríðs, höfum til viðfangsefnisins. Margir aðdáendur vilja sökkva sér ofan í allt mögulegt ítarefni sem ekki er komið frá hinum upprunalegu höfundum. Þannig hafa margir skrifað langa myndasagna- og skáldsagnabálka, þá eru til teiknimyndaseríur sem eiga að fylla betur inn í heildarmyndina, tölvuleikir sem bæta við persónum og segja nýjar sögur og ýmislegt fleira í þessum dúr. Þessu fólki finnst ekkert mál að fella sig við að bangsarnir heiti Ewok.

Ég, aftur á móti, hef þá einstrengingslegu afstöðu að ég tek ekkert gilt sem ekki kemur fram í myndunum sjálfum. Myndirnar eru eina kanónan sem ég sætti mig við. Stundum búa aðdáendur til hugtök (t.d. Sith) sem rata inn í kvikmyndirnar sjálfar, en það er fátítt samspil.

Fyrir vikið hlýtur mín persónulega niðurstaða að vera á þá leið að heill helvítis hellingur sem margir ganga að sem vísu um heim Stjörnustríðs er einfaldlega ekki byggt á nægilega sterkum þekkingarfræðilegum grunni til að ég leyfi mér að fullyrða um það. Bangsana kalla ég einfaldlega bangsana, því þeir eru einhvers konar bangsar. Öll kristalsfræðin kringum geislasverðin eru þvæla sem kemur myndunum ekkert við, og þar með er engin raunveruleg skýring á bakvið hjöltin á sverði Kylo Ren (hann á að hafa notað brotinn kristal, þess vegna klofni geislinn svona). Einhver mun sömuleiðis hafa ákveðið að furðudýrin Tauntaun séu skriðdýr, en fyrir því höfum við enga staðfestu innan kvikmyndanna sjálfra. Og við vitum heldur ekkert hvað Kessel Run merkir af því enginn með réttu ráði viðurkennir tilvist kvikmyndarinnar um Han Solo. Vákarnir eiga að vera frá plánetunni Kashyyk. Það kemur hvergi fram í nokkurri bíómynd. Og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta er mín leiðinlega og einstrengingslega afstaða til Stjörnustríðs og sömuleiðis annarra sambærilegra sagnabálka, ritaðra eða kvikmyndaðra. Ef J.K. Rowling segir eitthvað í viðtali um Harry Potter þá tek ég það heldur ekki gilt, ekki nema það hafi komið fram í bókunum eða myndunum (sem eru, vel að merkja, ekki sama eining – verða ekki greindar saman). Þetta er auðvitað virðingarverð afstaða hjá sjálfum mér og allir aðrir hafa augljóslega rangt fyrir sér. Og hananú.

 

Viðbætir
Mér var bent á að í kreditlistanum að Return of the Jedi komi heitið Ewok fyrir. Þá má velta fyrir sér hvort það gildi til að bangsarnir heiti þetta innan kvikmyndaheimsins, eða hvort kreditlistinn standi utan við myndina sjálfa (t.d. standa handritshöfundar og ljósahönnuðir og aðrir utan við myndina sjálfa, því þá ekki nöfn persóna sem aldrei eru nefnd í myndinni?).

Svo við höldum okkur við Stjörnustríð þá kemur fyrir aukapersóna í Attack of the Clones sem reynir að selja Obi Wan eiturlyf. Þessi persóna er aldrei nefnd á nafn. Í kreditlista er hann hins vegar kallaður Elan Sel’Sabagno. Hefur þetta nafn einhverja þýðingu fyrir myndina? Hægt er að hafa tvenna skoðun á því: annars vegar að taka kreditlistann gildan sem höfundarætlan, eða að líta aðeins á listaverkið sjálft og hafna því sem ekki kemur fyrir í verkinu sjálfu. Sjálfur undanskil ég kreditlistann frá verkinu því þessi ósögðu nöfn sem þar birtast eru í raun ekki annað en merkimiðar fyrir framleiðendur. Eiturlyfjasalinn í Attack of the Clones á sér enga baksögu og ekkert nafn þó að hann fái nafn til hægðarauka í framleiðsluferlinu.

En svo má auðvitað hafa aðra skoðun á því.

Bannaður á Facebook

Það er kannski táknrænt að ég er rétt nýfarinn að blogga aftur þegar Facebook ákvað að loka á mig í sólarhring. Ég hef einu sinni hlotið aðvörun þar, þegar ég vitnaði í lagatexta The Pogues („you cheap, lousy faggot“ orti hinn prúði Shane MacGowan). Ég skil að það hafi lent í síunni, en Facebook tók ekkert mark á skýringum mínum sem innihéldu meðal annars hlekk á téðan lagatexta.

Núna setti ég inn gif-mynd við færslu hjá vini mínum, mynd sem Facebook sjálft býður mér að setja inn vel að merkja, af senu þegar Sómi úr Hringadróttinssögu er étinn í Stranger Things. Facebook tók færsluna út samstundis vegna þess að hún innihéldi nekt. Sem hún gerir alls ekki (eða skrímslið var svosem ekki í fötum).

Þannig að nú er ég í sólarhringsbanni frá Facebook og mér er hótað með þriggja sólarhringa banni gerist ég „brotlegur“ aftur. Ég er nú ansi hræddur um að ég hreinlega hætti á Facebook ef það ætlar að láta svona, að banna mig fyrir efni sem þau bjóða mér sjálf upp á gegnum sinn eigin vef. Ég mun ekki sakna Facebook neitt meira en þau munu sakna mín. Það væri miklum mun betra ef fleira fólk fylgdi mér hingað á bloggið þess í stað.

Tíðindalaust í skotgröfum hugarfarsins

Plágan, C. Audran eftir P. Mignard.

Mér fannst lengi vel eins og sagan væri liðin, ekkert áhugavert gerðist þaðan í frá og allt myndi lulla svona einhvern veginn áfram fremur tíðindalítið. Þetta reyndist rangt í tvennum skilningi. Fyrir það fyrsta þá er sagan aldrei liðin, það er alltaf eitthvað á hverjum tíma sem segja mætti, í dvalarhorfi, að sé „að gerast“. Þó að tíundi áratugurinn hafi að mestu verið „leiðinlegur“ í sögulegu tilliti en eftir því dásamlegur með tilliti til annarra þátta mannlífsins (að mér sjálfum fannst á sínum tíma), þá var samt töluvert margt hræðilegt og sögulegt sem þá gerðist.

Sovétríkin féllu til að mynda með langdrægu andvarpi, eftir heldur heimsendastemmdan níunda áratug, og Júgóslavíustríðin hófust. Á dularfullan hátt fannst mér eins og stríð í Evrópu væru liðin tíð þó að ég ælist upp með þau í blússandi gangi. Júgóslavíustríðunum lauk ekki fyrr en um aldamótin, hvað sem minni tilfinningu um sögulega tíma leið, og eftirmál þeirra voru enn í hámæli (réttarhöldunum yfir Milosevic lauk ekki einu sinni fyrr en 2006!) þegar annar atburður skók heimsbyggðina.

Það var víst ekki hægt að neita því að það væri nokkuð sögulegt þegar maður horfði með hryllingi á turna tvo í New York borg hrynja í beinni útsendingu. Vinur minn sendi mér í SMS-skilaboðum einhvern „spádóm“ Nostradamusar þá um kvöldið sem mér þótti mögnuð lesning. Á táningsárunum var auðvelt að leggja trúnað á alls konar svoleiðis vitleysu sem gekk þráðlaust milli fólks. Sennilega var þetta ekki einu sinni rétt heimfærð tilvitnun fremur en svo margt annað í þessum dúr, heldur tilbúningur. En sögulegt var þetta. Ellefti september það er, ekki smáskilaboðin.

Mér finnst ég orðinn svolítið sjóaður í að lifa sögulega tíma núna og er orðinn dálítið þreyttur á þeim. Það er eins og þetta sé stöðugt á tíu ára fresti. Fall Sovétríkjanna, stríðið gegn hryðjuverkum, bankahrunið, heimsfaraldur kórónuveiru. Maður getur jú litið svo á að í öllu falli hafi maður þá einhverjar sögur að segja þegar fram líða stundir – börnum, barnabörnum, er það ekki alltaf viðkvæðið? En hverjum til ánægju yrðu þær sagðar? Nemendur mínir muna ekki einu sinni bankahrunið og sýna því engan sérstakan áhuga þegar ég tengi bókmenntir við þann heimsviðburð, svo ekki sé minnst á þann sérstæða íslenska atburð sem búsáhaldabyltingin var – en kannski hef ég takmarkaðan áhuga á því sjálfur að rifja þann tíma upp of náið. Vegna þess að ég var þar. Það grær aldrei alveg um heilt eftir að heilt samfélag hrynur.

„Ég var þarna,“ get ég sagt. Það finnst engum það áhugavert. Ekki mér heldur. Þau sem voru þarna muna það líka og við getum rifjað það upp saman ef við nennum, ef við finnum ástæðu til; þau sem voru þar ekki hafa tæpast forsendur til að gera sér upp áhuga. Mér líður eins gagnvart Kófinu þó að það eigi sér enn sinn stað í núinu. Við erum öll saman í þessu núna og því lítið í raun um það að ræða. Við höfum engu við að bæta hvert fyrir annað. Samfélagsmiðlarnir loga af eilífri endurtekningu á því sem allir vita og engin ný leið kemur upp úr krafsinu til að færa þetta í orð. Þetta er löngu hætt að vera samræðuhæft efni jafnvel meðan þetta er í gangi. Hvernig verður það þá í framtíðinni? Hvernig sú framtíð verður er kannski áhugaverðasta spursmálið í þessu öllu saman, því hún verður varla alveg eins og samfélagið sem var. Allt breytist.

Hvort ég mun nokkru sinni finna tilefni til að rifja þennan tíma upp og reyna að setja í eitthvert samhengi fyrir aðra að skilja, eða fyrir sjálfan mig að skilja, það er síðan önnur spurning. Það munu væntanlega verða til bókmenntir á þessum tímum eins og á öðrum tímum, þar verður til samhengi sem mun liggja fyrir bókmenntafræðingum eins og sjálfum mér að útskýra í ræðu og riti. Ég sé fyrir mér eftir tíu ár að ég muni standa frammi fyrir nemendum mínum og ræða þetta, Kófbókmenntir. Hvað segja Kófbókmenntir okkur um lífið á Íslandi á fyrsta fjórðungi aldarinnar – og svo framvegis. Kannski munu nemendur sitja þá eins og mér finnst þau gera núna og orðalaust gefa til kynna að þau hafi á þessu takmarkaðan skilning af því þau voru ekki þarna. Og mér mun líða eins og gömlum manni að þusa eitthvað um gömlu daga, eins og mér líður þegar gagnvart hruninu.

Ég á þannig erfitt með að ímynda mér að ég muni hafa neitt sérstaklega áhugavert um veirufaraldurinn að segja þó að tíu ár líði eða þrjátíu. Amma mín mundi vel seinni stríðsárin en talaði aldrei um þau. Mér finnst ég skilja það betur núna þó að mér hafi fundist það skrýtið áður. Jú, aðspurð mundi hún Goðafoss, hræðilegt alveg. Ekki orð um það meir. Ég man að sama skapi þegar Manhattan tæmdist, tæplega áttahundruð manns létust á einum degi í New York ríki, Norður-Ítalía breyttist í dystópíu, ég man veru mína í París í upphafi faraldurs, áhrif veirunnar á Íslandi og svo framvegis, mannlausa Þingvelli. Ég man þetta og þetta er ennþá svona. Minningin á eftir að þróast og breytast en alltaf vera til staðar en nú þegar er fyrsta kynslóðin til sem ekki mun muna þetta og ekki skilja þetta.

Sagan á sér stað núna, í dvalarhorfinu, rennur stöðugt og óstöðvandi eins og straumvatn. Mér finnst ég orðinn vanur þessum sögulegu atburðum svo að segja og eins og ég sagði er ég orðinn svolítið leiður á þeim, þó hef ég hingað til sloppið óskaddaður frá þeim öllum ólíkt svo mörgum mér ólánsamari. En það er ekki víst að þannig verði það alltaf og það er heldur ekki víst að þannig verði það í þetta skipti. Það er engin leið að vita það hvort maður gangi heill frá þessu og þar af leiðandi engin ástæða til að velta því neitt fyrir sér, engin ástæða til að ræða það við nokkurn mann.

Þannig að á yfirborðinu er nánast eins og ekkert sé að gerast. Ég hugsa lítt um veiruna og tala enn minna um hana. Kannski er ekki laust við að ég hugsi svolítið til Radioheadtextans: „I’m not here. This isn’t happening.“ En einhvers staðar innst inni í þessum hugsunum stendur löngun mín til einnar óskar: að veröldin og sagan væri eins tíðindalítil í raun og mér einu sinni fannst hún vera.

Dagbók úr Kófinu

Það er víst enginn ósnertanlegur, forsætisráðherra Bretlands kominn í gjörgæslu. Einhvern veginn hafði ég ekki einu sinni velt því fyrir mér að það væri mögulegt. Á sama tíma er víða flutt í fréttum að tígrisdýr hafi greinst með Covid-19. Ég á bágt með að trúa því og vil fá almennilega staðfestingu á því.

Þessi faraldur verður furðulegri með hverjum deginum.

Eiríkur Örn orðar þetta ágætlega í sínum kima hins rafræna heims:

Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum.

Hjá mér er þetta meira eða minna í bakgrunninum meðan dagarnir fara í að skrifa nemendum og gera hvað ég get til að aðstoða þau við að ljúka námskeiðunum, fara yfir verkefni og leggja lokaverkefni fyrir, pæla aðeins í næsta misseri. Síðan man maður allt í einu eftir að opna fréttamiðla og fær veruleikann í smettið.

Sú hugsun leitar á mig að enginn veit almennilega hvernig hann bregst við veirunni nema reyna það fyrst. Boris Johnson sagðist í gær vera brattur en liggur núna í gjörgæslu. Mér finnst það ógnvænleg tilhugsun. Ekki hans vegna persónulega, heldur vegna okkar allra.

Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta muni breyta heiminum — það er eins fokkíng gott að þetta breyti heiminum. Ef allt heldur áfram eins og ekkert hafi gerst þá held ég að lítil von sé fyrir mannkynið. Ég vona að þetta fái okkur til að staldra við og hugsa, hjálpi okkur að leita leiða til að gera hlutina betur. Þorsteinn Gylfason sagði eftirminnilega að menning væri að gera hlutina vel. En núna held ég að það væri beinlínis ómenning að gera ekki betur en við höfum hingað til gert, nú þegar skelfilegar aðstæður hafa sýnt okkur hvers konar alþjóðlegur samtakamáttur er mögulegur.

Við umturnum lífi okkar og samfélagi vegna farsóttar – sem eðlilegt er. Höldum því svo áfram jarðarinnar vegna.

Hugleiðingar í Kófinu

Ef einhverju sinni var ástæða til að hefja bloggið aftur til vegs og virðingar, þá er það nú á tímum heimsfaraldurs.

Ég hef verið að velta fyrir mér lestri og ritun undanfarið, ekki síst vegna þess að ég kenni hvort tveggja á Menntavísindasviði HÍ fólki sem mun sjálft þurfa að kenna börnum og ungmennum lestur og ritun. Í þessu sambandi fór ég að velta fyrir mér blogginu. Ég hef haldið úti þessu bloggi síðan í apríl 2003, svo bloggið er á átjánda ári núna.

Það er allt önnur manneskja sem stofnaði bloggið en skrifar á það núna, manneskja sem átti eftir að læra margt og öðlast umtalsvert meiri ritfærni. Hvergi öðlaðist ég eins mikla æfingu í að koma hugsunum mínum í orð og að eiga í skoðanaskiptum við aðra eins og með því að blogga. Að því leyti held ég að það hafi verið visst menningarslys þegar bloggið lagðist að mestu af. Ég held að það sé þess vert að reyna að endurvekja það.

Oft er talað um vanda íslenskunnar á stafrænum tímum, til dæmis þegar kemur að sjálfgefnu tungumáli hugbúnaðar (iðulega enska). Sjálfgefnar gæsalappir eru enskar og fólk þarf að læra sérstakar hundakúnstir til að gera þær íslensku, nema það stilli hugbúnaðinn til að breyta þeim sjálfkrafa (sem aftur veldur vandræðum ef maður ætlar svo að skrifa á ensku). Þá aukast stöðugt möguleikarnir á því að tala við tækin okkar en það þarf maður að gera á ensku enn sem komið er.

Ég hafði hins vegar ekki áttað mig fyllilega á því hvaða takmarkanir hinn stafræni heimur setur öðrum tungumálum og að þá sé ekki endilega aðalmálið hvort um er að ræða örtungur eins og íslensku eða milljarðatungu eins og kínversku – ekki fyrr en ég rakst á stutta hugleiðingu um það einhvers staðar á vefnum. Stafrænt kínverskt ritmál er nefnilega einfaldað töluvert til að það sé á annað borð hægt að skrifa það á lyklaborði og þetta veldur því vandamáli að stór hluti Kínverja er að glata getunni til að handskrifa upprunalegu táknin – læsi á hina raunverulegu kínversku er að glutrast niður á meðan sú einfaldaða er sjálfgefin í stafræna heiminum. Það er beinlínis óhugnanlegt til þess að hugsa að við séum orðin það háð tækninni að tæknin stýrir því hvernig við hugsum og tjáum okkur fremur en að hugsun okkar og tjáning stýri þróun tækninnar.

Blessunarlega búum við íslenskumælandi ekki við þetta tiltekna vandamál þótt okkar vandi sé ekki síður ærinn. En ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ráð að finna möguleika á því að endurvekja bloggið og nýta þann miðil að einhverju marki í lestrar- og ritunarkennslu. Bloggið hefur þann kost sömuleiðis umfram hefðbundna ritvinnslu að vera margmiðla tæki sem hægt er að deila á myndböndum og hljóðskrám sömuleiðis, en fyrst og síðast er bloggið – eða var í öllu falli í eina tíð – samfélag. Miklu dýpra og betra samfélag en samfélagsmiðlarnir hafa nokkru sinni getað boðið upp á.