Aldrei átti þetta nú að gerast, frúin farin að blogga! En…
Lífið hér í Tübingen er að komast í fastar skorður, sú sveimhuga er búin að vera tvo daga í skólanum, sú snögga byrjar í leikskóla á morgun og sá skapmikli snúllast hér heimavið. Amman prjónar eins og herforingi, bóndinn óðum að komast inn í hlutina í vinnunni og frúin farin að blogga.
Dótið okkar er væntanlegt í vikulokin, ef allt gengur að óskum. Bílinn var sóttur í sögulegri ferð í síðustu viku og IKEA verður líklegast heimsótt á næstunni.
Í dag var öllum þrælað út í nokkurra klukkutíma gönguferð, á leiðinni niður í bæ í gegnum skóginn sást íkorni, sá fyrsti í þessari dvöl, en hvorki salamöndrur né sniglar – líklegast of þurrt í veðri fyrir þau. Svo var arkað upp á kastalahæðina (engar eðlur þar, of svalt) og þaðan niður í eyjuna í miðri Neckar ánni. Þegar þar var komið var sú snögga að niðurlotum komin og strætó skilaði öllu genginu heim í fiskistauta og kartöflur.
Látum þetta duga sem upphaf bloggferils – njótið vel 😉