Ekki er ofsögum sagt af fegurð dýra- og grasagarðsins Wilhelma í Stuttgart en þar eyddum við einmitt deginum í dag. Allur gróður í miklum blóma og dýralífið blómstraði einnig, aldrei áður hefur fjölskyldan sé jafn margt af ungviði í dýragarði.
Nesti var haft meðferðis og snætt við upphaf skoðunar á garðinum og þótti þeirri snöggu ganga hægt að fara að sjá þessi dýr!
Geiturnar nutu mikilla vinsælda, enda var hægt að gefa þeim fóður fyrir smáaura og líka var fjör að sitja á smáhesti / pony einn hring.
Eftir að við höfðum gengið í gegnum mannapa húsið kom þrumuveður, við fórum út í það á leið heim en þegar veðrið ágerðist stungum við okkur inn í hús þar sem voru górillu ungar. Skömmu síðar breyttist veðrið aftur, jók heldur í rigninguna og hún breyttist svo í hagl! Kúlurnar voru á stærð við sykurmola, grein brotnaði af nálægu tré og allt ætlaði vitlaust að verða. Sem betur fer gekk þetta fljótt yfir, við sáum ríflega eins árs górillur fá pelana sína og gengum svo út í þokkalegt veður út á U-bahn stöðina og svo heim.
Eitthvað af dýrunum fór framhjá fjölskyldunni í þessari ferð, sem er ágætt því þá verður eitthvað nýtt að sjá í næstu ferð líka.