Morguninn var erfiður, langur dagur í gær og þreyta í mannskapnum. Allt hafðist þó að lokum og stelpurnar mættu á réttum tíma.
Heimafyrir var sá skapmikli settur í pollabuxur og stígvél til að leika sér í pollum eftir næturregnið á meðan frúin og amman skúruðu og bónuðu herbergin.
Sú sveimhuga var sótt fyrir hádegið, þá hafði hún teiknað Wilhelmu upp fyrir kennarann til að útskýra í hvað helgin fór. Síðan var sú snögga sótt og hún fer með stjörnuhóp í skólaverkefni síðar í vikunni.
Eftir hafragrautinn var ekið yfir til Bebenhausen sem er svefnþorp hér í nágrenninu, þar var þetta líka fína nunnuklaustur til forna og er byggingin á við fínasta kastala. Ekki skemmdi fyrir að í þorpinu fannst forláta leikvöllur.
Krakkar fóru svo snemma í ró og á morgun bíður enn einn spennandi dagur.