Sullumsull

Þetta var blautur dagur, ekki að það ringdi svo mikið – langt því frá.  Sá skapmikli er í koppaþjálfun eins og komið hefur fram, það skýrir mikinn hluta bleytunnar.   Hins vegar er myndarlegur pollur hér upp við húsið eftir rigningar síðustu kvöld og þar sat drengurinn og hellti yfir sig fötu eftir fötu, svo vinda mátti ÖLL hans föt, þar með talda gúmmískóna.

Annars byrjaði hann morguninn á því að segja, „jæja, fara í skólann!“  Þegar því var neitað öskraði hann „NEI, ég vil fara í leikskóla, ég vil ekki vera heima!“  Ofsalega gaman að vera svona mikið heima með mömmu sinni og ömmu.

Systurnar nutu dagsins í skólanum, þeirri sveimhuga varð að vísu um og ó þegar hún sá verðandi bekkjarsystur sína gráta úti á leikvelli, sú hafði týnt strætókortinu sínu.  Hugsanlega sá hún sjálfa sig í anda, hver veit?

Sú snögga er hress á leikskólanum, tekur þátt í ærslaleik krakkanna, þá aðallega strákanna og hefur kennarinn þurft að hasta á þau – „en þetta er bara svo gaman!“ er viðkvæði hennar.

Við hjónin skruppum svo aðeins aftur í IKEA, keyptum bedda svo nú er nóg gistipláss.