Í morgun átti að sofa út þar sem enginn þurfti að mæta neitt og var því ekki vaknað fyrr en hálf átta!
Sú sveimhuga var ekki í skóla í dag, þar sem alþjóðlegi bekkurinn er ekki á föstudögum og hún ekki komin inn í sinn bekk ennþá. Sú snögga ákvað að vera heima í dag því von var á eigum okkar fyrir hádegið og sá skapmikli er auðvitað endalaust heima.
Um klukkan níu voru allir orðnir óþolinmóðir og skildu ekki hvað þessi flutningabíll væri seinn, mikil var því gleðin þegar dyrabjallan hringdi en það var þá pósturinn með sendingu af klakanum. Hálftíma síðar var aftur dinglað og þá var stóri guli bíllinn kominn, rogast var upp með kassa eftir kassa – sá skapmikli var ekki seinn að byrja að byggja og systurnar skiptust á um að opna kassana.
Megnið af deginum fór í frágang á eigum, hengja upp myndir og gera íbúðina heimilislega og er loksins eins og við séu flutt hingað en ekki í stuttu fríi.
Við buðum svo þeim Íslendingum sem við vitum af hér í borg heim annað kvöld svo við verðum níu sem fylgjumst með Jóhönnu okkar.