Þrumuveður

Í morgun vaknaði frúin um klukkan sjö við þrumuveðrið sem gekk yfir borgina.  Þar með breyttist fyrirfram áætluð dagskrá og setið var inni fram yfir hádegið.

Eftir matinn röltum við niður í bæ, hvorki íkornar né salamöndrur létu sjá sig í skóginum þennan daginn.  Stopp dagsins var á leikvellinum í gamla grasagarðinum og þaðan var farið í ísbúð, á meðan ísinn var borðaður gekk annað þrumuveður dagsins yfir.  Sú snögga varð hrædd um að borgarlækurinn myndi flæða yfir bakka sína eða við myndum lenda í hagli.

Við gengum upp að kastalanum eftir skemmtilegri leið upp stiga og inn á milli húsa.  Við kastalann átti tal við okkur kona ein, fannst krakkarnir sætir og spjallaði heilmikið.  Þegar atvinna bóndans við mannerfðafræði kom upp kallaði hún í mann sinn sem rétti okkur bækling með ritningargreinum – sá greinilega brýna þörf á því að kristna þessa útlendinga.

Eftir að hafa farið 211 þrep niður í bæ aftur og rölt inn í vestari hlutann rákumst við á mann sem ávarpaði okkur á rússnesku, hann gæti hafa verið útigangsmaður – útlitið var á þá leið.  Hann benti okkur á skemmtilega bakleið inn á milli húsa og sagðist mundu bíða við hinn endann og við skildum gefa honum þumalinn upp ef við værum ánægð en annars þumal niður.  Þessi leið var gullfalleg og karlinn fékk jákvæðan þumal.

Á leiðinni í strætó kom enn eitt þrumuveðrið og svo aftur eftir kvöldmat.  Gönguferðin okkar tók tæpa fjóra klukkutíma, svo það voru þreyttir krakkar sem lögðust til svefns í kvöld.