Maurar og París

Dagurinn fór hægt af stað, bóndinn og frúin að reyna að jafna sig eftir svefnleysi síðustu nætur.  Eftir hádegismatinn var farið í enn einn göngutúrinn upp að bóndabæ, en að þessu sinni var farið nýja leið og jarðarberja akurinn skoðaður, þistlar eins og Eyrnaslapi vill borða og gengið inn í skóginn norðan við akrana.  Þar voru skilti með upplýsingum um skóginn og íbúa hans.

Á leiðinni aftur af bóndabænum var stoppað við maurabú þar sem við sáum einn maur draga stein út úr búinu – og var steinninn sá sennilega að minnsta kosti 5-föld þyngd maursins!

Við keyptum okkur svo jarðarber sem runnu ljúflega niður eftir að heim var komið.

Þá pakkaði bóndinn niður, því hann var á leið á fund í París – stökk af stað út í strætó með tösku og tölvu – og hringdi 10 mínútum síðar því hann hafði gleymt vegabréfinu.

Börnum var því smalað út í bíl í miklum flýti, lyklum og vegabréfi stungið niður og ekið eins og … niður í bæ – frúin fór vestari leiðina til að sleppa við umferð og græddi heilmikið við það.  Í vegakanntinum stóð rauður refur og var ekki viss um hvernig hann ætti að komast yfir götuna – fyrsti refurinn sem við sjáum hér.

Vegabréfið komst til skila og bóndinn í rútuna (að öllum líkindum er hann kominn til Parísar þegar þetta er skrifað, en ekkert hefur heyrst frá honum frá því að vélin fór í loftið).

Svo var leikið og borðað áður en allir voru sendir í rúmið, enda skóli og leikskóli á morgun.