Gönguferðum fækkar

Í morgun komust allir á sína staði á réttum tíma, þrátt fyrir að erfiðlega gengi að komast fram úr.  Það ringdi svolítið svo frúin og sá skapmikli dunduðu sér inni við fram eftir morgni.

Klukkan rúmlega tíu fórum við niður í fundarsalinn á neðri hæðinni, en þar eru „frúarmorgnar“ á þriðjudögum frá 10-12.  Konur (menn eru velkomnir) sem eru heimavinnandi, jafnvel með börn og búa hér í hverfinu, hittast þá yfir kaffibolla og spjalla.  Í morgun var ein amerísk frú sem hafði búið hér fyrir 5 árum, auk 5 þýskra kvenna.  Þetta var ákaflega huggulegt, en sá skapmikli gafst upp eftir þrjú korter og vildi fara heim!

Reyndar lítur hann enn ekki á þetta húsnæði sem sitt eða heima, því þetta er „Hectors hús“, en Hector þessi er hundur nágrannanna.  Hann kemur stundum yfir til að fá svolítið klapp og dekur, eigendur hans eru mesta sómafólk og stoppa stundum á pallinum og spjalla.

Eftir hádegið var heimanámi sinnt og dundað úti á palli þar til bóndinn kom heim eftir tveggja sólarhringa fjarveru.  Dagurinn leið allur í rólegheitum heimavið.

Titill dagsins – jamm, þar sem sú sveimhuga er komin aftur í skólann þarf að sækja hana í hádeginu og þýðir það jafnframt að sú snögga er sótt í sömu ferð.  Hana þarf að sækja á bilinu 12-13 og skólinn er búin 12:20.  Þar með hefur daglegum gönguferðum í leikskólann verið hætt og er það miður.  Kannski breytist þetta síðar í sumar, því skólinn er tvo daga í viku eftir hádegið, en sú sveimhuga fer ekki að taka fullan þátt í skólanum fyrr en hún hefur náð töluverðu valdi á tungumálinu.