Dagurinn var tekinn snemma þar sem sú sveimhuga mætir klukkan átta á miðvikudögum, þegar hún, bóndinn og sú snögga voru komin á leiðarenda fór frúin með þann skapmikla í búð og svo heim.
Eftir hefðbundnu morgunstörfin var gengið upp að bóndabæ – eins og fyrri daginn. Á leiðinni tautaði sá skapmikli heilmikið um sóðaskap kúnna, hvað þær kúki mikið á gólfið! Hann skammaðist langleiðina yfir þessu.
Eftir lærdóminn var loksins komið að því að fara í sundlaugina í Waldhausen Öst, sem er í göngufjarlægð frá okkur. Laugin er fín – skipt í 3 laugar (allt undir þaki), sú stærsta er fyrir sundgarpana og er hún köld, næsta er fyrir krakka og er meters djúp og svolítið hlýrri. Inni í glerhýsi er svo lítil vaðlaug fyrir minnstu stubbana, auðfinnanlega er enginn klór þar í vatninu, og er hún þokkalega hlý.
Við þurftum að fara í barnalaugina til að hlýja þeirri snöggu, henni verður svo afskaplega kalt í svona vatni.
Eftir sundið var keyptur ís og svo jarðarber á bóndabænum á heimleiðinni. Við vöktum bóndann af værum blundi þegar við komum blaðskellandi heim.
Eftir kvöldmatinn var slegið upp leikriti í stofunni – sjá myndir.