Dagurinn í dag var tileinkaður þrifum – bóndinn fór með þá snöggu í leikskólann þar sem sú sveimhuga átti ekki að mæta fyrr en hálf tíu og þá til að fara í ferð út á engi sem var mjög skemmtileg og hún veiddi krybbu.
Sá skapmikli hafði ofan af fyrir sjálfum sér á meðan frúin þreif innan dyra áður en stúlkurnar voru sóttar aftur.
Eftir heimalærdóm var farið út að þrífa bílinn – þeir sem eru í sumarfríi og vita ekki hvað þeir eiga að gera við tíma sinn geta tekið þrjú börn (helst öll undir 10 ára) og þrifið bíl án slöngu og kústs. Vatnið sótt í fötu upp á aðra hæð, engin ryksuga, tuttugu stiga hiti, sólarlítið og gola. Tíminn flýgur hratt á þennan máta!
Þrælarnir litlu stóðu sig eins og hetjur við að nudda íslenska tjöru af bílnum – og það hafðist að mestu.
Seinni partinn skrapp bóndinn svo í klippingu og kom snyrtilegur heim aftur – þrátt fyrir einhverja tungumálaörðugleika og afar lágvaxna (þetta kemur kannski úr hörðustu átt!) hárgreiðslukonu (hann þurfti að beygja sig niður í stólnum svo hún gæti klippt á honum toppinn).
Dagur að kvöldi kominn og hitabylgja í kortum helgarinnar, sjáum hvort hún rætist.