Handverksmarkaður

Dagurinn byrjaði rólega, eins og oft um helgar, en seinnipartinn rölti fjölskyldan niður í bæ þar sem handverksmarkaður var í gangi við Jakobus-kirkjuna.  Þar var margt fallegra muna, harmonikkuleikur og iðandi mannlíf í 25°C hita, sól og logni.  Ekkert var þó keypt á þessum stað.

Hins vegar var stoppað við grænmetismarkaðinn við Nunnuhúsið og keypt ýmis konar kruðerí og svo ís á eftir.  Frúin skildi fólkið sitt eftir í miðbænum, fór heim og sótti bílinn til að fara í smá útréttingar.  Þegar hún kom heim var búið að setja litlu laugina út og þar var buslað þar til næstum allt vatnið var farið úr henni.

Eftir kvöldmat horfði fjölskyldan á fræðsluþátt um steingerðar risaeðlur og hjónin horfðu svo á Popppunkt í tölvunni eftir að krakkarnir voru farin í ró.