Dagurinn lofaði góðu strax í morgunsárið – krakkarnir sváfu óvenju lengi, sú sveimhuga kom ekki inn til okkar fyrr en um átta! Það var hlýtt snemma og útlit fyrir fallegan dag.
Fyrir hádegið var nesti smurt og sett í nýju kælitöskuna, bíllinn fylltur af dóti og fólki og ekið til Holzmaden en þar er Urweltmuseum Hauff sem er risaeðlu- og steingerfinga safn – þar er mikið af steingerðum dýrum sem lifðu við sjávarmál og í hafinu á sínum tíma og nokkrar steyptar styttur af eðlum í garðinum.
Safnið var mjög skemmtilegt og virkilega gaman að eyða nokkrum klukkutímum þar.
Eftir safnið fórum við til Schieferbruch Kromer sem er steingerfinga náma þar sem hægt er að leigja hamra og meitla og ná sér í sína eigin steingerfinga til að taka með heim. Krakkarnir voru eins og þrælar þar sem þau puðuðu í tæplega 30°C og sól með hamrana sína en gleðin var mikil þegar eitthvað fannst, sem var mjög oft.
Eftir þetta var ekið heim á leið með stuttu stoppi við Baggersee sem er manngert lón rétt við hraðbrautina frá Stuttgart, þar var fólk að synda, sigla, grilla og skemmta sér – börnin fóru útí vatnið og fannst þetta svakalega skemmtilegt allt saman.
Heima var svo grillað, eldaður ferskur aspas (og pylsur fyrir krakkana), bakaðir kartöflubátar – algjör lúxus.