„Hagelloch er fallegur bær …“

Hljómaði upphaf símtals frá bóndanum í lok vinnudags.  Það er bær sem er í um 2,5 km. fjarlægð frá okkur – hann hafði tekið vitlausan strætó og ákvað að labba heim þaðan og við fórum að sjálfsögðu á móti honum.  Við ákváðum að gera almennilegan göngutúr úr ferðinni og gengum inn í skóg, stoppuðum þar og reyndum að láta fiðrildi freistast til að setjast á okkur, það virkaði – bóndinn, sú sveimhuga og sú snögga fengu að prófa.

Þaðan fórum við út á engi – þar sem kvenpeningurinn fór úr skónum og gekk berfættur í grasinu.  Sá skapmikli tók ekki í mál svoleiðis tiktúrur, hann og pabbi voru sko í skóm!  Þarna vorum við ein með okkur sjálfum í náttúrunni og ekkert nema tré og engi sjáanleg.

Gengum svo upp að bóndabænum – frúin fór beint heim að undirbúa kvöldverð á meðan þau hin skoðuðu dýrin.

En fyrripart dagsins fór frúin og sá skapmikli niður í kvennastundina, sá skapmikli sá ástæðu til að siða tvíburastelpur til – kallaði þær litlu börnin (þær verða 3ja í júlí – hann í ágúst).  Tvær vélar voru þvegnar, stelpur sóttar og 70 pönnukökur steiktar.  Systur fá að taka með sér góðgæti í skóla og leikskóla á morgun í tilefni af sautjándanum.

Eftir kaffið var farið í garðvinnu, mokað upp einni tegund af blómum sem ekki hafa blómstrað í sumar og þrjú í blóma sett niður í staðinn.  Að því loknu hringdi bóndinn …