Heitur dagur

Frúin og sá skapmikli fóru í búð eftir að öðrum heimilismönnum hafði verið komið á sína staði. Þegar heim kom tóku við hefðbundin heimilisstörf og svo þurfti að skreppa niður til Frau Petru Keller, sem er umsjónarkona hér.  Stöngin til að snúa niður ytri rimlum á glugga stelpnanna hafði brotnað af um daginn og ætlaði hún að reyna að fá nýja fyrir okkur.

Eftir það voru tvö af fjórum stórrisum í stofunni þvegin – loksins, og sett ný hjól þar sem þurfti.

Eftir heimanám og stúss fór tjald út á pall og sú snögga fór í sólbað – entist í um fimm mínútur!  Litla laugin var líka dregin fram til að kæla liðið, enda hitinn um 28 gráður.

Eftir baðið hjóluðu systur upp að bóndabæ með klink í buddu og keyptu jarðarber í eftirmat – bara tvær saman, það var mjög spennandi og gekk ljómandi vel.

Kvöldgrauturinn var svo borðaður úti, þá var orðið skýjað og komið niður undir 25 gráður.

Undir kvöldið kom svo gróðarskúr einn hressilegur.