Veðurspá dagsins hljóðaði upp á skúri víðast hvar í nágrenninu og heldur svalan dag. Það var því upplagt að aka suður á bóginn, nærri því suður að Bodensee og fara í skemmtigarð – Ravensburger Spielland.
Farið var af stað vel fyrir hádegið með nesti og regnjakka í farangrinum og valið að aka sveitaleiðina. Á leiðinni sáum við ástæðu þess að alltaf er verið að hengja bakara fyrir smið, því í einum bænum er Bäckerei Schmid 😉 Þar er hann – þessi bakarasmiður!
Einnig sáum við afskaplega fallegan kastala sem heitir Lichtenstein – eins og landið og verður hann skoðaður síðar í sumar.
Í skemmtigarðinn komumst við – byrjuðum á nestinu og svo var lagt í tækin. Það verður nú að viðurkennast að þó að börnin hafi skemmt sér ljómandi vel er þessi garður ekki einn af þeim bestu sem við höfum farið í með þau. Eitt af því eftirminnilegra eru geiturnar, frúin keypti svolítið fóður til að gefa þeim og ein var svo ágeng að margsinnis var hún komin með framfæturna upp á bringu á frúnni og heimtaði meira.
Hins vegar var þetta upplagt veður til að vera þarna, því raðir voru allt að því engar og það hékk þurrt allan tímann sem við vorum þarna.
Nokkur púsl voru svo keypt – framleidd í Ravensburg og svo ekið heim með stuttu stoppi á McDonald’s og komið frekar seint heim eftir ánægjulegan dag.