Fimleikar og sumarhátíð

Í morgunsárið voru keyptar tátiljur á þá sveimhuga og hlaupa/fótboltaskór á þann skapmikla – auk helgarinnkaupanna.  Þann stutta tíma sem frúin og sá skapmikli höfðu heima fyrripartinn var hann klipptur og skartar nú skotti.

Eftir að stelpur voru sóttar var grauturinn etinn í snarhasti, því sú snögga átti að vera mætt á fimleikaæfingu klukkan tvö og sú sveimhuga klukkan þrjú.  Æfingarnar gengu vel og var voða gaman hjá þeim báðum, sá skapmikli að sjálfsögðu brjálaður yfir því að vera ekki líka í fimleikum.

Eftir seinni tímann var bóndinn sóttur og farið á leikskóla þeirrar snöggu þar sem sumarhátíð hófst klukkan fimm.  Hún byrjaði með trukki – því rétt þegar allt átti að fara í gang kom þrumuveður og ausandi rigning svo allir fóru inn á deildir í um hálfa klukkustund.  Svo slotaði regninu og hátíðin hófst.  Ýmsar stöðvar voru í boði, alls konar málningarvinna, föndur og leikir.  Sá skapmikli fann sér gröfu sem hægt var að sitja á  og moka og voru foreldrarnir vinsamlegast beðinir um að vera ekki að trufla hann við vinnuna.

Svo var grillað, fjársjóðsleit í einum sandkassanna og ís í eftirrétt.  Aldeilis frábær sumarhátið.