Ausandi rigning og fiðrildagerð

Dagurinn hófst með ausandi rigningu og  þrumuveðri.  Eftir að allir voru komnir á fætur hringdi kennari þeirrar sveimhuga og afboðaði fyrirhugaða sumarhátíð í skóginum norðan við Bebenhausen.  Dagurinn varð því skyndilega autt blað.

Krakkarnir fengu að fara út á svalir og prófa að vera léttklædd í hellidembu – það var gaman að sulla í pollunum og verða rennandi blaut – en kallaði á heitt kakó þegar inn var komið.

Næst á dagskrá var að fara í búð og skoða reiðhjól, en heilmiklar vangaveltur um þá reiðskjóta eru á heimilinu – ekkert var þó gert í þessari ferð.

Seinnipartinn fór fjölskyldan svo í listasafnið í Wanne, sem er hér í göngufjarlægð, Kunsthalle, en á bak við hana er skólinn sem stelpurnar fara í einhverntíma.  Gengum við svo hring í kringum hverfið.

Þegar heim var komið fóru börnin og frúin að föndra fiðrildi og blóm til að skreyta vegna afmælisins í næstu viku, á meðan bóndinn fór upp á bóndabæ að kaupa bjór beint af býli.

Eftir sænskar kjötbollur þreif frúin ísskápinn og krakkarnir horfðu svo á Regínu af diski – algjörlega uppáhalds myndin þessa dagana.  Hjónin spiluðu Fimm kórónur á meðan.