Gærdagurinn leið og var allt í einu liðinn, það sem stóð upp úr var að sá skapmikli fékk að prófa einn tíma í krakkaleikfimi – hann er of ungur til að taka þátt! Leikfimin er fyrir 3-5 ára krakka, hann hefði alveg getað allt sem átti að gera, en vildi það ekki.
Setning gærdagsins var sögð við kvöldmatarborðið þegar frúin sagði við þann skapmikla „hættu að setja pylsuna í augað á þér!“
Í dag voru þau keyrð sem þess þurftu og eftir það litu frúin og sá skapmikli í Rúmfatalagerinn hér – hann er álíka og ef svoleiðis búð yrði opnuð á Kópaskeri, með fullri virðingu fyrir Kópaskeri. En þar fæst næstum því ekkert – stefnt að því að fara seinna í stærri búð.
Svo fór frúin með þann skapmikla á kvennamorgun, þar var mikið spjallað. Ein amerísk frú mætir alltaf, hún hefur búið hér undanfarin 7 ár og talar ekki þýsku – en af alkunnri amerískri þekkingu veit hún allt um þýskt þjóðfélag og segir hiklaust við þýsku konurnar að þær viti ekkert um hvað þær séu að tala – hún viti þetta alveg! Dýrlegt.
Eftir mat og heimanám gengum við í grasagarðinn með vatn og nesti, skoðuðum vatnaliljur í blóma og froska og allir fengu að vera berfættir. Mikið stuð og nokkur skordýr veidd.
Bóndinn kom heim á áttunda tímanum eftir fundarhöld í dagslok, allir heitir og sveittir eftir góða veðrið, tæpar 30 gráður í dag.