Freibad og kálfar

Í gær bar það helst til tíðinda að við fórum í köldu útisundlaugina eftir að hefðbundum fyrriparts verkum lauk.  Þar var margt um manninn og krakkarnir komu auga á tivoli sem verið er að setja upp þar við hliðina og verður opnað á morgun.

Sú snögga hitti félaga úr leikskólanum og lék sér með þeim þangað til henni var orðið of kalt.

Í dag barðist frúin hetjulega við hið ómögulega og hafði sigur.  Forsaga málsins er að fyrir tveimur árum keypti hún sér forláta hjól sem kom með hingað til Þýskalands.  Þegar hún ætlaði að kaupa sér barnastól á gripinn var henni sagt að á þessa stærð hjólastells væri ekki hægt að setja stól.  Frúin athugaði málið hjá seljandanum heima á klaka og fékk sömu svör.

Í einum pósti helgarinnar voru auglýst hjól í stórmarkaði og gerði frúin ítrekaða tilraun til að ná í svoleiðis græju, án árangurs, því vopnaðist hún hamri, nagla og rakvélarblaði í baráttunni við að koma sæti á sitt gamla hjól og það hafðist!

Seinnipartinn, eftir svitakóf, sár en ekkert blóð fór frúin í hjólreiðatúr með börnin.  Á bóndabænum sáum við tvo kálfa 2-3 klst. gamla og við sáum þann eldri standa upp í fyrsta skipti.  Þetta voru tvíburar, sem kýrin hafði borið með klukkutíma millibili.  Óskaplega sem hann var valtur á fótunum greyið, en gaman var að sjá þetta.

Þessa dagana spyr sá skapmikli alltaf „hvað sagði hann, mamma, hvað er hann að segja?  Mamma hvað sagðir þú?“  Hann er að átta sig á því að hér er talað annað tungumál og hann er farinn að æfa sig, segir „Läcker“ þegar hann borðar eitthvað bragðgott.

Eftir að bóndinn var kominn heim fór frúin í verslunarferð, verið að draga björg í bú fyrir afmæli helgarinnar.  Meira um það síðar.