Ævintýraleg helgi

Þessa helgina var aldeilis lagt land undir fót.  Í gær var þó byrjað rólega, sofið frameftir, skúffukaka bökuð fyrir hádegið og eftir matinn fór fjölskyldan í vesturbæinn.  Þar var margt um manninn á sumarhátíð hverfisins, fólk að selja úr geymslum sínum, matur og drykkir á hverju horni. Flugvélar smíðaðar og tónlistarfólk að spila.  Sól skein í heiði og bros á hverju andliti.

Þaðan lá leiðin heim til Holm og Ute, vinnufélaga bóndans, í kjölfar þeirra ókum við svo suður á bóginn, langleiðina til Bodensee.  Við enduðum á bóndabæ þaðan sem vinkona þeirra hjóna er og þar átti að halda þjóðlaga og -dansa hátíð um kvöldið.

Í upphafi var reyndað byrjað á sorgarstundu, 24 vetra hross bóndans hafði fallið fyrr um daginn, lá þakinn blómum úti á engi og í kring sátu bóndinn og barnabörn hennar.  Við bættumst öll í hópinn, tengdasonur bóndans og dóttursonur léku nokkur lög á fiðlur, aðmíráls fiðrildi tyllti sér á fót hrossins og tók þátt í athöfninni.

Eftir þessa stund var farið á annað engi, þar var kveiktur eldur og fólk tók að streyma að.  Börn, tengda og barnabörn bóndans, vinir þeirra, tónlistarfólk og nágrannar komu svo alls voru gestir á fjórða tuginn.  Hænsn voru skoðuð, riðið á asna, klifrað í trjám, hjólað og leikið sér.  Kökur og kaffi á boðstólnum og svo fór tónlistin í gang.  Sekkjapípuleikarinn leiddi í þjóðdönsum og dansaðir voru nokkrir slíkir, dansarar frá 2- 70 ára eða um það bil og allir skemmtu sér jafn vel.

Seinna um kvöldið var stoppað til að snæða grillaðar pylsur og ylja sér við eldinn áður en haldið var áfram með dansinn.  Bóndinn hafði unnið á Íslandi í eitt ár um 1970 og hafði bara góða sögu af þeirri dvöl að segja.  Börnin skemmtu sér konunglega og sú sveimhuga sagði að þetta hefði verið besti dagurinn hennar hér.  Sú snögga var lipur í dansinum með einum ungum sveini lítið eitt eldri en hún og sá skapmikli rembdist eins og rjúpan við staurinn að keyra hjólabíl sem hann var allt of stuttur fyrir.

Við ókum svo heim í niðamyrkri og vorum komin heim um miðnætti.

Í morgun var kremið sett á kökuna, hún út í bíl ásamt börnum og nauðsynlegu ferðadóti og ekið í áttina að Munchen.  Þar voru gömul kynni endurnýjuð við Mývetninginn Aldísi, en hún fór sem skiptinemi til Kanada sama ár og ég.  Hún er búsett hér með manni og börnum og áttum við indælan dag og seinnipart með þeim öllum.  Börnin voru öll fimm mjög sátt við að leika saman á íslensku og fullorðna fólkið spjallaði um heima og geyma.  Stefnt er að því að viðhalda þessum tengslum.

Semsagt ævintýralega skemmtileg helgi á enda runnin.