Síðastliðinn föstudag fór sá snöggi í heimsókn í leikskólann sinn, hann verður á skógarmúsa deildinni. Það tók hann um tuttugu mínútur að jafna sig á umhverfinu, en eftir það skemmti hann sér konunglega – honum fannst ótrúlega óréttlátt að vera sendur heim akkúrat þegar krakkarnir voru að fara út að leika. Líklegast verður ekki til vandræða að aðlaga hann í september.
Á mánudaginn var útskrift í leikskólanum hjá þeirri snöggu, búið var til mosaik, skoðuð listaverk og sýndur söngleikur. Foreldrar mættu með eitthvað á borðið og drykki og allir nutu sín í góða veðrinu.
Í gær urðu mikil vonbrigði hjá þeirri sveimhuga, á morgun fer bekkurinn hennar í skólaferðalag til Wilhelma, dýragarðsins í Stuttgart. Þegar hún ætlaði að borga staðfestingargjaldið var henni sagt að hún gæti ekki komið með! Það urðu að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði, hún átti að fá að vera í tíma hjá alþjóða bekknum í staðinn. Ástæðan væri sú að hún kynni ekki nógu mikla þýsku til að skilja kennsluna og ef hún týndist gæti hún ekkert gert. Í dag hringdi svo alþjóðakennarinn og sagði að kennarinn væri með svo stóran bekk að hún treysti sér ekki að taka með barn sem hún gæti ekki átt nógu góð samskipti við.
Þetta finnst okkur alveg hrikalega ósanngjarnt öllum, en við þessu er víst ekkert að gera. Okkur var sagt að ef frúin gæti farið með, þá væri þetta í lagi – en sá skapmikli og sú snögga þurfa manninn með sér – fyrir utan að það er nú lítið fútt í því að hafa mömmu hangandi yfir sér í skólaferðalagi. Sú sveimhuga sagði reyndar í dag „ég vildi að amma væri hér – eða amma og afi, þá gætu þau séð um hin og þú komið með mér.“
Við ákváðum því að koma þeim inn í heimsókn í Wanneskólann í fyrramálið og svo verða þær heima það sem eftir lifir dags og við ætlum að reyna að gera eitthvað skemmtilegt. Í næstu vikur þegar fríið er byrjað förum við svo saman í Wilhelma.
Í dag var þó öllu skemmtilegra, því við fengum heimsókn. Döff hjón frá Íslandi eru hér nokkru austan við okkur í sumarfríi og gerðu sér ferð til okkar. Það var ákaflega gaman, farið á leikvöllinn og upp að kastala þar sem hellingur af eðlum gerði okkur þann greiða að vera sýnilegar. Svo var skundað heim á leið og grillað ofan í mannskapinn.
Þessir dagar hafa verið heitir, fór í 30 stig í gær og það var heitt, heldur svalara í dag og á mánudag, um 25-27 stig.