Fimleikar og sumarhátíð

Í gærmorgun fór bóndinn snemma með sá snöggu í leikskólann því sú sveimhuga mætir seint á föstudögum.  Í morgunsárið komu líka tveir iðnaðarmenn til að laga rimlahlerana okkar, stöngin í stelpnaherberginu brotnaði af í lok maí.  Þeir skrúfuðu eitt stykki úr, kíktu á gluggann á baðherberginu og sögðust hringja síðar.  Svo mikið fyrir þá viðgerð.

Sú sveimhuga fór í skólann, frúin og sá skapmikli í búðarráp, keyptu strigaskó og leituðu að fjölskyldutjaldi – án árangurs.  Eftir hádegið voru fimleikar, á meðan þær skemmtu sér fórum við hin í bæjargöngu, heklunál númer 7 fannst eftir mjög mikla leit.

Eftir heimkomu var hjólað upp að bóndabæ, bjórkassa skilað þangað og svo horft á Önnu í Grænuhlíð í sjónvarpinu.

Í morgun var loksins komið að sumarhátíð þeirrar sveimhuga, hún var haldin fyrir utan Bebenhausen, bílunum var lagt fyrir norðan bæinn og svo gengið um Narturpark Schönbuch, snemma á göngunni komum við að girðingu þar sem villisvín voru haldin og skoðuð.  Eftir það var gengið í rúman klukkutíma áður en við komum að rjóðrinu með eldstæðinu.  Krakkarnir léku sér í læknum og gerðu báta.  Pylsur og sykurpúðar voru grillaðir og kennarinn kvaddur með pompi og prakt áður en gengið var aftur heimleiðis.  Bóndinn og stelpurnar gengu upp fjallið langleiðina heim, en sá skapmikli sofnaði í kerrunni og fór með frúnni í bílnum heim.  Göngugarparnir voru teknir upp í við bóndabæinn uppi á hæðinni.

Skyndiákvörðun var tekin um að skreppa í Rúmfatalagerinn, frúin vissi nokkurn vegin hvar í Pfullingen hann átti að vera – þar fannst fjölskyldutjald, dýnur og ódýrir svefnpokar fyrir hjónin, svo nú erum við sett fyrir útilegur.  Reynt verður á búnaðinn á næstu vikum.

Undir kvöldið var stefnan tekin á miðbæinn þar sem við fórum út að borða á Taj Palace, inversk/ítalskan veitingastað sem er kjörinn fyrir fjölskyldur – krakkarnir fengu pasta á meðan við fengum ekta indverskan mat.  Ljúffengt.