Jólatréð komið í hús

… eða alla vega út á pall.  En byrjum á byrjuninni.  Á mánudaginn var kom sú sveimhuga heim með umsögn og var hún öll hin besta, framúrskarandi nemandi á alla lund.  Eftir hádegið skruppum við í heimsókn í nálægan bæ, Holzgerlingen.  Þar býr fyrrverandi nágranni minn úr Borgarnesi með amrískum eiginmanni og þremur sonum.  Til að gera langa sögu stutta, eyddum við öllum eftirmiðdeginum þar í góðu yfirlæti og loforð um að hittast sem fyrst aftur var það síðasta sem okkur fór á milli.  Krakkarnir skemmtu sér öll konunglega og verður þetta endurtekið áður en langt um líður.  Myndavélin fór því miður ekki með í ferðina.

Í gær voru steiktar um 60 pönnukökur og svo farið í bæinn.  Frúin og krakkarnir röltu örlítið um, keyptu sængurgjöf sem fer til lítillar stúlku í Kanada og enduðu á leikvellinum í Grasagarðinum gamla.  Bóndinn kom þangað og við gengum svo heim til Siggu til að hjálpa henni að hreinsa út úr íbúðinni, þaðan fórum við tveimur stólum, einum lampa og jólatré ríkari – auk nokkurra annarra smærri hluta.

Í dag var stór dagur hjá systrum, síðasti leik- og skóladagurinn og báðar að kveðja skólana sína.  Þær fóru með pönnsur með sér, hjá þeirri snöggu var haldin kveðjuhátíð, hún fékk ámálaðan bol, „Schultüte“ og alla sína pappíra með sér.  Hátíð þeirrar sveimhuga var haldin í garði eins bekkjarbróður hennar, nokkrar mæður mættu með kökur og kruðerí, þar voru kanínur í búri og mikið gaman.  Í skólanum var fjórðubekkingum hent út úr skólanum, kennarar og foreldrar mynduðu keðju við aðaldyrnar og hentu nemendum á milli sín út á dýnu þar fyrir utan.  Þar með lauk skólagöngu þeirra krakka í Hügelschule.

Eftir hádegið komu amerísku stelpurnar í heimsókn, það var sullað á pallinum.  Mamma þeirra kom og við sátum og skröfuðum um heima og geyma.  Eftir að bóndinn kom heim var kvöldmaturinn undirbúinn, Schwebíska kartöflusalatið tókst býsna vel.  Maðurinn hennar kom svo upp úr klukkan sex og við fórum að borða.  Fullorðna fólkið sat úti fram yfir klukkan tíu og skemmti sér konunglega.  Fyrr um kvöldið kom stúdína út og kvartaði yfir því að krakkarnir væru með hávaða og hún gæti ekki lært, svo þau settust fyrir framan sjónvarpið og horfðu á Mamma Mía.  Kvöldið var yndælt – þau fara heim eftir þrjár vikur.

Á morgun er það ferð til Wilhelma í Stuttgart, frúin og krakkarnir, á föstudaginn er ferðinni heitið að Bodensee í útilegu fram á sunnudag.