Bodensee – fyrsta útilegan í Þýskalandsdvölinni

Á föstudagsmorgni voru allir spenntir yfir því að fara í útilegu, fyrst þurfti að skreppa í bæinn og kaupa sængurgjöf til Kanada, setja myndir í framköllun og gera smávægilega verðkönnun á raftækjum.

Eftir hádegið kom bóndinn heim, svefnpokum, dýnum, tjaldi og öllu tilheyrandi var hrúgað í bílinn og haldið af stað suður að Bodensee vatni undir dyggri stjórn Garmsins.

Hinn sauðsvarti almenni Íslendingur var tekinn á útileguna, eins og heima, og stefnan tekin á tjaldstæði við Allensbach sem er norð-vestan við Konstanz – þar var allt fullt og á næstu tveimur tjaldstæðum líka!  Hér bókar maður sem sagt tjaldstæðin fyrirfram eða mætir mjög snemma.  Fyrir algjöra heppni tókst okkur að troðast inn á Reichenau eyju – í síðasta plássið sem var laust í eina og aðeins eina nótt.

Eftir smá bras við tjaldið skelltu krakkarnir sér í vatnið og þeim snögga tókst næstum því að drekkja sér þar – en fannst það bara heldur fyndið.  Kvöldmatinn borðuðum við á veitingastað tjaldstæðisins, við vorum ekki lengi að átta okkur á því að útbúnaður okkar jafnaðist ekki á við nágrannana – hvað þá þeirra sem eru greinilega með fasta búsetu þarna hluta úr ári.  Algjörlega frábært hvað ALLIR voru vel út búnir til útilegu.

Á laugardagsmorgni var svo vaknað snemma í brakandi blíðu, pakkað saman og keyrt svolítið um eyjuna og þaðan niður til Konstanz.  Þar er stytta ein mikilfengleg við höfnina, Imperia, og snýst hún um sjálfa sig.  Við fundum líka sædýrasafn sem var virkilega skemmtilegt að skoða og marga fallega gosbrunna.  Miðborgin er ofsalega falleg og gaman að ganga þar um.  Upp úr hádeginu sóttum við bílinn til að fara um borð í ferju yfir til Meersburg, á leiðinni niður á höfn punkteraði hjá okkur en því var snarlega kippt í liðinn – við fáum að vísu líklegast ekki boð um starf hjá Formúlu 1, en vorum samt mjög fljót.

Ferjusiglingin tók tæpar 15 mínútur og vegna reynslu frá föstudeginum ákváðum við að byrja á því að finna tjaldstæði, eftir þrjár árangurslausar tilraunir við vatnið fórum við aðeins austur af því til Markdorf og fengum pláss til tveggja nátta.  Okkur var farið að gruna að við gætum alveg notað einn dag til ef Hjörvar gæti losað sig úr vinnu á mánudeginum sem gekk eftir.

Þegar tjaldið var komið upp voru allir að kafna, enda hitinn um 30 stig, svo við fórum í sundlaug tjaldstæðisins – sem samkvæmt auglýsingu var hituð í 24 gráður, það voru köldustu 24 gráðurnar sem við hjónin höfum baðað okkur í.  En ljúft var það og ekki gefist upp fyrr en sá snöggi var orðinn blár um varir.  Kvöldmatur á veitingastað svæðisins varð fyrir valinu enda þægilegt að þurfa ekki að fara neitt.

Í gær var stóri skoðunardagurinn, fyrst ókum við suðu-austur að Lindau, gamli bærinn stendur á eyju við ströndina og er ákaflega fallegur.  Við gengum meðfram bökkum eyjunnar, bæði landmegin og við höfnina.  Stutt stopp var við leikvöll, þar sem stóð gamall valtari og lúdó fyrir mennska spilamenn.  Sá skapmikli tók ástfóstri við valtarann og tók því ekki ljúflega ef aðrir krakkar vildu leika sér þar.

Í miðbænum stendur elsta kirkja borgarinnar, hún var byggð um árið 1000, stendur enn og maður á eiginlega ekki orð yfir hvað gert var hér á meginlandinu um það leyti sem Þorgeir lá undir feldi í tjaldinu sínu.

Við höfnina stendur gamli vitinn, byggður á 13. öld, sá nýji er aðeins utar í höfninni, byggður fyrir rúmum 120 árum og er ljónsstytta honum til halds og trausts hinum megin við innsiglinguna.  Landmegin á eyjunni sáum við að slökkviliðið var að undirbúa fjáröflun, mat- og drykkjarsölu.  Í þágu góðs málefnis fengum við okkur hádegisverð þar á meðan ringdi eldi og brennisteini, eða svona þar um bil.

Áætlun okkar hafði verið að stoppa í Kressbronn og skoða miðbæinn þar sem er víst áhugaverður, en við ókum þar í gegn í rigningunni og slepptum ferðinni á strönd Bodensee búa sem er þar rétt hjá.  Hins vegar stoppuðum við í Meersburg að skoða kastalana þar, þeir eru tveir og annar bleikur – andlitið datt af þeirri snöggu þegar hún sá hann.  Þar er nú listasafn og var sýning á verkum með Marilyn Monroe í gangi – við fórum ekki þangað inn.

Gamli kastalinn er frá um 12. öld, þar var hægt að fara inn og skoða vistarverur, sá skapmikli varð andaktugur yfir öllum sverðunum, spjótunum og brynjunum sem voru til sýnis.  Sú sveimhuga naut þess að skoða allt þetta gamla dót og velta fyrir sér hvernig lífið hafði verið hjá þeim sem þarna bjuggu.

Við fórum líka í hallargarð bleika kastalans, það hafði rofað aðeins til og sást yfir í svissneska alpafjallgarðinn, bóndanum til mikillar ánægju.

Þar sem rignt hafði mjög mikið var áætlun B að myndast, fara og skoða aðstæður í tjaldinu og ef allt væri blautt – pakka þá saman og fara heim og sleppa því sem eftir var.  Þess þurfti ekki, allt þurrt inni í tjaldi og við fórum inn í Markdorf að borða.

Eftir kvöldmat áttu hjónin gott spjall við hollenska konu sem hafði mjög gaman af þeim skapmikla – hún var ekki sár við Íslendinga, sagði að kreppan væri gróðafíkn að kenna.

Í nótt rigndi heilmikið, tjaldinu var pakkað saman blautu í morgunsárið – eitthvað svolítið íslenskt við það.  Við ókum upp að Uhldingen Mühlhofen, þar hefur verið byggt upp steinaldarþorp á stöplum úti í vatninu.  Okkur fannst ofsalega gaman að skoða það og var merkilega margt sem minnti á Indíána norður Ameríku, sérstaklega skreytingar á leirkerjum og fatnaði.

Á svæðinu var krakkasvæði þar sem þau bjuggu til hálsfestar, notuðu hnífa úr tinnu til að skera grænmeti og prófuðu að veiða tréfiska með spottum á greinum.  Þeim skapmikla þótti svo mikið til þess koma að hann var á endanum dreginn organdi í burtu – hann ætlaði sko að veiða fleiri fiska!

Við röltum svolítið um bæinn og upp að skriðdýrasafni sem var mjög skemmtilegt að skoða.  Var svolítið eins og gæludýraeigendur hafi ákveðið að setja upp safn með sínum dýrum.

Ætlunin hafði verið að fara heim þaðan með viðkomu í Hohenzollern, en við breyttum því til að geta stoppað í apagarði.  Þar var verndarsvæði fyrir storka og apa frá norður Afríku.  Við töldum um 20 storkahreiður og fuglarnir voru margfalt fleiri.

Aparnir voru inni á afgirtu svæði þar sem gestir máttu ganga um og gefa öpunum poppkorn ef þeir sátu á girðingu meðfram göngustígnum.  Ekki mátti fóðra unga eða mæður þeirra, en þau hlupu bókstaflega um á milli fóta okkar.  Þetta var algjörlega frábær upplifun fyrir alla í fjölskyldunni, en sá skapmikli vildi ekki fóðra nema 2 apa, honum leist ekki á hina.

Að þessu loknu var svo loksins haldið heim, Hohenzollern látið bíða betri tíma og þreyttir en ánægðir fjölskyldumeðlimir skriðu inn á Heuberger-Tor-Weg undir kvöldmat.

Afskaplega ánægjulegri og lærdómsríkri útilegu var lokið – ekki síst gott að vita núna hvað verði gott að taka með í næstu ferð.