Á þriðjudaginn var fór frúin með barnaskarann á kvennamorgun heim til þeirrar frá Suður Afríku, áttum við ljómandi fínt spjall og fékk frúin margar ábendingar um hvað væri skemmtilegt að skoða eins og til dæmis súkkulaðiverksmiðjur Ritter Sport sem eru hér í næsta nágrenni.
Eftir hádegið fór frúin með bílinn í Opel umboðið til að athuga með ástandsskoðanir hér í landi, afgreiðslumanninum fannst íslenska bókin þrælfyndin með skoðun á 7500 km fresti, hér koma bílar inn á 30.000 km fresti! Fékk hún nú samt tíma í næstu viku – næst var að láta gera við varadekkið og fannst verkstæði rétt við Hügelschule. Eftir að heim var komið litu amerísku stelpurnar yfir og hér var glaumur og gleði í lauginni litlu og Playmobil út um allar svalir.
Í gær var dundað heima, þveginn þvottur og saumavélin dregin fram til að laga sitthvað smálegt. Eftir hádegið fórum við í Freibad og hittum þar amerísku stelpurnar, laugin var full og vandræði að fá skáp. Krakkarnir skemmtu sér konunglega í nokkra klukkutíma og eru orðin vel sólbökuð – hitinn hátt í 30° í gær.
Í dag var búðarferð og dekkið sótt – felgan var ónýt svo ný var keypt í staðinn. Eftir hádegið var leikið úti á palli þangað til það var orðið of heitt, þá lögðust krakkar fyrir framan sjónvarpið á meðan frúin prjónaði úr lopa úti í sólinni. Þegar fór aðeins að kólna var skroppið upp á bóndabæ til að kíkja á kálfana, bóndinn kom þangað á eftir okkur og hér heima var bíllinn svo þveginn og bónaður.
Áfram er spáð bongó blíðu – virka daga, en þrumuveðri um helgina.