Dauð moldvarpa

Á miðvikudaginn var leikið hér heima fyrripartinn, en eftir hádegið fórum við í sund með amerísku frúnni og dætrum hennar, vorum þar í rúma þrjá tíma og steiktumst í sólinni.  Allir skemmtu sér afskaplega vel, þau fara heim á miðvikudag í næstu viku.  Nýja ameríska fjölskyldan er komin, þar eru einnig tvær dætur, sú yngri verður með þeirri snöggu í fyrsta bekk, sú eldri annað hvort í 2. eða 3. bekk – þau koma öll hingað í grill á mánudaginn kemur, þá verður heilsað og kvatt.

Í gær gengum við niður að skóla, sú snögga átti að skila inn útklipptum pappírsfiski með smá texta fyrir skólabyrjun, hún hlakkar til að eignast nýja vini og leika við þá og er einnig spennt – var það sem hún skrifaði á fiskinn.  Eftir hádegið hjóluðum við upp að bóndabæ.

Í kvöldgöngunni rakst frúin á dauða moldvörpu sem hún greip með sér, vafði inn í laufblað og tók með heim – göngutúrinn var styttur vegna fnyks af hræinu, en ákaflega spennandi að sjá þetta sjaldséða dýr.

Í dag fór bíllinn í skoðun hjá umboðinu, þaðan var hringt fyrir hádegið og látið vita að lega og bremsudiskur væru ónýt að aftan – hvor við hefðum ekki heyrt ískur, sem við höfðum sannarlega gert og beðið um að væri athugað í síðustu skoðun heima en þar fannst ekkert að!  Sparnaðurinn fer fyrir lítið þennan mánuðinn þar sem bílinn hefur étið hann allan upp!