Að heilsast og kveðjast – lífsins saga

Í gær var farið af stað í bítið á leið í sund í Fildorado sundgarðinn í samfloti við íslensk/þýsk/amerísku fjölskylduna og vorum þar fram að hádegi.  Þetta er afskaplega skemmtilegur garður, inni- og útisundlaug upphitaðar (allt að því íslenskur hiti á vatninu í flestum lauganna), rennibrautir, öldulaug og margt, margt fleira.  Þar er líka hægt að fara í Freibad, sem er óupphituð laug úti – fórum ekki þangað.

Eftir að hafa kvatt samferðafólkið og snætt hádegisverð var farið í bíó, myndin Kóralína varð fyrir valinu, en sá skapmikli komst ekki inn á hana svo frúin fór með honum á Mullwap og ís á eftir.  Heima var svo slakað á, enda hátt í 30 stiga hiti.

Í dag var lítið gert framan af degi, bóndinn fór í verslunarferð að bjarga afmælisdeginum á morgun og kvöldmatum.  Hitinn fór yfir 30 stig og allt frekar rólegt hér heima.  Í kvöldmat höfðum við boðið Muth hjónunum, foreldrum vinkvenna stelpnanna og Smith hjónunum sem eru einnig amerísk og nýflutt hingað til eins árs.  Þau eiga tvær dætur jafn gamlar okkar, svo hér var mikið ærslast og leikið sér, gamlir vinir kvaddir og nýjum heilsað.  Muth verður saknað en gaman að hafa Smith – dætur þeirra verða bekkjarsystur okkar stelpna.

Á morgun verður afmælisferð í Legoland í samfloti við gamla nágrannann úr Borgarnesi, hennar syni 3 og móður sem er í heimsókn.  Á heimleið þaðan erum við boðin í mat í Ulm hjá Nadine og Thorsten.

Á miðvikudaginn förum við af stað í útilegu, svo hér verður ekkert bloggað fyrr en að henni lokinni – vonandi náum við Sviss, norður Ítalíu og vestur Austurríki, jafnvel Lichtenstein, ef allt gengur vel.